Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. flytur nú hið fjórða sinn frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Í framsöguræðu sinni hinn 29. jan. sl. nefndi hann það sjálfur að líkast til væri þetta rangnefni á frv. og betra heiti væri: Frumvarp til laga um afnám lánskjaravísitölu. Ég er honum sammála um það,
enda fjallar 1. gr. frv. einmitt um það mál og annað eru afleiðingar eða frávik frá því.
    Vegna þeirra orða hv. flm., 3. þm. Suðurl., að lánskjaravísitalan væri feimnismál hjá ríkisstjórninni, vil ég taka það skýrt fram að svo er alls ekki í mínum huga. Lánskjaravísitölumálið er fyrst og fremst hagtæknilegt málefni sem á að ræða sem slíkt. Þar ráða atvik og aðstæður því hvað rétt er að gera. Þetta er einn af mikilvægustu þáttunum á lánsmarkaðnum og þess vegna ber að ræða það ástríðulaust.
    Hv. 3. þm. Suðurl. vitnaði í sínu máli áðan til ræðu hv. 2. þm. Vestf., sem mér því miður auðnaðist ekki að hlýða á hinn 29. jan. Ég vil taka það fram, vegna þess sem þar kom fram, að hv. 2. þm. Vestf. hafði getið sér þess til að ég væri fjarverandi þann dag vegna þess að ég vildi ekki ræða málið, að ástæðan fyrir minni fjarveru var sú að ég var við útför Ólafs V. Noregskonungs, velgerðarmanns Reykholts. Það er því öllu til skila haldið um það hver skýringin var á því að ég gat ekki þann dag tekið þátt í fundum Alþingis.
    Hv. 3. þm. Suðurl. vitnaði líka til orða hv. 1. þm. Vestf. við umræður um þetta mál og m.a. þess að þörf væri á að ríkisstjórnin gerði grein fyrir sínu máli, gerði hreint fyrir sínum dyrum. Það hefur hún gert og frá því mun ég skýra hér í mínu máli.
    Af greinargerðinni með frv. og framsöguræðu hv. flm. má ráða að hann hefur í huga afnám verðtrygginga sem miðast við vísitölur á öllum fjárskuldbindingum á innlendum fjármagnsmarkaði, að spariskírteinum ríkissjóðs undanskildum. Í frv. er hins vegar aðeins fjallað um afnám lánskjaravísitölu þótt aðrar vísitölur tíðkist líka við verðtryggingu fjárskuldbindinga, t.d. framfærsluvísitala og byggingarvísitala.
    Umræður um þetta frv. gætu sannarlega gefið tilefni til þess að fjalla ítarlega um kenningar um hlutverk vaxta og verðtrygginga í hagkerfinu og reyndar um þróun vaxta og peningastærða á innlendum fjármagnsmarkaði á liðnum áratugum og reynslu okkar af verðtryggingunni. Ég mun þó ekki taka tíma þingdeildarinnar til þess í dag, enda hefur það efni verið hér margsinnis rætt, bæði á Alþingi og annars staðar á opinberum vettvangi. Þó held ég að okkur sé það öllum hollt þegar þessi mál ber á góma að rifja upp reynslu þjóðarinnar á áttunda áratugnum, þegar vextir í þjóðfélaginu voru ákveðnir einhliða af stjórnvöldum og þeim haldið langt undir verðbólgu með þeim afleiðingum að innlendur sparnaður hríðminnkaði og stórkostleg eignatilfærsla átti sér stað frá þeim sem héldu í heiðri fornar dyggðir sparnaðar og lögðu til hliðar fé í bönkum og lífeyrissjóðum og til hinna sem vissu að lán voru gjafir og höfðu aðgang að skömmtunarstjórum fjármagnsins í bönkum og lánasjóðum.
    Verðtrygging fjárskuldbindinga, sem heimiluð var með setningu Ólafslaga á árinu 1979, breytti þessu. Þar var tímans straumi breytt og smátt og smátt hefur tekist að snúa vörn í sókn. Verðtrygging er auðvitað ekkert annað en það að viðhalda raunverulegu verðgildi fjárskuldbindinga. Í flestum ríkjum gegna nafnvextir þessu hlutverki og með þeim er leynt og ljóst tekið tillit til væntanlegrar verðbólgu á lánstímanum. Þegar verðbólga er mikil um langt skeið, eins og því miður hefur verið hér viðvarandi þar til í tíð þessarar ríkisstjórnar, er það fyrirkomulag hins vegar mjög óhentugt, einkum vegna þungrar greiðslubyrði lántakenda í upphafi lánstíma þegar háir nafnvextir verða mönnum að drápsklyf. Sé verðbólgan hins vegar engin eða lítil eru áhrif verðtryggingarinnar engin eða lítil og lítill munur á því að verðtryggja lánin eða nota nafnvexti þar sem menn taka tillit til þeirrar verðbólgu sem væntanleg er á lánstímanum.
