Almannatryggingar
Miðvikudaginn 27. febrúar 1991


     Flm. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 59/1987, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.
    Flm. auk mín eru eftirtaldir hv. þm.: Geir H. Haarde, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.
    1. gr. frv. hljóðar svo: ,,Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Það skerðir ekki rétt foreldris til greiðslu fæðingarstyrks frá Tryggingastofnun ríkisins skv. 1. mgr. þessarar greinar þótt samið sé við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingarstyrk að hluta til eða að fullu.``
    2. gr. hljóðar svo: ,,Við a-lið 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Þeir sem ekki njóta slíks réttar geta samt sem áður samið við launagreiðendur um greiðslu mismunar á fullum launum og fæðingardagpeningum, að hluta til eða að fullu, án þess að skerða rétt sinn til greiðslu fæðingardagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins.``
    3. gr. hljóðar svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði þeirra taka til þeirra foreldra sem eru í fæðingarorlofi 1. febrúar 1991 eða síðar og fá greiðslur skv. 16. og 26. gr. almannatryggingalaga, sbr. lög nr. 59/1987.``
    Með leyfi hæstv. forseta mun ég nú gera grein fyrir meðfylgjandi greinargerð. Í byrjun hennar er þess getið að dómur sé nú fallinn í undirrétti í máli konu gegn Tryggingastofnun ríkisins, en sá dómur skiptir mjög miklu máli varðandi það frv. sem hér er til umræðu.
    Þessi dómur féll hinn 21. des. 1990. Konan höfðaði málið til þess að fá greitt fæðingarorlof (fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga) frá Tryggingastofnuninni. Dómurinn féllst á kröfur konunnar í einu og öllu. Samkvæmt dómnum er því ljóst að framkvæmd þessara mála ætti að vera á þann veg sem mælt er fyrir um í þessu frv. Tryggingastofnun hefur hins vegar ekki enn séð ástæðu til þess að breyta framkvæmd fæðingarorlofslaganna, og ég legg áherslu á þetta atriði, þannig að konur, sem eins er ástatt fyrir og stefnanda málsins, fá ekki fæðingarorlofsgreiðslur frá stofnuninni ef þær fá einhverjar viðbótargreiðslur frá vinnuveitanda.
    Hér er því um brýnt mál að ræða fyrir íslenskar konur þótt dómur sé fallinn þeim í vil í undirrétti. Flutningsmenn þessa frv. á síðasta þingi, allir nema hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem nú er utan þings vegna veikinda, telja því eðlilegt að endurflytja það til þess að knýja sem fyrst fram nýja framkvæmd þessara laga.
    Svohljóðandi greinargerð fylgdi frv. í fyrra og ég tel rétt, hæstv. forseti, að gera grein fyrir henni hér til þess að rifja upp aðalatriði þessa máls:
    Lög nr. 59/1987 tóku gildi þann 1. janúar 1988 og fjalla um tilhögun fæðingarorlofsgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. 1. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 16. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingarstyrks til allra mæðra hvort sem þær eru heimavinnandi eða við störf á almennum vinnumarkaði. Þó segir í 2. mgr. 1. gr.:
    ,,Ákvæði greinar þessarar taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum, þann tíma er óskert laun eru greidd.``
    2. gr. laga nr. 59/1987, sem nú er 26. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, kveður á um greiðslu fæðingardagpeninga til foreldra í fæðingarorlofi sem verið hafa á vinnumarkaði. A-liður 2. gr. hljóðar svo:
    ,,Foreldrar í fæðingarorlofi, sem lögheimili eiga á Íslandi, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari, enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.``
    Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs greiðir Tryggingastofnun fæðingarstyrk ásamt fæðingardagpeningum, það síðarnefnda í samræmi við ákveðinn vinnustundafjölda. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi, t.d. opinberir starfsmenn, eiga þó ekki rétt á þessum greiðslum frá Tryggingastofnun. Upphæð fæðingarstyrks er ákveðin fjárhæð og hækkar með sama hætti og aðrar bætur lífeyristrygginga. Fæðingardagpeningar eru tvöfaldir sjúkradagpeningar einstaklings eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma. Þessar greiðslur nema nú samtals um það bil 50 þús. kr. á mánuði, en þá er um hámarksgreiðslu að ræða. Full laun foreldris á hinum almenna vinnumarkaði geta því numið mun hærri fjárhæð. Í slíkum tilvikum er ekki óeðlilegt að einstaklingur semji við launagreiðanda um greiðslu mismunar á fullum launum og greiðslum frá Tryggingastofnun, enda hluti af því samningsfrelsi er hér ríkir lögum samkvæmt.
    Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar hefur hins vegar synjað öllum fæðingarorlofsgreiðslum ef viðkomandi umsækjandi hefur hlotið einhverjar viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda. Stofnunin virðist byggja álit sitt á túlkun ákvæða 2. mgr. 1. gr. og a-lið 2. gr. laga nr. 59/1987 um ,,óskert laun`` og ,,að leggja niður launuð störf``, í samræmi við túlkun tryggingaráðs á eldri fæðingarorlofslögum og álit lögfræðinga hjá heilbr.- og trmrn. Enn fremur að ætti að breyta þessari túlkun hefði þurft að taka það skýrt fram í fæðingarorlofslögunum og athugasemdum með frv. þar sem hér sé um mjög mikilvæga breytingu að ræða.
    Það virðist vafasamt að telja aldur lagatúlkunar alfarið mælikvarða á réttmæti hennar í tilfellum sem þessum. Engin bókun tryggingaráðs þar til nú nýverið var til um þetta efni og ekkert skriflegt til að styðjast við, hvorki frá tryggingaráði né ráðuneytinu. Enginn stafur er heldur til um það hvað teljast ,,óskert laun``, en laun þurfa að vera óskert til að útiloka greiðslur frá Tryggingastofnun. Það hefur enn fremur

komið í ljós samkvæmt upplýsingum nefndarmanna er sömdu fæðingarorlofsfrumvörpin á sínum tíma að menn voru sammála um að hlutagreiðslur frá vinnuveitanda, til að launþegi héldi óskertum launum, gætu á engan hátt útilokað bótarétt eða greiðslur frá Tryggingastofnun. Þessi skilningur var enn fremur staðfestur í umræðum á Alþingi 9. nóv. sl. með ummælum Ragnhildar Helgadóttur, en hún var í ráðherratíð sinni flutningsmaður þeirra frumvarpa sem áður er getið. Auk þess hefur það fordæmi skapast að Tryggingastofnun greiðir bankamönnum athugasemdalaust fæðingarorlof þrátt fyrir viðbótargreiðslur frá atvinnurekanda.
    Samt sem áður hefur Tryggingastofnun haldið þessari lagatúlkun til streitu og nýlega, eða 26. jan. sl., hafnaði meiri hluti tryggingaráðs umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur þar sem móðir hafði fengið greiddan mismun á fullum launum og fæðingarorlofsgreiðslum, m.a. á þeirri forsendu að ný túlkun laganna yrði ekki síður vafamál en núgildandi túlkun. Slík afgreiðsla, þar sem einum er gert að hlíta slíkri túlkun en öðrum ekki, hlýtur að skapa verulega réttaróvissu og mismunun gagnvart foreldrum.
    Jafnframt má benda á að iðgjöld lífeyristrygginga eru greidd af atvinnurekendum; þeir greiða 2% af reiknuðum launum til lífeyristrygginga og kaupa sér þar með tryggingu. Einnig hlýtur það að teljast óeðlilegt að Tryggingastofnun eða tryggingaráð séu að hafa afskipti af því hvað um er samið á almennum vinnumarkaði.
    Réttur til fæðingarorlofs er slík grundvallarmannréttindi að ekki verður unað við neina réttaróvissu í þeim efnum. Til þess að taka af allan vafa um réttmæti umræddrar lagatúlkunar er lagabreyting samkvæmt frv. þessu lögð hér til. Lagaákvæði munu þannig taka af öll tvímæli í þessum efnum.
    Eins og fram hefur komið, hæstv. forseti, var þetta frv. flutt á síðasta þingi og var 288. mál á þskj. 522 en þá flutti ég nokkuð ítarlega ræðu um þetta mál og vísa ég til hennar. Við þá umræðu tóku nokkrir hv. þm. til máls og lýstu sig allir fylgjandi þessu frv. sem réttlætismáli. Hæstv. heilbr.- og trmrh. færðist undan því að taka á þessu máli en vísaði þá m.a. til starfa nefndar sem væri með almannatryggingalöggjöfina í heildarendurskoðun.
