Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem veldur því að ég kem hingað í ræðustól. Í sl. viku mælti ég fyrir 318. máli sem er að finna á þskj. 563, um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum. Ég gat þess í máli mínu þá að sú lagabreyting sem þar er lögð til gilti aðeins ef það mál sem hér er til meðferðar yrði ekki afgreitt nú á þessu þingi. Sú er ástæða þessa að frv. því sem hér liggur fyrir, verði það að lögum, er ætlað að koma í stað laga nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Þessi ákvæði, sem lagt er til að verði að lögum samkvæmt því frv. er ég flutti og mælti fyrir í sl. viku, og flutti raunar á sl. þingi einnig, varða 5. mgr. 40. gr. laganna sem nú eru í gildi, laga nr. 74/1974, en lagt er til að þeirri grein verði breytt á þennan veg, með leyfi forseta:
    ,,Nú skal spyrja barn yngra en 16 ára og skal þá tilkynna það barnaverndarnefnd. Getur nefndin sent fulltrúa sinn til að vera við yfirheyrslurnar. Einnig skal tilkynna foreldri eða forráðamönnum barnsins um yfirheyrslurnar svo fremi að grunur leiki ekki á að þau tengist málinu.``
    Sú breyting sem lögð er til með þessu frv. varðar það í fyrsta lagi að lagt er til að það sé skylt að tilkynna barnaverndarnefnd ef barn er kallað til yfirheyrslu, en ekki bara sé þess kostur eins og er í núgildandi lögum, og einnig að skylt sé að tilkynna foreldri eða forráðamanni ef barn er tekið til yfirheyrslu hjá lögreglunni.
    Ég gat þess í framsögu minni nú í sl. viku að mér væri vandi á höndum í sambandi við þetta mál, verði það frv. sem hér liggur fyrir samþykkt, vegna þess að engin hliðstæð ákvæði eru í því frv. sem hér liggur fyrir, þeim sem hér er lagt til að breytt verði. Hins vegar er í 19. gr. núgildandi laga um vernd barna og ungmenna og í 17. gr. frv. til laga um vernd barna og ungmenna, sem liggur nú fyrir þinginu og er í meðferð í Ed., ákvæði sem tekur á sama máli. En 17. gr. frv. er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Skylt er löggæslumanni að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis. Þegar brot eru framin annaðhvort af börnum eða ungmennum eða gegn þeim skal löggæslumaður eða dómari þegar í stað tilkynna það barnaverndarnefnd og veita henni þess kost að fylgjast með rannsókn máls. Sé barn innan 16 ára aldurs skal jafnframt gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar barnið er yfirheyrt. Getur dómari og krafist þess ef honum þykir þörf.``
    Nú mætti ætla að að hluta til væri þetta ákvæði nægjanlegt. Það þyrftu að vísu að koma til þær breytingar sem lagðar eru til í frv. okkar kvennalistakvenna um meðferð opinberra mála um að einnig sé skylt að kalla til foreldra eða forráðamann ef þau ekki tengjast málum, en ég vil að þessi ábending komist á framfæri, að hér er í rauninni verið að taka út ákvæði sem áður þótti þó ástæða til að hafa í lögum um meðferð opinberra mála. Ég vil varpa þeirri spurningu fram til íhugunar í störfum nefndarinnar. Ég geri mér raunar ekki ljóst hvort nokkur er staddur hér sem mun fjalla um málið í nefnd --- jú, mér er bent á að hér sé einn hv. þm. úr þeirri nefnd og beini ég því máli mínu ekki síst til hans og jafnframt til hæstv. dómsmrh. að það verði athugað hvort þetta muni á einhvern hátt veikja þau ákvæði sem er að finna í núgildandi barnaverndarlögum og því frv. sem liggur fyrir og hvort nokkur hætta sé á því, ef þessi ákvæði eru felld út úr lögum um meðferð opinberra mála, ef af lagabreytingum verður, hvort nokkur hætta sé á því að einhverjum kunni að yfirsjást eða þetta muni á einhvern hátt kalla á þá hættu að ekki verði kvaddir til fulltrúar frá barnaverndarnefnd og foreldrar ef okkar breytingartillögur ná fram að ganga. Þær verða væntanlega fluttar aftur við lög um vernd barna og ungmenna.
    Mér þykir mjög mikilvægt að þessi ábending komist á framfæri og treysti því að það verði íhugað af fyllstu alvöru.