Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við fáum sem oftast tilefni til þess að ræða þessi mál, þ.e. jafnréttismál karla og kvenna, hér á Alþingi og því ber að þakka þá skýrslu sem hér liggur frammi.
    Það er mjög mikilvægt að umræða um jafnréttismálin fari fram á Alþingi og hér séu teknar ákvarðanir sem flýtt geta fyrir að nauðsynlegar og sjálfsagðar breytingar verði á högun kvenna í þessu þjóðfélagi. Eins og fram kemur hér í II. kafla skýrslunnar um framkvæmdaáætlun, þá eru talin þar upp helstu áhersluatriðin. Verð ég að segja að 2. liðurinn þar er að sjálfsögðu aðalatriðið í stöðunni í dag þó ég vilji ekki gera lítið úr að fræðsluþátturinn á skólastigum er auðvitað ekki síður mikilvægur. Kannski er erfitt að gera upp á milli þessara þátta. En varðandi launamálin vil ég leggja áherslu á það að jafnrétti næst auðvitað ekki fyrr en konur geta orðið efnahagslega sjálfstæðar og framfleytt sér í þessu þjóðfélagi. Það urðu mér því nokkur vonbrigði þegar ég leit á áætlanir hinna ýmsu ráðuneyta varðandi launamálin að þar beinist metnaðurinn eingöngu að því að gera skýrslur. Ég hef ekki tölu á þeim fjölda skýrslna sem fyrir liggja um launamál karla og kvenna þar sem launamunurinn er aftur og aftur staðfestur. Það kemur fram á öðrum stað í skýrslunni að allan síðasta áratug, þ.e. 1980 -- 1990, hefur staðan verið þannig að fullvinnandi konur ná 60% af launum karla í fullu starfi. Það vakti því nokkra undrun mína þegar ég sá þau 33 kosningaloforð Alþfl., sem nú er dreift í tilefni komandi kosninga, að þar er tíunda loforðið sem efnt hefur verið, að sögn þeirra sem bæklinginn hafa unnið, aukið jafnræði kynjanna á vinnumarkaði, eins og þar segir orðrétt.
Það hefði verið fróðlegt að fá um það að heyra hvað hæstv. félmrh. telur að þar hafi áunnist. Því eins og við vitum þá er staðan óbreytt hvað varðar hlutfall launa milli karla og kvenna. Það hafa ekki verið gerðar neinar breytingar sem taka sérstaklega mið af stöðu kvenna á vinnumarkaðnum. Það hafa ekki bæst við dagvistarpláss og vinnutími hefur ekki verið styttur. Ég sé því ekki hvað felst í því aukna jafnræði sem þarna er talað um.
    Í fyrri hluta skýrslunnar er minnst á setu kvenna í nefndum og ráðum og ég er mjög sammála því sem þar er sagt að þar þurfi hlutur kvenna að stóraukast. Í ýmsum nefndum og ráðum fer fram mjög mikilvægt starf sem hefur afgerandi áhrif á stöðu fólks í þjóðfélaginu og því mikilvægt að kvennasjónarmiðið sé þar með í myndinni. Það kemur fram að nú er verið að fjalla um ný lög um jafnrétti kvenna og karla hér á Alþingi og hefur það frv. reyndar þegar verið afgreitt frá efri deild. Þar er ákvæði um að þeir sem tilnefna eiga í nefndir og ráð skuli áminntir um að gæta þess að nefna til jafnan fjölda kvenna og karla en upphaflega ákvæðið var um að lögbundið skyldi að tilnefningaraðilar nefndu tvo. Það hefði auðvitað verið betra og gefið þeim sem endanlega skipa viðkomandi nefndir tækifæri til þess að jafna hlutfall kynjanna í nefndunum. Mér finnst samt skrýtið að við skulum enn þurfa að standa hér og minna tilnefningaraðila á tilveru kvenna í þjóðfélaginu. Konur hafa orðið sýnilegar nú hin seinni ár og hugmyndir og reynsla kvenna hafa þegar sannað gildi sitt á mörgum sviðum í þágu okkar allra. Því ættu þeir sem tilnefna í nefndir og ráð að hafa gert sér grein fyrir. Í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum þar sem jafnréttisumræðan öll er komin mun lengra en hér og menn orðnir meðvitaðri um nauðsyn þess að hafa konur og þeirra hugmyndir með þykir ekki við hæfi að skipa í nefndir nema tryggt sé að kvennasjónarmið komist þar að líka. Ég tel að íslenska samfélagið hafi engan veginn efni á að nýta sér ekki þá auðlind sem hugvit og þekking kvenna er. Það verður okkur öllum til tjóns þegar til framtíðarinnar er litið.