    Síðan þetta mál var flutt í fyrra hefur engin breyting orðið á afstöðu Tryggingastofnunar né heilbr.- og trmrn. í þessu máli. En þó má benda á það og rifja það upp að meiri hluti tryggingaráðs, sem hafnaði umsókn konu sem eins var ástatt um og hér er fjallað um, hallaðist að þeirri skoðun í reynd að það væri ekki eðlilegt að löggjafinn eða tryggingaráð sem túlkandi laganna hefði afskipti af því um hvað væri samið á almennum vinnumarkaði. Reyndar vitnaði hæstv. ráðherra til þeirra orða.
    Það voru ýmis atriði í þessu máli á síðasta þingi sem vöktu athygli hv. þm. og ekki síst sú staðreynd að bankamenn virtust geta samið sig einhvern veginn fram hjá þessum reglum Tryggingastofnunar. Þykir mér rétt að vitna sérstaklega til orða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, en hún segir m.a. í sinni ræðu: ,,Út af því máli sem hér liggur fyrir finnst mér sjálfri að miðað við lögin sé það mjög undarlegt að túlkun Tryggingastofnunar sé sú að hægt sé að greiða fæðingarorlofsgreiðslur til þeirra sem eru komnir með formlegan samning um mismunargreiðslur, þ.e. bankamanna, en ekki til þeirra einstaklinga sem gera samkomulag eða samning við vinnuveitanda um slíkar greiðslur. Þar finnst mér vera orðin gróf mismunun á einstaklingum og mér finnst bara það að viðurkenna rétt bankamanna til þessara greiðslna hafa verið það fordæmi sem hlyti að hafa verið nægilegt til þess að aðrir einstaklingar sem ná slíkum samningum ættu að fá þessar greiðslur eigi að síður.``
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir tjáði sig um þetta mál einnig og svaraði þar m.a. orðum ráherra sem taldi að ekki ætti að taka tillit til þess hversu há og mismunandi laun konur bæru úr býtum við greiðslu á fæðingarorlofi og segir hér orðrétt í hennar ræðu: ,,Það er hins vegar ekki hægt að vísa til þeirra sem lægstu launin hafa og tala um að einhverjar sem hafa e.t.v. hærri laun, sem eru því miður allt of fáar, eigi þar af leiðandi ekki að fá hærri laun í fæðingarorlofi.``
    Enn fremur segir í upphafi ræðu hv. þm. Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur: ,,Ég studdi þetta mál af því að mér finnst það réttlætismál. Það er vitaskuld óréttlæti að einhver starfsstétt skuli geta samið um það í samningum að fá full laun í fæðingarorlofi en annarri sé ekki leyft að semja við atvinnurekanda sinn ef hann er svo almennilegur að hann vill borga. Mér finnst að hér gangi tryggingaráð eiginlega lengra en það ætti að gera. Í sjálfu sér finnst mér tryggingaráði ekki koma þetta mikið við. Það er ekkert verið að sækja í tryggingarnar. Það er verið að sækja í vasa vinnuveitandans svo ég sé eiginlega ekki hvers vegna það tekur þessa afstöðu.``
    Ég vitnaði til þess áðan að það hefur fallið dómur í máli. Það var Lára V. Júlíusdóttir sem hlut átti að máli, en umsókn hennar um greiðslu fæðingarorlofs hafði verið hafnað í Tryggingastofnun vegna þess að hún gaf það upp að atvinnurekandinn mundi greiða mismun á bótum frá stofnuninni og fullum greiðslum frá atvinnurekanda. Það er mjög merkilegt að lesa þennan dóm og það er mjög skýrt að þar er fallist á allar kröfur stefnanda. Langar mig til þess hér, hæstv. forseti, að gera nokkra grein fyrir þeim atriðum sem dómurinn tekur sérstaklega á.
