Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum rafhlaðna og rafgeyma sem er á þskj. 679.
    1. flm. þessa frv. er Sigrún Helgadóttir, varaþingkona Kvennalistans, en aðrar þingkonur Kvennalistans í Nd. Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kristín Einarsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir eru einnig meðflm. Ég mæli fyrir þessu frv. þar sem hún situr ekki lengur hér á Alþingi.
    1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins skulu í samráði við sveitarfélög skipuleggja söfnun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til endurvinnslu og eyðingar. Jafnframt skulu þær annast kynningu og fræðslu fyrir almenning um skaðleg áhrif rafhlaðna og rafgeyma á umhverfið.``
    2. gr.: ,,Til að kosta verkefni skv. 1. gr. skal leggja gjald, umhverfisgjald, á innfluttar rafhlöður og rafgeyma, sbr. tollskrárnúmer 8506 og 8507, sem innheimt skal við tollafgreiðslu og skal það nema 10% af tollverði þeirra, sbr. tollalög. Sama gjald skal lagt á rafhlöður og rafgeyma sem framleiddir eru hérlendis og skal það vera 10% af heildsöluverði.
     Að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, eiga við um álagningu, innheimtu, viðurlög, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku, skv. 1. mgr.``
    3. gr.: ,,Umhvrh. setur reglugerð um framkvæmd laganna.``
    4. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Á flestum heimilum landsins eru notaðar rafhlöður í útvarpstæki, klukkur, vasaljós, leikföng og margt fleira. Um nokkurt skeið hefur Hollustuvernd ríkisins hvatt fólk til að henda ekki rafhlöðum heldur koma þeim á móttökustaði.
    Í dreifiriti sem Hollustuvernd hefur útbúið segir m.a., með leyfi forseta, þar sem talað er um rafhlöður:
    ,,Rafhlöður eiga ekki að fara í ruslið. Af hverju geta rafhlöður verið hættulegar? Rafhlöður sem fleygt er í ruslið geta valdið mengun í lofti, vatni og jarðvegi. Eitraðir þungmálmar eiga síðan nokkuð greiða leið í fæðukeðjuna, gegnum gróður, þörunga og aðrar smáverur. Kvikasilfur og kadmíum er hættulegt mönnum og dýrum. T.d. getur kvikasilfur hlaðist upp í ýmsum fisktegundum í þrjú þúsund sinnum hærri gildum en í hafinu. Kvikasilfur getur valdið fósturskaða. Kvikasilfur í litlu magni í líkama móður getur jafnvel valdið barninu heila- og taugaskemmdum. Kadmíum getur safnast fyrir í nýrum og hreinsast mjög hægt út. Þess vegna getur lítið magn kadmíums valdið nýrnaskaða. Við skulum því muna næst þegar við þurfum að losa okkur við ónýtar rafhlöður að fleygja þeim ekki í ruslið heldur koma þeim til þeirra sem geta fargað þeim á þann hátt að náttúran ber ekki skaða af.``
    Síðar segir í þessu sama riti: ,,Hvað verður um rafhlöður að notkun lokinni? Notkun á smárafhlöðum hérlendis er um 130 tonn á ári. Rafhlöður innihalda umtalsvert magn af þungmálmum, aðallega kvikasilfur og kadmíum. Þessi efni geta valdið mengun í umhverfi ef förgun þeirra er ekki gerð á viðeigandi hátt. Hér á landi hafa rafhlöður endað í ruslakörfunni eftir notkun, þaðan á haugana eða í sorpbrennsluna. Við slíka förgun eiga þungmálmar greiða leið út í náttúruna og síðan í fæðukeðjuna. Þessu er ástæða til að breyta.``
    Síðan segir: ,,Í flestum nágrannalöndum okkar er reynt að koma í veg fyrir að rafhlöðum sé fleygt í ruslið að notkun lokinni með tilheyrandi umhverfismengun. Til að koma í veg fyrir slíkt hefur víða verið komið upp sérstökum innsöfnunarkerfum. Nauðsynlegt er að koma upp slíkri söfnun á notuðum rafhlöðum hér á landi. Mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins hafa nú tekið upp móttöku á rafhlöðum og munu beita sér fyrir því að almenningi gefist kostur á því að losa sig við notaðar rafhlöður í þar til gerð ílát sem komið verður upp í ýmsum verslunum, stofnunum og í skólum. Starf þetta verður unnið í samvinnu við marga aðila, t.d. heilbr.- og trmrn., menntmrn., Náttúruverndarráð, Landvernd og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og aðra er láta sig umhverfis- og mengunarmál varða.``
    Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins hefur tekið á móti u.þ.b. 10 tonnum af notuðum rafhlöðum frá því að söfnunin hófst. Sorpeyðingin, eða Sorpa eins og hún kallast, hefur
gert samning við danska fyrirtækið Kommune Kemi á Fjóni og sér það um að eyða þeim rafhlöðum sem þangað eru sendar ásamt öðrum umhverfismengandi úrgangi sem sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins safnar hér á landi. Í Reykjavík eru um 200 innsöfnunarstaðir, verslanir og stofnanir og önnur fyrirtæki, og er kostnaður við söfnunina og eyðinguna greiddur úr borgarsjóði. Á öðrum stöðum á landinu fer innsöfnunin fram á vegum heilbrigðisnefnda í hverju héraði, þar sem þær eru til. Hafa heilbrigðisnefndirnar keypt ílát frá Hollustuvernd ríkisins og er þá eyðingarkostnaður rafhlaðnanna innifalinn í verðinu. Þannig að þetta er nokkuð misjafnt eftir stöðum.
