Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það eru ýmis vandamál sem forsetar eiga við að stríða. Eitt af þeim hefur verið að halda ráðherrum í þessum þingsal þegar þeir hafa átt þar að vera. Hitt er ekki síður orðið umhugsunarefni að mæting þeirra í dag hefur verið með albesta móti, miðað við þá sem eru í landinu, og segir það sína sögu um það hvert stefnir í viðverunni að það virðist alger nauðsyn að hafa tvöfalt gengi ráðherra, þ.e. aðra til að vera á þingi og hina til að vera erlendis. Og mér sýnist að það sé nú að verða nokkuð mikið alvörumál miðað við stöðuna.
    Ég veit að oft er deilt um merkingu íslenskrar tungu og orðhagir menn leita gjarnan eftir þeim möguleikum að hafa margt tvírætt. Að mínu viti má segja að það sé góð regla og nauðsynleg að notast við löggilta skjalaþýðendur þegar erlendir samningar eru túlkaðir þannig að ekki eigi að fara á milli mála hvað í þeim stendur. En það virðist einnig blasa við sem staðreynd að stjórnmálamenn verða að leita til íslenskusérfræðinga til þess að túlka skrifaða stjórnarsáttmála þannig að ekki fari á milli mála hvað þar stendur samkvæmt eðlilegum málskilningi.
    Hæstv. ráðherra hefur hér látið að því liggja að við það hafi verið staðið sem í stjórnarsáttmálanum stóð í þessum efnum. Þetta sé einfaldlega hin rétta túlkun á íslensku máli. Satt best að segja hef ég ekki hugsað mér að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þá hluti. Ég tel að það sé engum til sóma að leika sér svo að sannleikanum sem þar kom fram. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það sem hæstv. ráðherra kallar ,,hagtæknileg atriði`` birtist hinum almenna manni á þann veg að þegar hæstv. ráðherra, sem dómsmrh. á sínum tíma, lagði fram frv. til laga um Bifreiðaskoðun Íslands og þingheimur samþykkti það frv., ( Viðskrh.: Meiri hlutinn.) Þingheimur samþykkti, þ.e. eins og venja er til, einhverjir voru á móti vissulega, þá samþykkti þingið jafnframt að hækka skuldir á öllum þeim Íslendingum sem höfðu skrifað undir fjárskuldbindingar með lánskjaravísitölu. Þetta kallar ráðherrann ,,hagtæknilegt atriði``. Þetta er ekki eina frv. sem flutt hefur verið á undanförnum árum sem verkar á þennan veg. Ég gæti trúað því að stór hluti stjfrv. hefði haft sömu afleiðingar, þ.e. í þeim fælist hækkun á fjárskuldbindingum manna sem hafa skrifað undir fjárskuldbindingar þar sem lánskjaravísitalan er inni.
    Þetta þverbrýtur minn skilning á öllu réttlæti í þessum efnum. Ég sé ekkert skylt á milli þess að Jón Jónsson taki lán með lánskjaravísitölu og þess að við tökum ákvarðanir um það að breyta Bifreiðaskoðun ríkisins yfir í Bifreiðaskoðun Íslands hf. Þeir sem telja að þetta sé í réttum farvegi hljóta þá líka að verða að gera grein fyrir því hvers vegna þetta á að fara saman, hvers vegna slík lagasetning á að kalla á hækkun á skuldum manna.
    Ég hlustaði á hv. flm. þessa frv. lesa upp nokkur atriði úr minni ræðu. Nú er það svo að skilningur á henni er betri ef hún er lesin í heild en þegar nokkur atriði eru tekin út úr henni. Það sem ég vildi leggja áherslu á í fáum orðum var að ég tel að almenningur í þessu landi sem vill spara eigi rétt á sömu ávöxtunarmöguleikum og almenningur í löndunum í kringum okkur, hvorki verri ávöxtunarmöguleikum né betri. Og þessi mikli fjárstyrkleiki ríkisins sem kom fram hjá flm. held ég að sé á misskilningi byggður.
    Hins vegar lít ég svo á að ef þessi þjóð ætlar að hafa sérreglur í þessum efnum muni það kalla á fjármagnsstraum frá landinu ef hér væru verri möguleikar í þessum efnum en erlendis. En það er algerlega ástæðulaust að hafa hér sérhannað kerfi sem hefur fært okkur m.a. það, ef við berum saman þróunina á þessum áratug og hinum síðasta, að hagvöxturinn hefur stöðvast í landinu. Vegna hvers? Vegna þess að menn hafa með réttu ekki fundið svo arðsama möguleika til atvinnureksturs að þeir skiluðu þeirri ávöxtun sem farið er fram á.
    Það er athyglisvert að það land sem siglir hraðbyri fram úr öllum löndum Evrópu í hagvexti, í uppbyggingu og í styrkleika síns efnahagslífs, Vestur - Þýskaland, tekur ekki í mál að viðhalda skuldbindingum á þann veg sem lánskjaravísitalan gerir ráð fyrir. Það má vel vera að menn vilji fara í smiðju til einhverra annarra en Vestur - Þjóðverja til þess að átta sig á þessum hlutum. En ég tel að það sé allmikill hroki íslenskra ráðherra ef þeir telja sig vita betur en Vestur - Þjóðverja í þessum efnum.
    Nú er það svo að ég bar það á hæstv. ráðherra að e.t.v. væri hann fjarverandi vegna þess að hann hefði ekki áhuga á að hlusta á þessa umræðu. Hann upplýsti hér að hann hefði verið að fylgja ástsælum konungi Noregs til grafar. Um það er allt gott að segja, en það skal játað að mér var ekki kunnugt um að það flokkaðist undir verksvið viðskrh. að sinna þeirri skyldu. En hitt verður fróðlegt að fá upplýst, hvað veldur því, þegar ráðherra er í þinghúsinu og hefur lýst því yfir að hann hyggist vera við þessa umræðu, að hann þurfi þá að hverfa á brautu. Varla er önnur útför til staðar á þessari stundu.