Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti, aðeins örfá orð. Í máli hv. 8. þm. Reykv. kom fram að hann taldi að með breytingunni 1986 hafi ekki verið svo mikið aukið við fjármagnið heldur hafi því raunverulega verið miðstýrt inn í Húsnæðisstofnun. Ég held að það sé mjög mikil einföldun að setja málið fram með þeim hætti vegna þess að það sem raunverulega skeður við þá breytingu var að fólk fékk miklu stærra hlutfall af sínu láni með niðurgreiddu fjármagni, með mjög lágum vöxtum. Og hefði auðvitað verið fróðlegt að vita --- ef hv. þm. væri viðstaddur, ég sé að hann hefur vikið frá --- hvort lífeyrissjóðirnir hefðu verið tilbúnir til þess að lána sínum sjóðfélögum með jafnlágum vöxtum og eru hjá Húsnæðisstofnun. Vextirnir hafa hækkað tiltölulega lítið frá því 1986, um 1%, en aftur á móti hafa vextir á lánum sem lífeyrissjóðirnir veita sínum sjóðfélögum hækkað mun meira á þeim tíma. Þannig að á þessu varð náttúrlega veruleg breyting, fólk fékk miklu hærra hlutfall lánað með lægri vöxtum. Efa ég að lífeyrissjóðirnir hefðu treyst sér til, miðað við þeirra stöðu, að lána sínum félögum með þeim vaxtakjörum sem Húsnæðisstofnun býður upp á. Það er því auðvitað ljóst að það samkomulag sem var gert á sínum tíma er miklu víðtækara en mér fannst koma fram í máli hv. þm. hér fyrst.
    Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, það hafa tekist samningar við bankana um að flytja húsbréfaviðskiptin inn í banka og lánastofnanir, en einungis að hluta til. Þar er fyrst og fremst um að ræða greiðslumatið og þetta þarf auðvitað að gerast í áföngum eins og annað. En ég hygg að ég og hv. 8. þm. Reykv. séum sama sinnis um að eðlilegt sé að slík verði þróunin að bankarnir taki upp miklu meiri þjónustu
að því er varðar húsnæðismálin og skref í þá átt hefur verið tekið sem kemur til framkvæmda 15. apríl.
    Ég held að nauðsynlegt sé að menn hafi það í huga sem ég sagði, að sjóðfélagar í lífeyrissjóðunum fengu tiltölulega hátt lánahlutfall með lágum vöxtum með þeirri breytingu sem varð 1986 sem ég tel að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki treyst sér til þess að veita. Og það er það sem ég vildi segja hér, hv. þm., þegar vikið var að því að ekki væri verið að auka fjármagnið heldur væri verið að miðstýra því. Vaxtahækkunin hjá lífeyrissjóðunum hefur nefnilega verið töluverð á þessum tíma, frá 1986. Ég hygg að í mörgum tilfellum hafi vextirnir, sem sjóðfélagar þurfa að borga af lánum sem veitt eru til húsnæðismála enn þá í gegnum lífeyrissjóðina, hækkað um kannski 2%, og það hefur farið mjög hljótt. Það hafa fáir vitað af því þegar lífeyrissjóðirnir hafa hækkað vextina á sína sjóðfélaga vegna þeirra lána sem við taka hjá lífeyrissjóðum. Er það ekki rétt að þeir hafi hækkað frá 1986, svo við tökum Lífeyrissjóð verslunarmanna sem dæmi, úr 5% í 7%? Það eru þær upplýsingar sem ég hef um hækkun hjá þeim og þá leiðréttir hv. þm. þetta ef ekki er rétt með farið. En mér er sagt að það sé algengt að þeir hafi hækkað um þetta. Og það er

ekki svo lítill hvellur hér í þjóðfélaginu þegar rætt er um breytingar á vöxtum í húsnæðislánakerfinu. Það vita hv. þm.
    Frá húsnæðismálastjórn hefur komið lítið af tillögum um að minnka þann vaxtamismun sem er á inn - og útlánum en það hefði maður nú talið að væri eitt af hlutverkum húsnæðismálastjórnar. Ég hygg að það sé tilvitnað þegar verið er að ræða um hagsmuni Húsnæðisstofnunar ríkisins í þessari greinargerð að þeir kunni hins vegar að vera aðrir og getur það leitt til hagsmunaárekstra. Og eins það sem ég vitnaði til hér áðan þar sem segir í samþykkt Húsnæðisstofnunar að það sé hlutverk hennar að tala máli umbjóðenda sinna. Hvað þýðir það? Verður þá hlutverk hennar að reyna að halda vöxtum sem mest niðri fyrir lántakendur? Er það það sem átt er við með þessu? Ég hygg að málið sé kannski ekki svona einfalt og mér finnst að það hafi verið dregið hér upp.
    Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og vona að nefndin taki þetta frv. fljótt til meðferðar og það komist fljótlega aftur hér til 2. umr. í þessari deild.