Málefni geðsjúkra
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Spurt er um að hve miklu leyti fólk með geðræn vandamál hafi notið þeirra réttinda og þjónustu sem lög um fatlaða kveða á um. Því er til að svara að það hefur háð framgangi í málefnum geðsjúkra að skilgreining á því hver á að sjá um uppbyggingu á ýmsum félagslegum úrræðum fyrir geðsjúka er óljós sem leitt hefur til hringlandaháttar og því ekki nægjanlega markvissra úrræða í félagsþjónustu við geðsjúka. Þannig virðist uppbygging verndaðra vinnustaða vera á forræði heilbrrn. og einnig eru sambýli rekin sem sjúkradeildir á vegum geðdeildar Landspítalans. Ég tel að þar sem þessi mál hafi verið skilgreind sem þröng heilbrigðismál hafi það orðið þess valdandi að ákvæði laga um málefni fatlaðra hafi í framkvæmd ekki tekið nægjanlegt mið af uppbyggingu félagslegra úrræða fyrir geðsjúka.
    Aðstoðin við geðsjúka skv. lögum um málefni fatlaðra hefur helst verið í formi styrkja vegna námsaðstoðar en 45 einstaklingar með geðræn vandamál hafa fengið slíka styrki á sl. tveimur árum. Einnig hafa þeir notið starfsþjálfunar hjá starfsþjálfun fatlaðra í Hátúni og hafa 20 manns með geðræn vandamál stundað þar nám eða starfsþjálfun. Á vernduðum vinnustöðum sem heyra undir félmrn., þar sem 292 fatlaðir hafa vinnu, eru um 40 manns með geðræn vandamál. Ef Bergiðjan er talin með, sem heyrir undir ríkisspítala, eru einstaklingar með geðræn vandamál alls 67 á vernduðum vinnustöðum.
    Ég hygg að í nefnd, sem nú vinnur á vegum félmrn. að endurskoðun laga um málefni fatlaðra, sé mikill vilji fyrir því að taka af öll tvímæli um að geðsjúkir eigi að njóta allra þeirra réttinda sem lögin um málefni fatlaðra kveða á um og að skilgreining á rétti þeirra til þjónustu sé ljós og skýrt skilgreint hvar er í stjórnkerfinu. Ég tel reyndar að svo brýnt sé orðið að taka á málefnum þessa fólks að það verði að leita allra leiða til þess að gera sérstakt átak í málefnum geðsjúkra og veita þeim ákveðinn forgang í uppbyggingu á þjónustu fyrir fatlaða. Nefni ég þar ekki síst uppbyggingu sambýla, fjölgun á áfangastöðum til að þjálfa og undirbúa fólk með geðræna sjúkdóma til að takast á við lífið á nýjan leik og að átak verði gert í atvinnumálum geðsjúkra. Það er einnig mjög brýnt að byggja upp ýmsa félagsþjónustu fyrir geðsjúka sem miðar að því að þjálfa þá og undirbúa til að aðlagast samfélaginu að lokinni læknisfræðilegri meðferð. Það er ekki nægjanlegt að geðsjúkir fái læknisfræðilega hjálp á sínum sjúkdómi ef ekki er hægt að bjóða einnig upp á samfelld félagsleg úrræði sem hjálpa þessu fólki til að lifa eins eðlilegu lífi og kostur er. Séu slík félagsleg úrræði ekki til staðar þá sýnir reynslan að það leitar fljótt aftur í sama farið sem kallar á áframhaldandi innlagnir þessa fólks á sjúkrastofnun. Reyndin er sú, sem ekki allir gera sér grein fyrir, að fjórði hver öryrki á Íslandi er fólk með geðræn vandamál. Fólk með geðræn vandamál er oft einangraður hópur og ekki í aðstöðu til að berjast fyrir réttindamálum sínum sjálft.

    Í tölul. 2 í fsp. er spurt hve mörgum sambýlum hafi verið komið á fót fyrir geðsjúka. Á vegum félmrn. eru starfrækt fimm sambýli fyrir fólk með geðræn vandamál. Á einu þeirra, á Akureyri, eru eingöngu geðsjúkir en á fjórum þeirra er fólk sem bæði er þroskaheft og með geðræn vandamál. Einnig hafa verið rekin sambýli á vegum Reykjavíkurborgar, Geðverndarfélagsins og einig eru sambýli rekin sem sjúkradeildir á vegum geðdeilda Landspítalans eins og áður var sagt. Talið er að á annað hundrað manns með geðræn vandamál sé í brýnni þörf fyrir sambýli og að stór hópur þessa fólks búi hreinlega við neyðarástand í húsnæðismálum.
