Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hefði nú óskað eftir því að hæstv. félmrh. væri viðstaddur hér við umræðuna.
    Hæstv. ráðherra kom inn á það hér í sinni ræðu áðan að honum hefðu komið á óvart ummæli mín um það að í þessu fælist grundvallarbreyting frá samkomulaginu 1986. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það kemur einmitt fram í athugasemdum með einstökum greinum frv., m.a. 3. gr., að hér er um meginbreytingu að ræða í sambandi við skipan stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem felst í því að þeir fulltrúar, sem gerðu með sér það samkomulag í ársbyrjun 1986 sem núverandi húsnæðismálakerfi hefur hvílt á, þ.e. fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambandsins, eru þurrkaðir út úr yfirstjórn húsnæðismála á Íslandi.
    Sé hins vegar litið á þetta frv. eitt út af fyrir sig, út frá því sjónarmiði að það eigi að stofna svokallaðar umdæmisstjórnir, þ.e. út frá því sjónarmiði að umdæmisstjórnirnar eigi að gegna því hlutverki að fjalla um hinn félagslega þátt húsnæðismála, þá er það rétt að þetta frv. færir verkalýðshreyfinguna nær þeim þætti sem félagslegi þátturinn er í húsnæðismálakerfinu. En félagslegi þátturinn í húsnæðismálakerfinu er að því er mér skilst --- hæstv. ráðherra hefur kannski betri upplýsingar um það heldur en ég --- um 30% af því sem við erum að fjalla um. 70% er í almenna kerfinu enn þá. Þannig að ef við lítum á þetta út frá þessu sjónarmiði þá er verið að slíta í sundur áhrif aðila vinnumarkaðarins á almenna kerfið hvað stjórnskipun áhrærir. Það er verið að víkja þeim úr þeirri stjórn Húsnæðisstofnunar sem nú er í dag og setja á laggirnar aðra stjórn með fimm manns, sem út af fyrir sig getur verið ágætt, að fækka í stjórninni, þar sem ekki eru fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, þ.e. þeir hafa ekki lengur áhrif á 70% af því sem hér er um að ræða. Þetta er kjarni málsins. Ég vek einnig athygli á því að umdæmisstjórnirnar samkvæmt frv. eiga fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, að fjalla um félagslega þáttinn, þ.e. um 30% af því heildardæmi sem hér um ræðir. En að því slepptu er það fyrst og fremst hlutverk umdæmisstjórnar að afla upplýsinga og veita ráðgjöf. Þannig að ég er þeirrar skoðunar að með þessu sé verið að veikja áhrif aðila á stjórn húsnæðismála, þ.e. það er ekki verið að dreifa valdinu, það er verið að þrengja valdið í meginatriðum, þó svo að verkalýðshreyfingin, og þá væntanlega líka fulltrúar vinnuveitenda á viðkomandi svæðum, geti haft einhver áhrif innan umdæmisstjórna á félagslegar íbúðir. Það liggur alveg hreint fyrir samkvæmt frv. að það er fyrst og fremst á því sviði sem þessar umdæmisstjórnir hafa áhrif á beint, en að öðru leyti eru þær ráðgefandi og safna upplýsingum, samkvæmt orðanna hljóðan.
    En það er annað, virðulegi forseti, sem mér finnst einnig mjög athyglisvert og undirstrikar raunverulega það sem ég er að segja, að það er fyrst og fremst tilgangur frv. að minnka áhrif aðila vinnumarkaðarins á þessi mál. Það er það sem fjallað er um í athugasemdum við 3. gr. Það er eftirtektarvert og alveg furðulegt að höfundar þessa frv. skuli láta fara frá sér hugleiðingar á borð við það sem kemur fram í athugasemdum við 3. gr. Að leyfa sér að segja --- og hér er um að ræða þrjá embættismenn sem semja þetta frv., þetta er þriggja manna starfshópur sem er skipaður af ráðuneytisstjóra félmrn., ef ég man rétt, skrifstofustjóra Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, og svo hæstaréttarlögmanni. Þetta eru þeir aðilar sem semja þetta frv. Að þeir skuli leyfa sér að láta það koma fram sem segir, með leyfi forseta: ,,Aðalrökin fyrir rétti Vinnuveitendasambands Íslands til tilnefningar virðast hafa verið þau að Alþýðusamband Íslands ætti þar tvo fulltrúa og húsnæðismál vörðuðu aðila vinnumarkaðarins verulega.``
    Ég vek athygli á því að þar segir ,,virðast vera þau``. Það er meira en að virðast, þetta var samkomulagsatriði, þannig að hér er ekki um neitt sem er að virðast. Þarna er beinlínis verið að gefa í skyn annað heldur en er raunverulegt, sem ég tel rangt og villandi. Síðan segir, með leyfi forseta, í sömu grein:
    ,,Vextir á skuldabréfum sem Húsnæðisstofnun ríkisins kaupir af lífeyrissjóðunum hafa veruleg áhrif á vexti í landinu. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands hafa mikilla hagsmuna að gæta af því að lífeyrissjóðirnir fái sem besta ávöxtun af skuldabréfum sem þeir kaupa af Húsnæðisstofnun ríkisins. Hagsmunir Húsnæðisstofnunar ríkisins kunna`` --- ég vek athygli á þessu orðalagi --- ,,hins vegar að vera aðrir og getur það leitt til hagsmunaáreksturs. Fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, sem eru nátengdir lífeyrissjóðunum, kunna að þurfa að gæta þess annars vegar að lífeyrissjóðirnir fái sem besta ávöxtun fjár síns og hins vegar að Húsnæðisstofnun ríkisins fái lán með sem bestum kjörum.
