Kirkjugarðsgjöld og útfararþjónusta
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans greinargóðu svör við fyrirspurninni. Ég lít svo á að af svari hans megi ráða að hann sé í aðalatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem fram koma í mínu máli. Það er hins vegar ljóst, eins og ráðherra greindi frá, að lagaákvæði um þetta efni eru ekki skýr, enda kom það fram í hans máli að það væri ekki bein heimild til að ráðstafa kirkjugarðsgjöldum eins og spurt er um í 1. lið en það teldist þó ekki brjóta í bága við lögin. Það er því ljóst að hér þarf að kveða skýrt á og ég fagna því ef ráðherra flytur frv. um nýja gerð þessara laga að tekið verður tillit til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki þessari fyrirspurn.
    Það er vissulega rétt, sem ráðherra sagði, að það felst ákveðin mismunun í því ef hluti af gjöldum sem allir greiða fer til að niðurgreiða kostnað fyrir einungis hluta þeirra sem greiða en ekki alla. Þess vegna tel ég og er sammála ráðherra um að það eigi að kveða skýrt á í nýjum lögum, t.d. á þann veg að kirkjugarðsstjórn verði heimilt að verja hluta tekna umfram gjöld til greiðslu útfararkostnaðar þeirra sem rétt eiga til legstaðar í viðkomandi kirkjugarði. Sé tekjum hins vegar varið með þeim hætti þá skyldi tryggt að þær nýtist jafnt við greiðslu kostnaðar við útfarir sem fram fara á vegum kirkjugarðsstjórnar sem annarra útfararaðila. Eitthvað á þessa leið hygg ég að þyrfti að kveða á um í endurskoðuðum lögum.
    Hitt er svo annað mál að ég hygg að engum komi til hugar í þessu sambandi að ástæða sé til þess að hnjóða eitthvað í þá aðila sem þessa þjónustu veita vítt og breitt um landið og þar af leiðandi ekki í Reykjavík heldur, sem var það umdæmi sem ráðherra nefndi. Þessi þjónusta er mjög sérstaks eðlis og viðkvæm og henni er þannig háttað að þau atvik sem verða til þess að fyrir hana er greitt er á viðkvæmum tímum í lífi greiðenda. Hér er því mikilvægt að staðið sé að með látlausum en samt virðulegum hætti og auðvitað eðlilegt að allir sitji við sama borð, hvort sem það eru þeir sem fyrir þjónustuna greiða eða þau fyrirtæki sem hana veita.