    Ástæða er til að ætla að flestir meðhöndli rafhlöður ógætilega af hugsunarleysi vegna þess að þeir vita ekki hve hættulegar þær eru né hvað heppilegast er að gera við þær. Mikil þörf er á að skipuleggja söfnun á notuðum rafhlöðum um allt land, stórauka fræðslu og áróður, bæði til barna og fullorðinna, um hættuna sem því fylgir og hvetja fólk til að skila rafhlöðum á móttökustaði.
    Hvað varðar rafgeyma þarf áróður um þá fyrst og fremst að ná til viðgerðarmanna bíla og véla. Allt of algengt er að sjá ónýta rafgeyma liggja í rusli við húsveggi og í skurðum. Í rafgeymum er m.a. blý, en blýmengun getur valdið heilaskaða.
    Flm. þessa frv. telja eðlilegt að þeir sem kaupa rafhlöður standi straum af þeim kostnaði sem af þessu verður.
    Víða erlendis er það fyrirkomulag að skilagjald er

á rafhlöðum þannig að þegar fólk kaupir nýjar rafhlöður getur það skilað notuðu rafhlöðunni í verslunina og þar með fengið nýju rafhlöðuna ódýrara. Þetta hefði verið hægt að hugsa sér, en sú leið sem þetta frv. gerir ráð fyrir var valin ekki síst vegna þess að hún var talin kostnaðarminni. Það er talinn minni kostnaður með því að hafa eingöngu 10% gjald á tollverði, heildsöluverði ef um er að ræða framleiðslu hérlendis, og miklu einfaldara. Þess vegna töldum við eðlilegra að hafa þetta fyrirkomulag á.
    Gert er ráð fyrir því að leggja 10% gjald á rafhlöður og rafgeyma samkvæmt tollskrárnúmerum eins og ég sagði áðan, og er þá verið að leggja á innflutningsverð skv. tollskrárnúmeri 8506, sem eru frumrafhlöð og frumrafhlöður. Innflutningsverð er rúmlega 77 millj. kr. Síðan eru rafgeymar sem eru í tollskrárnúmeri 8507, eða eins og það heitir í tollskránni: rafgeymar, þar með taldar skiljur til þeirra, einnig rétthyrndir, þar með talið ferningslaga. Þetta eru sem sagt allir geymar, en þeir eru fluttir inn fyrir 166 millj. kr. þannig að þarna má áætla að komi inn árlega samkvæmt þessum tölum um 24 millj. kr. Auðvitað er það eitthvað breytilegt eftir innflutningi.
    Með samþykkt frv. verður mengunarvörnum Hollustuverndar ríkisins gert kleift að stórauka fræðslu og áróður og standa fyrir söfnun, styrkja sveitarfélög og aðra sem sjá um innsöfnunina og ekki síst að standa straum af kostnaði við eyðinguna. Þó einhverjum þyki þetta e.t.v. mikill peningur er þetta hverfandi miðað við þá miklu eyðileggingu sem þessar rafhlöður geta valdið, bæði á náttúrunni og hjá fólki sem getur verið í mikilli hættu vegna þessarar mengunar.
    Þó stutt sé til þingloka tel ég að það eigi ekki að vefjast fyrir þingmönnum að samþykkja þetta frv. Auðvitað þyrfti að taka upp slíkt umhverfisgjald á miklu, miklu fleiri mengandi vörur, en þetta er einungis fyrsta skrefið og teljum við mikilvægt að taka það núna.
    Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Þar sem ekki er til nein nefnd í þinginu sem tekur við umhverfismálum var ekki mjög auðvelt að finna út hvaða nefnd ætti að taka við þessu frv., en ég tel eðlilegast að allshn. fái það til meðferðar og legg það til að lokinni þessari umræðu.