Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál og vil taka undir ýmis þau sjónarmið og skoðanir sem hér hafa komið fram. Það ætti öllum að vera ljóst að það miðar allt of hægt í jafnréttismálum. Þrátt fyrir að hér á Alþingi séu með reglubundum hætti sett lög til þess að skerpa ákvæði jafnréttislaganna, ýmsar áætlanir gerðar í jafnréttismálum o.s.frv., þá miðar alveg ótrúlega hægt í þessu efni. Mér er þar efst í huga og sérstakt áhyggjuefni, launamálin, launamisréttið milli kynjanna, sem manni virðist frekar fara vaxandi en minnkandi ef marka má ýmsar kannanir sem settar hafa verið fram í því efni.
    Ég hygg að ástæðuna megi rekja til þess, eins og reyndar hefur komið fram hjá mér áður, að það þrífst í þjóðfélaginu raunverulega neðanjarðarhagkerfi í launamálum þar sem um er að ræða ýmsar yfirborganir, fríðindi og duldar greiðslur sem allar kannanir sýna að í verulegum mæli ganga miklu meira til karla en kvenna. Á það bæði við um hinn almenna markað og eins hjá hinu opinbera. Það er reyndar svo að þeir launataxtar sem um er samið í þjóðfélaginu og þar sem er í reynd jafnrétti í töxtum milli kvenna og karla, þar eru konurnar stærsti hópurinn. Það er mjög erfitt að taka á þessum málum þegar svo stór hluti af kjörum fólks er fenginn með þessum hætti, raunverulega einstaklingsbundnum samningum milli atvinnurekandans og launþegans.
    Ég hef líka áhyggjur af því hvað hægt miðar í því að aðlaga vinnumarkaðinn þeirri staðreynd að stór hluti foreldra, konur sennilega yfir 90%, báðir foreldrar vinna á vinnumarkaðinum og hve hægt miðar að aðlaga vinnumarkaðinn að þeirri staðreynd á ýmsum sviðum. Ég hygg þó að reynt hafi verið að brydda upp á ýmissi nýbreytni til þess að færa okkur skrefi nær jafnrétti. Ég nefni jafnréttisáætlanir ráðuneyta og ríkisstofnana sem voru gerðar fyrir tveimur árum. Út af fyrir sig er ekki séð enn þá hvaða árangri þær muni skila en um sl. áramót byrjaði Jafnréttisráð að gera úttekt á því hvernig ráðuneyti og stofnanir hafi framfylgt þeim áætlunum sem þau settu fram í því efni og væntanlega fæst niðurstaða um það fljótlega, en slíkt aðhald er auðvitað nauðsynlegt.
    Ég nefni einnig framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem ég vænti að geti skilað okkur nokkrum árangri í því efni. Í þessu frv. er enn frekar hert á því þannig að jafnréttisáætlanir verði í formi þáltill., sem ég tel mjög mikils virði, og það verði því raunverulega Alþingi sem marki stefnuna í þessu máli og taki á því en það sé ekki eingöngu áætlun ríkisstjórnarinnar og eins að í áætluninni eiga að koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði.
    Ég get alveg fallist á það með þeim sem hér hafa talað að það er eftirsjá að ýmsum ákvæðum sem voru í upphaflega frv. sem var lagt fyrir þingið fyrir tveimur árum síðan. En staðreyndin er sú að um þetta mál

náðist ekki samkomulag í þeirri nefnd sem um það fjallaði. Það náðist að lokum heildarsamkomulag þannig að allir flokkar sem fulltrúa áttu í félmn. Nd. stóðu að frv. en það var þá með þeim hætti að um var að ræða málamiðlanir þannig að mörg mikilvæg ákvæði duttu þar út til þess að ná fram samstöðu í þessu efni. Engu að síður tel ég þó, og það finnst mér hafa komið fram hér í máli ræðumanna, að við séum að sigla skref fram á við með þessu frv. ef að lögum verður. Ég nefni auk jafnréttisáætlunarinnar kærunefndirnar, sem ég tel vera verulegt spor fram á við. Ég vil einnig nefna það, sem fram kom t.d. hjá hv. 6. þm. Reykv., að það er auðvitað eftirsjá að þeim ákvæðum sem voru inni í fyrra frv. að því er varðar tilnefningar í nefndir, stjórnir og ráð. Ég get svo sannarlega tekið undir með henni að það nær auðvitað ekki nokkurri átt hvernig þetta er víða í nefndum og ráðum í stjórnsýslunni að konur hafa ekki verið tilnefndar í margar mikilvægar nefndir sem hv. þm. nefndi hér m.a. Þarna eru ákvarðanirnar í þjóðfélaginu teknar að miklu leyti. Þarna er mörkuð stefna í mörgum mikilvægum málum sem skipta þjóðina miklu, sem skipta heimilin í landinu miklu. Sum skipta konur jafnt sem karla mjög miklu og auðvitað ætti ekkert að vera eðlilegra en jafnræði mundi ríkja að því er varðar tilnefningar í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkisins.
    Í þeirri könnun sem var gerð í þeim efnum fyrir tveimur árum síðan hjá Jafnréttisráði kom í ljós að konur eru aðeins 11% þeirra sem þá áttu sæti í stjórnum, nefndum og ráðum. Það eitt út af fyrir sig segir okkur hve langt er í land í þessu efni. Hins vegar er í nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar sett það markmið að að fjórum árum liðnum verði hlutfallið ekki minna en 25%. Það er auðvitað allt of lítið á þetta löngum tíma, en ef það næst, þá er það vissulega góður áfangi.
    Mörg mikilvæg ákvæði eru í þessu frv. eins og hér var nefnt. Ég get tekið undir það að jafnréttisþingið er mjög mikilvægur þáttur í því sem fram kemur í frv. En það er mín skoðun eftir að hafa fylgst með þessu máli í gegnum þingið, bæði í fyrra og nú, að ef enn á að fara að gera miklar breytingar á frv. eins og það kom frá Ed., þá getur það teflt málinu í þá tvísýnu að við náum ekki einu sinni fram á þessu þingi þeim skrefum, þeim áföngum, sem þó er að finna í þessu frv.
    Ég vildi sjá margt öðruvísi í þessu frv., eins og aðrir sem hér hafa talað, en ég geri mér grein fyrir því að hér er um málamiðlun að ræða. Það er kannski eitt sem við þurfum að skoða í því sambandi, að það er nokkuð gefandi fyrir það, þó að það sé um málamiðlun að ræða, að allir flokkar á þingi sameinist þó um það frv. sem verður að lögum, þannig að allir séu sammála um það að framfylgja þessum ákvæðum sem hér eru frekar en um þau væru miklar deilur og sundrung. Fyrir það tel ég nokkuð gefandi.
    Ég tek undir það með hv. 7. þm. Norðurl. e. að það eru ekki lögin eða ákvæði laga sem skipta öllu máli í þessu efni. Það er fyrst og fremst hugarfarsbreyting sem þarf að vinna að. Konur hafa verið nokkuð þrautseigar í þessu efni, alveg ótrúlega þrautseigar þegar litið er yfir söguna í jafnréttismálunum. En vonandi verður þetta frv. að lögum fyrir þingslit og vonandi getur það orðið áfangi í þá átt að skila okkur meira jafnrétti milli kvenna og karla í þjóðfélaginu.