    Þegar þetta er skoðað er alveg eðlilegt að við hér á Íslandi höfum komist að sömu niðurstöðu og menn hafa gert í 22 af 24 aðildarríkjum Efnahags - og framfarastofnunarinnar OECD, nefnilega þannig að í 22 af þessum 24 ríkjum eru engin sérstök lagaákvæði um verðtryggingu fjárskuldbindinga heldur ræður þar venja og frjálsir samningar manna á meðal um það hvort verðtryggingu er beitt eða ekki. Þetta er að mínu áliti hið eðlilega fyrirkomulag. Einungis í tveimur þessara ríkja er verðtryggingin beinlínis bönnuð, í Þýskalandi og Hollandi, vegna þess að þar er svo djúpt í þjóðarsálinni dapurleg reynsla af óðaverðbólgu á fyrri hluta þessarar aldar. Þar ræður náttúrlega söguleg skýring sem ekki er til að dreifa hér, þökk og lof.
    En þá vík ég að samkomulaginu um myndun ríkisstjórnarinnar frá 10. sept. 1989. Þar segir m.a., og til þess vitnaði hv. flm. hér í sinni upphafsræðu efnislega en, með leyfi forseta, eru þau orð nákvæmlega á þessa leið: ,,Stefnt verður að því að afnema vísitöluviðmiðanir í lánssamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verður við að árshraði verðbólgu verði innan við 10% á sex mánaða tímabili. Vísitölutenging fjárskuldbindinga til langs tíma verður athuguð sérstaklega og þess gætt að markaðsstaða spariskírteina ríkissjóðs veikist ekki. Áfram verður heimilt að gengistryggja lánssamninga.``
    Þegar við lítum á mánaðarlegar hækkanir framfærsluvísitölu eða lánskjaravísitölu, umreiknum þær til árshækkunar, er ljóst að nokkra undanfarna mánuði hefur þetta skilyrði verið uppfyllt. Það eru markverð tíðindi. Þegar ljóst varð að svo mundi verða lagði ég fram í ríkisstjórninni í byrjun desember sl. tillögur um markvissa áætlun um það hvernig stjórnvöld skyldu vinna að því að minnka útbreiðslu verðtryggingar á innlendum fjármagnsmarkaði, að sjálfsögðu í samræmi við það samkomulag sem gert var þegar ríkisstjórnin var mynduð. Þessar hugmyndir voru ræddar ítarlega í ríkisstjórninni og á fundum ráðherra með bankastjórn Seðlabankans. Samþykkt var áætlun um þetta efni skömmu fyrir jól og Seðlabankanum falið að sjá um framkvæmd hennar og ég ætla að það hafi

ekki farið fram hjá hv. þm. því frá þessu var rækilega skýrt opinberlega.
    Þá vík ég að öðrum þætti þessa máls en hann er sá að með nýjum gjaldeyrisreglum, sem tóku gildi 1. sept. og 15. des. á liðnu ári, og þeim framtíðaráformum um aukið frelsi fram til ársloka 1992 sem í reglunum felast um fjármagnshreyfingar var gerð grundvallarbreyting á tengslum íslenska fjármagnsmarkaðarins við alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Eftir því sem þessi tengsl verða sterkari og nánari, verður að sjálfsögðu nauðsynlegra fyrir okkur að búa svo um hnútana að svipaðar meginreglur gildi á innlendum fjármagnsmarkaði og erlendum, þar á meðal um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Jafnframt þarf að gæta þess að breytingar á þeim reglum sem gilda á innlendum fjármagnsmarkaði dragi ekki úr trausti lánveitenda eða lántakenda því báðir þessir hópar hafa nú í auknum mæli möguleika til að leita á alþjóðlegan markað fremur en innlendan. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar menn ræða og ráðgera breytingar á fyrirkomulaginu sem hér hefur ríkt. Það er einmitt af þessum ástæðum, til þess að varðveita hinn innlenda sparnað og hinar innlendu fjármagnsmarkaðsstofnanir, að ég tel að skyndilegar og róttækar breytingar, eins og t.d. skyndilegt bann, svipting verðtryggingar af fjármagnsmarkaðinum, þjóni ekki hagsmunum íslensks efnahagslífs, geti reyndar verið skaðlegar og ósanngjarnar. Það sé eðlilegra að vinna á markvissan hátt að því að draga úr vægi verðtryggingarinnar, skapa þær aðstæður hér innan lands að frjálst val ríki um notkun verðtryggingar og ákveðnar hefðir myndist í því sambandi. Þetta er spurning um traust, ekki eingöngu um tækni. Þess vegna var sú leið, sem ég hef þegar skýrt frá, farin í áætlun ríkisstjórnarinnar. Við mótun þessarar áætlunar sem ég nefndi áðan, um markvissar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til þess að draga úr útbreiðslu verðtryggðra fjárskuldbindinga, var einkum litið til þriggja meginsjónarmiða.
