Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Karl Steinar Guðnason :
    Hæstv. forseti. Í umræðunum um þetta frv. hefur gætt mikils misskilnings að mínu mati. Hér hafa komið fram fullyrðingar sem ástæðulaust er annað en að mótmæla. Ég held t.d. varðandi kerfið frá 1986 að það hafi verið hugur manna að allir fengju sama rétt sem til hans hafa unnið og hann kæmi ekki síður til landsbyggðarinnar en annarra. Hins vegar tel ég að reynslan af kerfinu frá 1986 hafi ekki orðið eins og við ætluðumst til sem sömdum þetta á sínum tíma og því hafi verið ástæða til að breyta til.
    Annað er það sem ég vil segja hv. síðasta ræðumanni, sem talar um að koma þjónustu Húsnæðisstofnunar í bankana, að það er nú þegar búið að semja um þá hluti og það tekur gildi 15. apríl. --- Ég ætlast til þess að hv. þm. taki eftir því sem verið er að segja úr ræðustól fyrir málgleði. --- Það er búið að semja við bankana um það að koma þjónustu í sambandi við húsbréfin yfir í bankana ( GHG: Það er gott.) og það tekur gildi núna 15. apríl. Það er því óþarfi að fara stórum eða mörgum orðum um að þetta þurfi að gera.
    Ég tel að á engan hátt sé hallað á verkalýðshreyfinguna í þessu frv. Ég tel hins vegar að það megi hugsa sér að áhrif hennar verði meiri með þessu fyrirkomulagi en áður vegna þess að fólkið á stöðunum hefur meira um það að segja hvernig málum verður komið fyrir. Það er alveg rétt að það lýtur sérstaklega að félagslega kerfinu en ég tel að það sé hlutverk okkar hér á Alþingi að setja meginreglur um það hvernig skuli fara með húsbréfin eða almenna kerfið og væntanleg yfirstjórn Húsnæðisstofnunar eigi bara að gæta að því að farið sé að lögum. Það á ekkert að mismuna einum eða neinum. Hvað varðar félagslega kerfið er það oft mat hverjir eigi að fá íbúðir og hvað mikið eigi að byggja hverju sinni en í almenna kerfinu eiga allir að geta gengið að þessum hlutum sem vísum.
    Ég vil aðeins koma þessu á framfæri því að mér finnst að menn hafi ekki tekið tillit til þess hvað frv. hefur að segja.
    Þessi mál verða rædd í nefndinni og á ég von á því að þá sjái menn að þetta frv. er til mikilla bóta og tel því ástæðulaust að fara fleiri orðum um það.