    Þeirri afsökun er gjarnan borið við þegar maður rekur augun í nefndir sem hafa verið skipaðar að beðið hafi verið um tilnefningar frá ýmsum hagsmunasamtökum eða heildarsamtökum og þeir hafi valið þessa tilteknu fulltrúa og við því sé ekkert að gera. Þetta gerðist t.d. þegar núv. hæstv. ríkisstjórn skipaði í atvinnumálanefndir frekar tvær en eina sem skyldu marka stefnu í atvinnumálum. En nýjasta dæmið um þetta er e.t.v. nefnd, sem mikið er talað um þessa dagana, svokölluð sjömannanefnd. Þar fer ekki hjá því að maður reki augun í það strax þegar listi yfir hana er birtur að þar sitja einungis karlar. Það vekur einnig athygli að þeir hafa kallað til sín á milli 20 og 30 aðila til viðræðna, þar er ekki ein einasta kona. Hverjir skyldu það nú vera sem stýra neyslunni í þessu þjóðfélagi? Það eru auðvitað konurnar og skyldi ekki allur sá fjöldi kvenna sem er í bændastétt hafa einhverjar hugmyndir um hvað er til ráða í þeim vanda sem við er að etja nú? Ég þykist þess fullviss, og veit reyndar að svo er, því konur hafa í gegnum tíðina orðið að bjarga sér sjálfar og sjálfsbjargarviðleitni þeirra er alls ekki að þrotum komin.
    Það liggur við að það væri freistandi að fara aftur til baka eins og um eina meðalævi kvenna. Eins og við vitum verða íslenskar konur allra kvenna elstar í heiminum, ná u.þ.b. 76 -- 77 ára aldri að meðaltali, en það er einmitt sami árafjöldi síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Þá fóru fram mjög heitar umræður hér í sölum Alþingis um það hvort leyfa skyldi konum, þ.e. hinum helmingi þjóðfélagsins, að taka þátt í að kjósa til Alþingis. Ýmsir þingmenn vildu gera kröfur um ákveðin aldurstakmörk fyrir konur, aðrir vildu krefjast ákveðinnar þekkingar þeirra kvenna sem fengju að kjósa til Alþingis og enn aðrir voru sem betur fer víðsýnir og vildu jafnan kosningarrétt fyrir bæði kynin. Flestir þingmenn héldu margar ræður um þetta mál, en í ræðu eins þingmanns sem þá sat á Alþingi segir m.a., með leyfi forseta, ég ætla að fá að vitna í hana hér: ,,Ég er hlynntur því að konur fái jafnrétti á við karlmenn því þótt gáfnafari og lundarfari þeirra sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum. Þetta vegur því upp hvað annað.`` Ræðumaðurinn hét Jón Ólafsson. Ég ætla ekki að leggja dóm á viðhorf hans á þessum tíma en ósjálfrátt dettur manni öðru hverju í hug þetta ræðubrot þegar við stöndum frammi fyrir hlutum eins og t.d. skipan sjömannanefndar og þeirra fulltrúa sem komu til viðræðna við hana. Hafa menn í alvöru ekki opnað hug sinn fyrir því hversu nauðsynlegt það er að hafa konur með í ráðum og taka tillit til þeirra hugmynda og tillagna því að þær eru auðvitað starfandi í þjóðfélaginu ekki síður en karlarnir? Eins og kemur fram í nýlegum tölum þá eru um 85% giftra kvenna nú þegar úti á vinnumarkaðnum. Og það gengur auðvitað ekki lengur þegar verið er að ræða mál sem snerta þjóðfélagið allt að ekki séu kvennasjónarmið með í myndinni.