    Í 3. tölul. er spurt um áform sem uppi eru til að leysa þann húsnæðisvanda sem fólk með geðræn vandamál býr við. Í byrjun þessa árs leituðu til mín nokkrir aðstandendur alvarlega geðsjúkra manna sem lýstu ástandinu á þann veg að geðsjúkir væru útskrifaðir margsinnis á ári hverju af geðsjúkrahúsum, en því miður svo að segja beint á götuna án allrar umönnunar eða nauðsynlegrar þjónustu. Aðstandendur þessara geðsjúku einstaklinga lýstu ástandinu þannig að þessir geðsjúku einstaklingar gistu ýmist í húsnæði á vegum Félagsmálastofnunar, í fangelsum eða í Farsóttaheimilinu í Þingholtsstræti, auk annarra aðstæðna sem tilgreindar voru og vart er hægt að lýsa, þar sem geðsjúkt fólk hafi ekkert þak yfir höfuðið nema tilfallandi aðstæður frá einni nótt til annarrar. Auk þess að búa við hreint neyðarástand í húsnæðismálum þá lýstu aðstandendur þessa fólks ástandinu þannig að þetta alvarlega geðsjúka fólk væri mjög hættulegt umhverfi sínu og dæmi um að aðstandendur geðsjúkra þyrftu hvað eftir annað að flýja heimili sín, m.a. öldruð hjón sem þurftu að vera á vergangi frá heimili sínu stundum svo mánuðum skipti af ótta við árásarhneigð sonar síns. Ég held að öllum ætti að vera ljóst að það er dýrara fyrir þjóðfélagið að taka ekki á þessum vanda heldur en að taka á honum.
    Það er talið að fjöldi þeirra sem eru með alvarlega geðsjúkdóma sem eru útskrifaðir af geðdeildum og búa við mjög óviðunandi aðstæður og margir hverjir hættulegir umhverfi sínu séu um 30 -- 40 manns sem eru víðs vegar að af landinu en flestir á Stór - Reykjavíkursvæðinu.
    Í framhaldi af því sem ég hef hér lýst ákvað ég í janúar sl. að skipa starfshóp með aðild Öryrkjabandalagsins, Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, heilbrrn., fulltrúa aðstandenda geðsjúkra, Geðverndarfélags Íslands og Geðhjálpar sem hefur það hlutverk að gera tillögur um úrbætur í húsnæðis - og félagsmálum alvarlega geðsjúkra, sem eru útskrifaðir af geðdeildum og búa við óviðunandi aðstæður, en um er að ræða, eins og ég áður sagði, 35 -- 40 manna hóp sem er alls staðar að af landinu en flestir úr Reykjavík. Starfshópnum er ætlað að kanna þjónustuþörf hvers og eins í fyrrnefndum hópi geðsjúkra og leggja fram heildartillögur um úrbætur hvað varðar húsnæði, sambýli, félagslegar íbúðir eða önnur vistunarúrræði, starfsþjálfun og atvinnumöguleika og aðra þá þjónustu sem talin er nauðsynleg fyrir þennan hóp. Stefnt er að því

að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir 15. mars nk. Auk þess hef ég óskað eftir því við stjórnarnefnd málefna fatlaðra að á þessu ári verði veitt fjármagn til að koma upp einu sambýli fyrir geðsjúka til viðbótar því sambýli sem samþykkt var á síðasta ári sem væntanlega tekur til starfa á þessu ári. Gangi þetta eftir munu væntanlega tvö sambýli fyrir geðsjúka verða sett á laggirnar þegar á þessu ári.
    Þó ekkert sé hægt að fullyrða fyrr en könnun á þjónustuþörf þessa 40 manna hóps geðsjúkra liggur fyrir, þá er talið að þrenns konar úrræði þurfi fyrir þennan hóp að því er varðar húsnæðisaðstöðu. Í fyrsta lagi sambýli, sem ég nefndi hér áðan. Í öðru lagi er hugsanlegt að einhverjir í þessum hópi gætu nýtt sér félagslegar íbúðir ef til kæmi þjónusta í slíkum íbúðum allan sólarhringinn. Í þriðja lagi er talið að langtímavistun á stofnun fyrir geðsjúka þurfi fyrir einhvern hluta þessa hóps.
    Ég vona að mér hafi tekist að svara þeim fyrirspurnum sem beint hefur verið til mín. Það sem ég er hér að reyna er að koma á samfelldum félagslegum úrræðum til hjálpar þessu fólki til þess að það þurfi ekki að fara fljótt aftur í sama farið þegar geðsjúkir hafa fengið læknisfræðilega meðferð sem kallar á áframhaldandi innlagnir þessa fólks á sjúkrastofnanir. Það þarf að samræma betur en nú er samvinnu milli heilbrigðis - og félagsmálayfirvalda þannig að það verði um að ræða samfellda þjónustu fyrir alvarlega geðsjúka sem feli ekki bara í sér læknisfræðilega meðferð, heldur ýmiss konar félagsleg úrræði, svo sem í húsnæðismálum, starfsþjálfun og atvinnumálum þannig að þeim sé veitt nauðsynleg þjónusta og aðstoð til sjálfsbjargar eins og kostur er. Þegar slík samfelld úrræði eru fyrir hendi, þá er fyrst hægt að tala um varanlegan árangur en ekki skammtímalausnir sem kalla á sífelldar endurinnlagnir geðsjúkra. Þegar slík samfelld úrræði liggja fyrir, slíkt nauðsynlegt forvarnarstarf, þá fyrst er hægt að tala um og vonast eftir árangri til þess að bæta aðstöðu geðsjúkra í þessu þjóðfélagi og aðstandenda þeirra.