    Með hliðsjón af þessu er lagt til að réttur greindra aðila til tilnefningar í húsnæðismálastjórn verði felldur niður.``
    Hér er beinlínis verið að segja að það eigi að koma þessum aðilum út úr stjórn Húsnæðisstofnunar vegna þess að þeir muni hafa þau áhrif á gang þessara mála, lán Húsnæðisstofnunar og ávöxtun á fjármunum lífeyrissjóðanna. Það kemur svo greinilega fram af því sem segir í þessari greinargerð.
    Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Er ekki vandi verkalýðsins, hins almenna launamanns sem er í lífeyrissjóðum hins almenna vinnumarkaðar, nógu mikill þótt ekki sé með löggjöf og að tillögum opinberra embættismanna verið að framkvæma þann verknað að gera fulltrúum aðila vinnumarkaðarins erfiðara fyrir að tryggja það að þessir peningar séu rétt ávaxtaðir þannig að lífeyrissjóðirnir geti borgað þann lífeyri sem þeim ber samkvæmt reglugerðum? Er ekki nægilegt að hið háa Alþingi þurfi einu sinni á ári að samþykkja það að borga 80% af öllum lífeyrisgreiðslum sem eru á ábyrgðarsviði ríkisins í gegnum fjárlög? Vilja menn þá þróun að hér verði komið með tillögur og frumvörp inn á Alþingi um að verðbæta og verðtryggja betur hina almennu lífeyrissjóði með sama hætti og opinberir starfsmenn fá sinn lífeyri verðtryggðan í gegnum fjárlög? Það er svo augljós tilgangur þessa frv. að víkja fulltrúum aðila vinnumarkaðarins út af því áhrifasvæði sem er að fjalla um þessi mál að það þarf ekki að hafa mörg orð um það.
    Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að hér er verið að brjóta upp það samkomulag sem gert var, og það hefur enginn hreyft mótmælum við því. Hér áðan töluðu tveir hv. þm. sem eru áhrifamiklir í verkalýðshreyfingunni. Hvorugur þeirra mótmælti því að hér væri verið að minnka áhrif eða breyta grundvallarforsendum samkomulagsins frá 1986, með þeirri niðurstöðu sem ég gat um, að raunverulega er verið hér að taka fyrsta skrefið í þá átt að afnema þá kvöð að lífeyrissjóðirnir, til þess að sjóðfélagar öðlist rétt í almenna húsnæðismálakerfinu, þurfi að kaupa fyrir 55% af árlegu ráðstöfunarfé sínu skuldabréf af Húsnæðisstofnun. Hins vegar kemur það vel til greina, ef menn vilja virða þetta frv. og skoða það, að verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur taki afstöðu til þess sem heitir hinn félagslegi þáttur. En það er bara annað mál og efnir til nýrra samninga og annarra frumvarpa. Þá erum við kannski að tala um það að óska eftir því við aðila vinnumarkaðarins að samið verði um skyldukvöð og að kaupa kannski fyrir 25 -- 30% af árlegu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna vegna félagslega þáttarins. Þar munu áhrif þessara aðila verða áfram nokkur samkvæmt frv., þó ekki fullnægjandi að mínu mati.
    Ég gat um það áðan, virðulegi forseti, að við fulltrúar Sjálfstfl. mundum skoða þetta mál mjög vel og ítarlega í félmn. Við munum óska eftir því að ýmsir aðilar verði til kvaddir til að gefa umsagnir og segja sitt álit á þessu frv. þannig að ég mun ekki orðlengja þetta frekar.