    Ég vil nú aðeins víkja að því sem um er fjallað hér í skýrslunni. Ég verð að segja það að mér sýnist að ráðuneytin hafi verið misvel í stakk búin til að gera raunhæfar áætlanir. Það er á þeim nokkur munur, e.t.v. hafa sum haft lengri tíma til að sinna þessu verkefni en önnur. Það eru ýmis mjög áhugaverð verkefni hér á döfinni sem ættu að geta orðið okkur öllum til góðs. Þá vil ég fyrst nefna það sem minnst er á varðandi félmrn., um ráðningu jafnréttisráðgjafa, sem ég tel mjög nauðsynlegt að gera. Ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem atvinnuástand er núna með þeim hætti sem hefur verið undanfarið. Ég leiddi hugann að því hvort e.t.v. hefði verið ástæða til að einhver með þekking á jafnréttismálum hefði aðstoðað ráðuneyti og stofnanir við að gera sínar áætlanir vegna þess að þetta er nýtt og ég veit til þess að margar stofnanir hafa hreinlega verið í vandræðum, ekki vitað hvernig þær ættu að nálgast verkefnið. Hins vegar er það alla vega jákvætt við slíka áætlanagerð í upphafi, þó hún sé kannski ekki fullkomin, að þetta vekur og hvetur til umræðna um málin. Ég leiddi aðeins hugann að því hvort ekki hefði verið ástæða til að bjóða upp á einhverja aðstoð við ráðuneyti og stofnanir varðandi gerð áætlana.
Ég minntist á það hér í upphafi máls míns að mér finnst svolítið bera á því að það á enn og aftur að athuga launakjörin. Það gerist líka í félmrn. þar sem á að velja út fimm stórar ríkisstofnanir og athuga allt það sem greitt er, bæði laun og e.t.v. fríðindi sem fylgja störfum innan ráðuneyta eða ríkisstofnana sem teknar verða til athugunar.
    Það er auðvitað nauðsynlegt að rannsaka hlutina en mér sýnist að það sé þegar búið að gera svo margt að nú ætti ríkið sem slíkt að taka á sig rögg og taka sterkt frumkvæði að því að laga laun kvennanna til samræmis við þau laun sem greidd eru fyrir karlastörfin. Af því tilefni vil ég minna á að það hefur ýmislegt verið að gerast varðandi menntunarmál kvenna. Þeim var á tímabili sagt: farið og menntið ykkur. Þá lagast launin og þið náið jafnrétti. Konur hafa þyrpst í skóla landsins og bætt við menntun sína. Nám sem konur hafa þyrpst í er að stærstum hluta til á heilbrigðis-, uppeldis- og umönnunarsviði. Það er stöðugt verið að lengja nám kvennastéttanna. Til þess að verða ljósmóðir þarf t.d. fimm ára háskólanám. Fyrst

þarf stúdentspróf, síðan er það lokapróf í hjúkrunarfræði og þá tekur ljósmæðranámið við. Þetta er orðið jafnlangt námi læknanna. Hvor stéttin skyldi nú hafa hærri laun? Það má líka taka til samanburðar verkfræðinga sem ljúka námi á fjórum árum. Það gera hjúkrunarfræðingar líka á háskólastigi. Hvor stéttin skyldi fá betra starfsmat þegar kemur að því að ákveða launin?
    Ég vil líka minnast á eitt atriði til varðandi félmrn. Það er fyrirheit um að hefja nú alvöru rannsóknir á orsökum byggðaröskunar, ekki síst þeirri staðreynd sem í ljós hefur komið að fleiri konur flytja úr dreifbýlissveitarfélögunum heldur en karlar. Þar hallar nú verulega á konur varðandi íbúafjöldann. Á það ekki síst við um konur á aldrinum 20 -- 44 ára. Þær virðast sækja burt í mestum mæli. Sennilega er meginskýringin sú að atvinnulíf er víða einhæft eða konur hafa alls ekki atvinnu og neyðast því til að flytja til þéttbýlisstaðanna. En ég held að orsakirnar séu miklu fleiri og vil þar sérstaklega nefna menningar- og félagslíf sem konur hafa mikla þörf fyrir. Má segja að konur haldi uppi menningarlífi í sínum byggðarlögum og það er áberandi hvar sem maður fer á listviðburði að mjög stór hluti og yfirleitt meiri hluti gesta eru konur. Ég tel mjög nauðsynlegt að rannsaka þetta. Það kom í ljós á norrænni ráðstefnu, sem haldin var í Hveragerði sl. haust, um konur og byggðaþróun að nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa í mörg ár rannsakað þessi mál og reynt að bregðast við með þeim hætti að byggja sérstaklega upp atvinnu- og menningarlíf með það fyrir augum að það verði lífvænlegt fyrir konurnar að búa á landsbyggðinni.
