Listamannalaun
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Við sem stöndum að brtt. á þskj. 740 um frv. til laga um listamannalaun drógum till. okkar til baka til 3. umr. til þess að hv. þm. gæfist betri tími til að athuga þessar till. Þær eru ekki í grundvallaratriðum um aðra efnisþætti og ganga ekki gegn frv. í stórvægilegum atriðum. En þó þannig að ég hygg að sjóðirnir, sem stofnaðir verða ef frv. verður samþykkt, geti betur sinnt hlutverki sínu þó að upp komi atvik sem ekki eru fyrir fram ákveðin. Þess vegna er það að 1. brtt. okkar er um það að losa dálítið skilyrði til þess að listamenn geti hlotið starfslaun. Það stendur í frv., eins og það er nú eftir 2. umr., að þeir sem starfslaun hljóti megi ekki gegna öðru föstu starfi á meðan þeir njóta starfslauna. Við leggjum aftur á móti til að sú regla sé ekki fortakslaus. Við teljum að það geti vel verið rök fyrir því að starfslaun fram yfir einhver, við skulum segja, lág föst laun geti verið veitt vegna merkra listastarfa. Þess vegna viljum við að orðunum: ,,að öðru jöfnu`` sé bætt inn í setninguna og hún hljóði svona: ,,Þeir skulu að öðru jöfnu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna og skila skýrslu um störf sín.`` Eina breytingin eru þessi þrjú litlu orð: að öðru jöfnu. Ég vonast til að hv. þingdeildarmenn geti fallist á þessa breytingu.
    Stærsta breytingin sem við leggjum til er raunar við 9. gr. frv., eins og hún er eftir 2. umr. Breytingin felst í tvennu. Í fyrsta lagi að listasjóðurinn, sem á að sinna öllum listgreinum, þar á meðal túlkandi listamönnum, vaxi hraðari skrefum heldur en hinir sjóðirnir. Ástæðan til þessa er sú að þessi sjóður hefur langvíðtækast hlutverk þannig að augljós ástæða er til þessarar till. Breyting okkar er á þann veg að í stað 12 mánaðarlauna, sem bætast við á ári á næstu fimm árum, verði þau 24. Hin breytingin, sem felst í því orðalagi sem við leggjum til að haft verði, er sú að það sé opnað fyrir möguleika til þess að veita starfslaun og verkefnastyrki, og raunar hvatt til þess með öðru orðalagi, til þeirra listamanna sem nú eru t.d. einleikarar og einsöngvarar, með öðrum orðum túlkandi tónlistarmenn sem ekki er hægt að kalla leikhúslistamenn.
    Eins og frv. er nú er hluti sjóðsins bundinn til leikhúslistamanna. Sérstakur sjóður er vegna tónskálda en engin deild sem sérstaklega sinnir túlkandi tónlistarmönnum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það að einmitt á því sviði hefur verið mikil gróska og við höfum átt og eigum núna líka fjölmarga frábæra listamenn, ekki síst af yngri kynslóðinni. Þetta er starf sem þarf að styðja vel við þannig að því fólki sé kleift að halda áfram að skila listrænum afrekum þjóð sinni og listgrein sinni og sjálfum sér til gæfu.
    Ég vonast þess vegna til þess að hv. þingdeildarmenn geti fallist á þá litlu breytingu sem felst í því að í staðinn fyrir orðið leikhúslistamenn verði sagt: sviðslistamenn og aðrir túlkandi listamenn. Með þessu hyggjumst við geta náð yfir þá hópa sem flytja list sína á sviði án þess að vera leikhúslistamenn, þ.e. einleikarar, dansarar sem ekki starfa við leikhús og fleiri listamenn sem starfa ekki í leikhúsi. Ég held að við getum stuðlað að því að væntanlegur sjóður geti betur sinnt því verkefni sínu að styðja við listir í landinu ef við höfum þetta orðalag örlítið rýmra.
    Við 10. gr. frv. höfðum við lagt til eftir ábendingu listamanna að framlenging starfslaunanna yrði yfirleitt til þriggja ára, ef framlengt væri, í stað fimm ára og orðalagið á breytingunni er samkvæmt því.
    Við 12. gr. frv., eins og hún er nú, gerum við líka brtt. Hún felst í því að í staðinn fyrir að gert sé ráð fyrir að ráðherra hafi samráð við tiltekin nafngreind félagasamtök þá höfum við orðalagið opnara og segjum samtök rithöfunda, samtök tónlistarmanna og samtök tónskálda í staðinn fyrir Rithöfundasamband Íslands, Samband ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélag Íslands. Þetta gerum við til þess að útiloka ekki að tillögur geti verið frá öðrum samtökum innan þessara listgreina og mönnum sé ekki mismunað eftir því hvaða félagasamtökum þeir starfa í. Það er listin en ekki félagið sérstaklega sem við erum að hugsa um að styðja.