    Í forsendum og niðurstöðum dómsins segir að aðilar þessa máls deili um það hvort stefnandi eigi rétt til fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga skv. 16. og 26. gr. laga um almannatryggingar, sbr. lög nr. 57/1987 og 59/1987, um breytingar á þeim lögum. Stefnandi byggir á því að hún uppfylli öll skilyrði ofangreindra laga til að njóta fæðingarorlofsgreiðslna úr hendi stefnda. Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi fullnægi ekki skilyrðum laganna til að njóta fæðingarorlofsgreiðslna. Annars vegar sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir launaskerðingu, hins vegar sé óljóst að stefnandi hafi lagt niður launuð störf í þann tíma sem krafa stefnanda tekur til.

    Í öðru lagi byggir stefndi á því að úrskurður tryggingaráðs styðjist við réttarskilning á 16. og 20. gr. laga um almannatryggingar. Og þá er rétt að rifja það upp hér að það var ekki allt tryggingaráð sem hafnaði þessari umsókn heldur gerði það einungis meiri hluti tryggingaráðs sem skipaður var fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna.
    Í dómnum segir enn fremur: ,,Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins hefur túlkað 16. og 26. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr., a-lið, svo að fái umsækjendur um fæðingarorlof einhver laun frá vinnuveitanda sínum þá eigi viðkomandi ekki rétt til greiðslna frá Tryggingastofnun og er synjun stefnda á greiðslum til stefnanda á því byggð.
    Ekki liggja fyrir neinar tölulegar upplýsingar um fjölda synjana á þessum grundvelli né heldur hversu lengi þessi aðferð hefur verið viðhöfð hjá Tryggingastofnun ríkisins. Stefnandi hefur lýst því yfir fyrir dómi að hún sé ráðin samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og er það stutt vitnisburði vinnuveitanda hennar. Jafnframt lagði stefnandi fram við endurupptöku málsins staðfestingu á félagsaðild sinni að Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
    Einnig var lagt fram vottorð frá vinnuveitanda stefnanda þar sem vinnuveitandi lýsir því yfir að það samkomulag hafi verið gert að henni yrðu greidd óskert laun þann tíma sem hún yrði frá í orlofi en fæðingardagpeningar og fæðingarstyrkur frá Tryggingastofnun greiddust síðan aftur til atvinnurekanda.
    Þann tíma sem konan var í fæðingarorlofi stundaði hún ekki reglubundin störf á sínum vinnustað. En þar sem um ábyrgðarstörf er að ræða, sem erfitt er að fella niður um lengri tíma, sinnti hún ákveðnum þáttum að einhverju leyti, svo sem að mæta á fundum, m.a. í stjórnskipuðum nefndum sem hún átti sæti í á þeim tíma.
    Í máli þessu er það einnig til úrlausnar hvort stefnandi hafi með viðbótarkjarasamningi við vinnuveitanda sinn samið svo um að hún nyti óskertra launa í skilningi almannatryggingalaganna enda verður ekki annað ráðið af orðalagi framangreindra lagaákvæða en að þar sé einvörðungu átt við félagsmenn í þar til greindum samtökum eða stéttarfélögum. Undir rekstri málsins hefur stefnandi haldið því fram að hún hafi einungis fengið greiddan mismun fullra launa og fæðingarorlofsgreiðslna. Við endurupptöku máls þessa lagði stefnandi fram launaseðla sína vegna ákveðins tímabils en af þeim verður ekki glögglega ráðið hvort hún hafi notið óskertra launa á umræddum tíma, en stefnandi staðfesti við málflutning að hún hafi á meðan á fæðingarorlofinu stóð fengið greidd full laun samkvæmt sérstöku samkomulagi við vinnuveitanda sinn.``
    Síðan segir aftar í dómnum: ,,Verður því að telja ósannað að atvinnurekandi hafi heitið stefnanda öðru en viðbót við fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga þannig að stefnandi fengi að lokum greiðslur er samsvöruðu fullum launum.
    Hvað sem líður skýringu á 16. og 26. gr. almannatryggingalaganna að öðru leyti verða greiðslur

þessar ekki taldar óskert laun í skilningi nefndra lagaákvæða.`` Og þá kemur að því atriði hvort umsækjandi, sem er stefnandi þessa máls, hafi lagt niður launuð störf meðan á fæðingarorlofi stendur. Með hliðsjón af yfirlýsingu vinnuveitanda stefnanda þykja þau störf er hún gegndi meðan á fæðingarorlofi stóð vera svo óverulegur hluti af starfi hennar að telja verður að hún uppfylli 26. gr. almannatryggingalaganna.