    1. Ekki verði um lögþvingun að ræða heldur kappkosti stjórnvöld að skapa þær aðstæður í efnahagslífinu og á innlendum fjármagnsmarkaði að verðtryggðar skuldbindingar víki fyrir óverðtryggðum. Það verði því fyrir frjálst val aðilanna á markaðnum að dragi úr mikilvægi verðtryggingarinnar.
    2. Að ekki verði vikið frá núverandi vaxtaákvörðunarfrelsi þannig að sparifjáreigendur geti treyst því að nafnvextir breytist í hátt við verðbólgustigið í landinu.
    3. Að markaðir verði vel skilgreindir áfangar þannig að ljóst sé á hvern hátt stjórnvöld vilja hvetja til þess að óverðtryggðar fjárskuldbindingar nái aukinni útbreiðslu á kostnað verðtryggðra sem t.d. þurfa að falla saman við áfangana um vaxandi frelsi í gjaldeyrismálum.
    Þessi áfangaskipting er þannig að í fyrsta áfanga, sem hefst á þessu ári, er gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi út óverðtryggð spariskírteini til eins og hálfs til þriggja ára auk spariskírteina sem tengd verði gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU til þess að glöggur samanburður fáist á því hver séu kjörin hjá sama

trausta lántakandanum, ríkissjóði, þegar annars vegar er um að ræða óverðtryggðar skuldbindingar og hins vegar verðtryggðar. Umræður um þetta mikilvæga mál hafa þegar hafist milli fjmrn. og Seðlabanka. Jafnframt mun Seðlabankinn eiga viðræður við innlánsstofnanir um ný innlánsform á sparireikningum í þeim tilgangi að draga úr vægi hinna verðtryggðu innlánsreikninga án þess, og það er mjög mikilvægt, að það komi niður á samkeppnisstöðu innlánsstofnananna gagnvart öðrum fjármálastofnunum og öðrum sparnaðarformum. Um áramótin tók líka sú breyting gildi að lágmarkstími verðtryggðra útlána var lengdur úr tveimur árum í þrjú ár.
    Í öðrum áfanga þessarar áætlunar sem hefst um næstu áramót verður útgáfa óverðtryggðra og gengistryggðra spariskírteina ríkissjóðs aukin. Þetta verður gert um leið og í ljós hefur komið að sá mikli árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn verðbólgunni er varanlegur, að stríðinu hefur verið lokið með sigri. Jafnframt verða opinberir lánasjóðir og aðrar fjármálastofnanir hvattar til þess að bjóða óverðtryggðar fjárskuldbindingar. Um næstu áramót verður einnig sú breyting, að því tilskildu að samþykkt verði fram komið stjfrv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, að erlendum aðilum verði heimilt að eignast allt að fjórðungi hlutafjár í íslenskum hlutafélagsbönkum, og, sem er enn mikilvægara, að erlendir hlutafélagsbankar megi opna útibú hér á landi þannig að það fáist beinn samanburður á þeim kjörum sem slíkar stofnanir geta boðið og þær innlendu.
    Lokaskrefið í þessari stefnu ríkisstjórnarinnar um stigminnkandi vægi verðtryggingar á fjárskuldbindingum og um opnun fjármagnsmarkaðarins verður stigið samkvæmt þessari áætlun í ársbyrjun 1993, um leið og síðustu fjárhæðatakmarkanirnar á langhreyfingum fjármagns frá landinu falla úr gildi. Stefnt er að því að lagaákvæðið um verðtryggingu fjárskuldbindinga falli úr gildi þann dag. --- Ég endurtek, stefnt er að því að lagaákvæðið um verðtryggingu fjárskuldbindinga falli úr gildi þann dag. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að Seðlabankinn reikni lánskjaravísitöluna mánaðarlega, enda er það nauðsynlegt vegna þeirra verðtryggðu fjárskuldbindinga sem í gildi verða og ekki mega rýrna miðað við það sem um var samið. Frá og með ársbyrjun 1993 er því ráðgert að notkun verðtryggingar á Íslandi ráðist alfarið af frjálsu vali aðilanna á fjármagnsmarkaðinum en ekki af lagasetningunni.
    Virðulegi forseti. Af máli mínu má ráða að það er eindregin mín niðurstaða að frv. sem hér er til umræðu sé ekki nauðsynlegt af þeirri einföldu ástæðu að það hefur þegar verið tekið á þeim vanda sem því er ætlað að bregðast við með öðrum og raunhæfari hætti eins og ég hef hér lýst.