Grunnskóli
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil einungis mótmæla þeirri skoðun formanns menntmn., hv. 4. þm. Norðurl. v., að hér sé um venjuleg vinnubrögð að ræða. Ég tel satt að segja að það sé afar óvenjulegt þegar fagráðherra vill koma áfram viðamiklu máli sem snertir hvorki meira né minna en stærsta svið þess ráðuneytis sem hann hefur með höndum, þá þyki það eðlilegt að 2. umr. málsins, sem er aðalmótunarumræðan, fari fram að honum fjarstöddum. Þetta er lýsandi dæmi um hin óvönduðu vinnubrögð sem því miður eru á bak við mörg þau mál sem við erum hér að fjalla um.
    Mér er það ljóst að við höfum haldið marga fundi um þetta mál, enda hafa verið mjög alvarlegar athugasemdir gerðar, lítið mark tekið á þeim stærstu og ekki enn þá búið að fá til viðræðna alla þá sem nefndin hafði ákveðið að fá til viðræðna. Ég sé þess vegna ekki að málið hafi verið tilbúið til umfjöllunar við 2. umr. nú. Við úr minni hl. nefndarinnar létum bóka andmæli í tvígang í hv. menntmn. við þessari málsmeðferð. Við andmæltum því að það yrði afgreitt út úr nefndinni eins og á stóð. Ef það er hinn skammi tími til þingloka sem hv. stjórnarliðar setja fyrir sig, þá má kannski benda á að það er fjallhár bunki af pappír, sem eru óafgreidd mál hæstv. ríkisstjórnar hér og þar í nefndum. En það er hins vegar ekki samkomulag um nærri öll þau mál innan ríkisstjórnarinnar
og svo grunar mig að sé um þetta mál. Þetta sé eitt með öðru mál þar sem menn hafa e.t.v. ekki allir sömu skoðanir á hverri grein. Þess vegna finnst mér hálfgert farið, a.m.k. ekki gengið um aðaldyrnar við afgreiðslu þessa máls, að ætla sér að húrra því út úr nefndinni áður en allar viðræður og allir fundir um það hafa farið fram við mótmæli stjórnarandstöðu. Mér er það alveg ljóst að stjórnarandstaðan er oft og tíðum ofurliði borin og það er ekkert nýtt. En hitt er nýtt að svo mikið liggi á að koma frv. fram í einhverju formi, illu eða góðu, næstum því rétt sama hverju, aðeins að hæstv. ráðherra geti sagt að frv. hafi verið afgreitt. Ég hvet til þess, ef það verður á dagskrá tekið, þá verði það ekki nema að mjög litlu leyti og aðalumræðan fari þá fram síðar.
    Með öðrum orðum vil ég ekki láta hjá líða að mótmæla því harðlega að það verði tekið til umfjöllunar nú alveg eins og ég mótmælti því í nefndinni að það yrði afgreitt úr nefndinni áður en það væri fjallað um það til fulls. Ef ég minni á það sem hv. formaður nefndarinnar sagði hér rétt áðan, að það hvort málið væri rætt í dag eða ekki varðaði líf eða dauða þessa frv., held ég að það væri lífvænlegra ef við ræðum það þegar það er fullburða.