Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta frv. og vil svara nokkrum af þeim spurningum sem hér hafa komið fram.
    Hv. 6. þm. Vesturl. beindi til mín nokkrum spurningum um efnisleg atriði í þessu frv. Það er í fyrsta lagi hvort fyrir lægi einhver áætlun um það hvað hægt væri að fækka mikið starfsfólki í Húsnæðisstofnun ef þetta frv. yrði að lögum og eins hvað umdæmisstjórnin þyrfti á mörgum starfsmönnum að halda. Því er til að svara að það liggja engar áætlanir fyrir um það. Ég held að reynslan verði að skera úr um það hvað hægt væri að fækka starfsfóki mikið í Húsnæðisstofnun, en það er alveg ljóst að það eru viðamikil verkefni sem flutt eru frá Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn verði þetta frv. að lögum. Það hefur verið áætlað varðandi umdæmisstjórnirnar að þar mundu nægja 1 -- 2 starfsmenn, en eins og ég segi verður reynslan að skera úr um þetta atriði.
    Hvað varðar 5. gr. frv. sem um er spurt þá er breytingin sem í henni felst eingöngu að því er varðar framkvæmdastjórann. Hann verði skipaður til sex ára í senn. Að því er varðar skrifstofustjóra stofnunarinnar, þá er það með sama hætti í núgildandi lögum. Félmrh. skipar framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra þannig að það er engin breyting á.
    Varðandi umsókn um félagslegar íbúðir og umfang það sem umdæmisstjórnir munu hafa í því efni, ef ég man rétt, þá eru umsóknir um félagslegar íbúðir 1600 -- 1800 á hverju ári. Varðandi áætlunargerð, eins og hér er lagt til að umdæmisstjórn hafi með höndum, þá er það rétt hjá hv. 6. þm. Vesturl. að Byggðastofnun hefur gert áætlanir varðandi íbúðaþörf á landinu. Hún hefur unnið þær áætlanir í samstarfi við húsnæðismálastjórn og Húsnæðisstofnun og ég býst við að það verði áfram með þeim hætti að Byggðastofnun komi á einn eða annan hátt inn í þær áætlanir eftir því sem henni er lagt fyrir af umdæmisstjórnum í því tilfelli.
    Athugasemdir sem fram komu hjá hv. 8. þm. Reykn. sneru að hluta til að því að verið væri að flytja kostnað yfir á landshlutasamtökin. Ég hygg að sú ályktun eða samþykkt sem hann las upp úr frá þingflokki Framsfl. hafi verið gerð áður en frv. var breytt í þá veru að starfsmenn umdæmisstjórnar eru kostaðir af Húsnæðisstofnun en til fjármögnunar rekstrarins að öðru leyti kemur til aðstoð frá Jöfnunarsjóði til þess að mæta því.
    Það er ljóst almennt um þetta frv. eins og ég sagði í minni framsögu að það er tvíþætt. Í fyrsta lagi er verið að taka af allan vafa að því er varðar stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins sem er gert samkvæmt ítrekuðum ábendingum Ríkisendurskoðunar. Í annan stað er verið að flytja þjónustuna í verulegum mæli nær fólkinu út á landsbyggðina með stofnun umdæmisstjórna og er það í samræmi við tillögu nefndar sem skilaði af sér í febrúar 1990 þar sem þeirri hugmynd var fyrst hreyft að það ætti að koma á stofn slíkum umdæmisstjórnum sem mundu stuðla

að betri þjónustu við fólkið úti á landsbyggðinni og meiri valddreifingu. Þar kom einnig fram að eðlilegt væri að fækka stjórnarmönnum í húsnæðismálastjórn með tilkomu umdæmisstjórna. Ég vil benda á það að sæti í þeirri nefnd sem lagði til þessar hugmyndir áttu einnig fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Og ég held að nauðsynlegt sé að benda á það, þar sem það hefur verið gagnrýnt að verið sé að taka fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar úr húsnæðismálastjórn, að þess í stað er verið að leggja til að verkalýðshreyfingin, bæði ASÍ og BSRB, eigi tvo fulltrúa í átta umdæmisstjórnum sem verður komið á fót á öllu landinu þannig að í stað tveggja fulltrúa sem verkalýðshreyfingin hefur átt í húsnæðismálastjórn, sem hefur verið staðsett hér í Reykjavík, koma 16 fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni vítt og breitt um landið. Ég hefði haldið að það væri valddreifing og í anda þess sem ég hygg að flestir stjórnmálaflokkar tali fyrir, þ.e. að auka valddreifinguna og færa þjónustuna nær fólkinu úti á landsbyggðinni.
    Í lokin vil ég segja það að mér kemur nokkuð á óvart það sem fram kom í máli hv. 8. þm. Reykv. Guðmundar H. Garðarssonar, að eitthvað það sé í þessu frv. sem gangi þvert á það samkomulag sem gert var 1986 og að vegna þeirra ákvæða, sem í þessu frv. eru, séu forsendur varðandi skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna brostnar. Ég hygg að hv. þm. geti varla átt við það að verið er að koma á umdæmisstjórnum og valddreifingu, fleiri fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar eigi sæti í stjórnum umdæmisstjórna sem fjalla um húsnæðismálin vítt og breitt um landið. Því síður get ég áttað mig á því að forsendur fyrir skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna séu brostnar þegar er verið að taka af skarið varðandi stjórnsýslulega stöðu stofnunarinnar samkvæmt ábendingum Ríkisendurskoðunar. Þess vegna komu mér þessi ummæli nokkuð á óvart og ég vildi láta það í ljós í þessari umræðu.
    Ég vona að þetta frv. verði tekið til skoðunar fljótlega í félmn. sem fær það til meðferðar. Ég er opin fyrir öllum ábendingum sem fram kunna að koma í nefndinni og í nefndarstarfi um það sem betur mætti hafa. En það er ósk mín og von að þetta mál komi fljótlega til 2. umr. og það fái afgreiðslu á þessu þingi.