    Þá segir í dómnum: ,,Fallast ber á það með stefnanda að hún hafi ekki notið óskertra launa og lagt niður launuð störf í skilningi 16. og 26. gr. laga um almannatryggingalög, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 50/1987.
    Að öðru leyti eru ákvæði framangreindra laga um fæðingarorlof skýr og verður ekki talið að túlkun Tryggingastofnunar ríkisins á 16. og 26. gr. laga um almannatryggingar hvað varðar greiðslur fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga breyti nokkru hér um.`` Þetta er mjög ótvíræð niðurstaða, hæstv. forseti, sem kemur fram í þessum dómi.
    Þrátt fyrir þessa niðurstöðu og þennan dóm hefur Tryggingastofnun ríkisins ekki séð ástæðu til þess að breyta túlkun sinni á fæðingarorlofslögunum og almannatryggingalögunum þannig að það ástand er enn við lýði að ef kona fær einhverjar greiðslur frá sínum atvinnurekanda er henni neitað um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Í raun og veru er þetta mál mjög sérstakt. Ég hygg að sú lagatúlkun sem hingað til hefur verið beitt sé mikið til byggð á misskilningi.
    Mig langar sérstaklega til þess hér, virðulegi forseti, að benda á frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar (fæðingarorlof), en þar var 1. flm. Ragnhildur Helgadóttir. Í grg. með þessu máli segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Allir viðurkenna nú á dögum að þriggja mánaða fæðingarorlof hið minnsta sé nauðsynlegt til að tryggja heilsu nýfædds barns og móður þess. Verður þetta að teljast sjálfsögð réttindi þeirra í velferðarþjóðfélagi. Þeim konum sem starfa hjá hinu opinbera hafa með lagaheimild verið tryggð þessi réttindi í tvo áratugi, sbr. lög nr. 38/1954 og reglugerð nr. 87/1954. Þær konur sem annars staðar eru launþegar hafa því miður ekki enn fengið þessi réttindi tryggð. Um það er engin spurning að úr þessu misrétti verður að bæta. Um hitt hafa menn spurt hver eigi að kosta fæðingarorlof þessara kvenna þegar t.d. margur smáatvinnurekandinn hefur ekki bolmagn til þess. Það er skoðun flm. þessa frv. að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti með eðlilegum hætti haft þetta verkefni með höndum. Leggjum við með frv. þessu til að það verði bundið í lögum.
    Í lögum um atvinnuleysistryggingar segir í 18. gr. að atvinnuleysisbætur miðast við dagvinnulaun samkvæmt 2. taxta Dagsbrúnar og skuli vera 70 -- 80% af áður greiddum launum.``
    Síðan kemur mjög mikilvægt atriði, virðulegi forseti, og segir í þessari grg.: ,,Það sem á kann að vanta að konan haldi fullum áður greiddum launum í fæðingarorlofi þyrfti að nást með öðrum hætti. Mætti hugsa sér að lífeyrissjóðir stéttarfélaganna stæðu undir þeim greiðslum.
    Það er von flm. að þetta frv. um fæðingarorlof verði lögfest á þessu þingi því það er ekki vansalaust að lengur dragist að leiðrétta þetta ranglæti.``
    Þessi grg. er með frv. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum frá 1973. Ég tel engan vafa á því að löggjafinn hafi alltaf haft þá skoðun að aldrei hafi átt að taka upp þá túlkun laganna að meina ætti konum að semja um þennan mismun, hvort sem er að hluta eða fullu við atvinnurekanda sinn. Og enn fremur bendi ég á það, eins og hefur komið fram í grg., að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða, það er engin skylda að leita eftir slíku samkomulagi.
    Öll rök hníga að því, hæstv. forseti, að þetta mál eigi að afgreiða eins fljótt og auðið er hér á hinu háa Alþingi. Leyfi ég mér að vonast til þess að hv. þm. taki vel í þá málaleitan og frv. verði afgreitt sem fyrst enda um mikið réttlætismál að ræða fyrir íslenskar konur.
    Að lokum legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.