    Varðandi fjmrn. hef ég svo sem ekki nema eina athugasemd en hún er reyndar nokkuð stór. Þar er ekkert sagt um launamál. Ríkisstarfsmenn gera auðvitað sína kjarasamninga við fjmrn. og þar er ekki orð um launamálin eða áherslur á því sviði og því get ég varla litið svo á að hugur manna eða metnaður sé mjög mikill í þessum málum. Það er reyndar minnst hér á lífeyrissjóði og að kannað verði hvernig tryggja megi lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Vil ég minna á að það hefur verið baráttumál Kvennalistans og lögðu þingkonur Kvennalistans fram frv. um það mál hér á Alþingi. Er auðvitað löngu orðið tímabært að taka á lífeyrisréttindum heimavinnandi fólks.
    Varðandi forsrn. fagna ég því auðvitað að hér hefur greinilega verið tekið tillit til frv. Kvennalistans um að stofnuð verði sérstök kvennadeild við Byggðastofnun. Því var mótmælt harðlega þegar mælt var fyrir því frv. á sínum tíma, það ætti ekki að taka frá sérstaklega fé fyrir konur vegna þess að það gætu allir sótt um lánsfé til Byggðastofnunar. Við mótmæltum því að sjálfsögðu í ljósi reynslunnar. Þetta hefur verið gert með góðum árangri á Norðurlöndunum. Þar er litið svo á að þó fé sé eyrnamerkt sérstaklega til að skapa upp atvinnu fyrir konur þá þýði það auðvitað ekki að þær geti ekki eins og aðrir sótt líka í aðra sjóði. Hér er verið að leggja áherslu á að það þarf að gera sérstakt átak og styðja konur með bæði fræðslu og ráðgjöf til þess að útfæra þær hugmyndir sem þær

hafa. Það var auðvitað líka fagnaðarefni að sjá að áhersla er lögð á fjarvinnslustofur en þáltill. sem þingkonur Kvennalistans fluttu á tveimur þingum í röð um stofnun fjarvinnslustofa var samþykkt á síðasta þingi. Það er auðvitað mjög mikilvægt að fólk úti á landsbyggðinni eigi þess kost að taka þátt í þeirri upplýsinga- og tölvubyltingu sem þegar hefur haft mikil áhrif á líf okkar og á sennilega eftir að hafa enn þá meiri áhrif. Það er mjög mikilvægt að við reynum með fjarvinnslu að færa ýmis þjónustuverkefni til fólks úti á landsbyggðinni. Það gæti hentað konum mjög vel að taka slík verkefni að sér. Því hlýt ég að fagna því sem hér er sagt um áherslu á fjarvinnslustofur.
    Síðan kemur að kaflanum um laun karla og kvenna. Þar er einungis um að ræða það sama og hefur verið að gerast undanfarin ár, að Þjóðhagsstofnun verði falið að gefa reglulega út skýrslur um tekjur einstaklinga og þar komi fram skipting launa á karla og konur. Þar þykir mér nú vanta bæði metnað og sannfæringu forsrn. fyrir því að þetta sé brýnt hagsmunamál sem þurfi að vinna að, þ.e. að gera eitthvað raunhæft í því að leiðrétta launamuninn.
    Í fjórða liðnum undir forsrn. er minnst á fjölskyldustefnu. Það er auðvitað löngu orðið tímabært að móta heildstæða fjölskyldustefnu. Í raun og veru er undarlegt að sú nefnd sem var skipuð 1987 skyldi ekki starfa áfram eftir að ný ríkisstjórn tók við, ekki síst með tilliti til þess að sú ríkisstjórn kenndi sig við jafnrétti og félagshyggju, alla vega í upphafi. Það er auðvitað mjög slæmt að starfið skyldi leggjast af vegna þess að mér er kunnugt um að það var þegar búið að vinna upp ýmis mikilvæg gögn og upplýsingar sem gætu jafnvel að hluta til verið orðnar úreltar á þessari stundu. Það þarf því að halda starfinu áfram til þess að það verði ekki til einskis.
    Um Hagstofuna er sagt að þar eigi að ljúka úrvinnslu gagna um launamun karla og kvenna. Það vekur auðvitað mikil vonbrigði okkar sem trúum því að eina leiðin til þess að ná alvörujafnrétti sé sú að konur geti framfleytt sjálfum sér.
