Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera kominn hér aftur í salinn. Ég þakka honum fyrir svör hans áðan þó ég hefði nú viljað heyra meiri boðskap, meiri erkibiskupsins boðskap en þar kom fram því sannarlega var það ekki bitastætt sem hæstv. ráðherra hafði að flytja og loforð í árslok 1993. En þetta átti að ske þegar verðbólgan væri innan við 10% á einu ári, sem þegar er orðið.
    Hæstv. ráðherra gumaði af að það sem hefði gerst við upptöku verðtryggingar samkvæmt Ólafslögum hefði skipt sköpum frá því áratuginn þar á undan. Í umræðunum um daginn leyfði ég mér að vitna í nýútkomna skýrslu Seðlabankans. Ég gríp ofan í þessa skýrslu. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég til minna orða:
    ,,Hún [þ.e. skýrsla Seðlabankans] gaf í skyn að breytt vaxtastefna á undanförnum árum hefði örvað innlendan sparnað og dregið úr eftirspurn eftir lánum. En hagskýrslur þessa sama banka segja allt annað. Almenn verðtrygging inn - og útlána samkvæmt Ólafslögum tók gildi frá ársbyrjun 1982. Lánskjaravísitalan tók þá viðbragð upp á við og jókst um liðlega 60% það ár. Hún fór upp í liðlega 74% árið eftir, 1983. Við þennan verðbótaþátt vaxta samkvæmt vísitölunni bættust svo raunvextir, 4% 1983 og 7% 1987.
    Dró úr útlánum bankakerfisins við þessa svimháu vexti? Nei, þvert á móti. Þeir jukust samkvæmt Hagtölum Seðlabankans um meira en 300% á tveim árum. Meðaltalsvextir á öllu tímabilinu 1982 -- 1989 voru um 40%. En á sama tíma nítjánfölduðust útlánin. Þessi útkoma stafaði af því að vaxtahækkanir eru óvirkar þegar jafnvægisleysi ríkir í peningamálum og ríkisfjármálum, enda jókst peningamagn langt fram úr þjóðarframleiðslu að verðgildi. Erlend lán voru tekin og ríkissjóður lengst af rekinn með halla. Þetta ætti hver einasti alþingismaður og ráðherra að vita, en margir halda áfram að hamra á vitleysunni, þar á meðal hæstv. ráðherra.``
    Síðar vitnaði ég aftur, með leyfi forseta, í þessa sömu skýrslu: ,,En hvað um sparnaðinn? Jókst hann á hávaxtaskeiðinu sem ég nefndi, 1982 -- 1983? Nei. Þrátt fyrir hæstu innlánsvexti sem þekkst hafa hér á landi jókst sparnaður minna en sem nemur viðbættum vöxtum. Með öðrum orðum minnkaði grunnsparnaður, fé sem fólk leggur til hliðar af tekjum sínum inn á bundna sparifjárbók. Þegar bankamenn segja að sparnaður hafi aukist eiga þeir við innlán sem ekki teljast til sparnaðar, þ.e. tékkareikningar, t.d. svonefndir viðskiptakjarareikningar, eða almennar bækur sem notast á sama hátt og tékkareikningar. Þarna er um enn eina fölsunina að ræða.
    Loks má geta þess að erlend lán jukust allt hávaxtaskeiðið með sama hraða og önnur útlán. Allt þetta er samkvæmt Hagtölum Seðlabankans.``
    Hvernig stendur á, þegar allt þetta er skoðað og hlýtur að vera lesið af hæstv. ráðherra, að hann kemur hér og heldur fram þessum rökum? Mikil blessun sýnist vera samkvæmt skýrslu Seðlabankans sjálfs af

lánskjaravísitölunni ef rétt er lesið. Eða hitt þó heldur.
    En ég undirstrika svo í lokin að stigminnkandi vægi verðtryggingar sem ríkisstjórnin kveðst áforma nú leysir engan vanda. Vandann leysir ekkert annað en afnám lánskjaravísitölunnar eins og landsmönnum var lofað af núverandi ríkisstjórn þegar verðbólgan hefði verið undir 10% í eitt ár. Og það liggur nú fyrir en samt á að hika og doka og nú er settur þriggja ára frestur á að framkvæma það.