Málefni geðsjúkra
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég fullyrði að stórum fjármunum í heilbrigðiskerfinu er sóað í hluti sem litlu máli skipta, en önnur og mikilsverðari verkefni bíða á meðan. Heilbrigðiskerfið er mjög dýrt og ég tel að það þurfi að fara fram skoðun á því hvernig betur megi nýta þá fjármuni sem þar er eytt.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að sá hópur sjúklinga sem hefur verið hvað mest afskiptur eru geðsjúkir og kann ég mörg dæmi um það hvernig framkoma stjórnvalda hefur verið gagnvart því fólki. Ég tel mikla nauðsyn á að þar verði ráðin bót á og vænti ég þess að það sé fram undan.
    Málefni geðsjúkra heyra undir a.m.k. tvö ráðuneyti. Undanfarið hafa geðsjúkir afbrotamenn verið til umræðu hér í þinginu en því fer mjög fjarri að allir geðsjúkir séu afbrotamenn, öðru nær, heldur er um fólk að ræða sem á í miklum erfiðleikum, fjölskyldur þeirra einnig og allir aðstandendur. Þetta fólk er að mestu afskipt í þjóðfélaginu.
    Ég hef leyft mér að bera fram svofellda fsp. til félmrh. um málefni geðsjúkra:
 ,,1. Að hve miklu leyti hefur fólk með geðræn vandamál notið þeirra réttinda og þjónustu sem lög um fatlaða kveða á um?
    2. Hve mörgum sambýlum hefur verið komið á fót fyrir geðsjúka?
    3. Hvaða áform eru um að leysa þann húsnæðisvanda sem fólk með geðræn vandamál býr við?``