    Varðandi heilbr. - og trmrn. hefði ég auðvitað vilja sjá það að einhver áform væru uppi um að lengja fæðingarorlofið en þar er aðeins talað um greiðslur og það er auðvitað ágætt út af fyrir sig. Ég vil minna á að í Nd. var í vetur lagt fram af þingkonum Kvennalistans frv. um að fæðingarorlofið yrði aftur lengt í áföngum upp í níu mánuði og hefði ég gjarnan viljað séð tekið tillit til þess í þessari áætlun. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá hér eitt af fyrstu þingmálum Kvennalistans komast í framkvæmd, en það er stofnun neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisbrota og annars ofbeldis. Það tel ég mjög mikilvægt og vona að slíkri móttöku verði komið á laggirnar hið allra fyrsta.
    Iðnrn. hefur ekki margar fleiri hugmyndir en þær að beita sér fyrir fræðslu um störf í iðnaði og nú skal konum beint til starfa í hinu nýja álveri ef það einhvern tíma rís. Það hefur alltaf verið skoðun okkar kvennalistakvenna að það sé engin lausn að senda

konurnar í karlastörfin. Bæði kynin verða hvort um sig að fá að velja hvað þau vilja taka sér fyrir hendur. Það kemur t.d. ekkert fram í heilbr. - og trmrn. um það að þeir þar á bæ hafi áhuga fyrir að senda karlmenn í hjúkrunar - og sjúkraliðastörfin. Það er stöðugt verið að beina konum og reyna að sannfæra þær um að þær nái jafnrétti með því, eins og ég kom að áðan, að bæta við menntun sína. Þá fái þær sömu laun, þá næst jafnrétti og nú er tónninn: farið í karlastörfin og þá gengur þetta upp. Konur hafna þessu nú orðið. Þetta gengur ekki upp, það hefur þegar sýnt sig.
    Ég ætla aðeins að víkja líka að landbrn. vegna þess að þar er minnst á atvinnumál og það er auðvitað mjög mikilvægt. Eins og ég kom að áðan þá höfum við kvennalistakonur reynt að leggja til ýmislegt varðandi atvinnumál landsbyggðarinnar og minni ég aftur á Byggðastofnun og sérstakt framlag til hennar til atvinnuþróunar fyrir konur. Við lögðum einnig fram tillögu á þessu þingi um að ráðinn yrði a.m.k. einn heimilisiðnaðarráðgjafi til þess að aðstoða fólk úti í hinum dreifðu byggðum landsins til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og hanna ýmsa gripi sem fólk er að búa til. Það gæti orðið stuðningur við tekjuöflun sumra búa. Síðan höfum við lagt fram tillögu, sem reyndar var samþykkt, um úrbætur í ferðaþjónustu. Það hefur einmitt sýnt sig að ferðaþjónusta er ein vænlegasta atvinnugreinin sem við höfum núna og hefur ekki síst nýst úti í dreifbýlinu. Frammi fyrir þeim vanda sem við stöndum núna er mjög nauðsynlegt að við beinum augum okkar að umhverfinu og að landinu og hvernig við getum nýtt það með öðrum hætti heldur en þeim hefðbundna sem hingað til hefur verið gert. Ég tel það mjög jákvætt að landbrn. skuli ætla að beita sér fyrir fræðslu kvenna í landbúnaði. Það þarf auðvitað að gera átak í því hvar sem því verður við komið að konur verði virkar í félagseiningum landbúnaðarins.
    Þá kemur að menntmrn. Það er eina ráðuneytið þar sem minnst er á að fjölga þurfi körlum í kvennastörfum, þ.e. að gera fleiri karla að kennurum. Ég var nú að velta fyrir mér hvernig það ætti að ganga upp miðað við þau kjör sem í boði eru fyrir kennara, hvort karlar hafi efni á að fara í kennslu. Ég vil tíunda hér aðeins nokkrar tölur. Ég hef verið að reyna að fylgjast með þróuninni þau bráðum fjögur ár sem ég hef starfað hér á Alþingi. Þegar ég fékk svar við fyrirspurninni um fjölda kennara og leiðbeinenda á báðum skólastigunum, þ.e. grunnskóla- og framhaldsskólastigi í fræðsluumdæmum landsins á fyrsta þingi þessa kjörtímabils, þá var staðan nokkuð önnur heldur en hún er núna. Það hefur stöðugt fækkað menntuðum kennurum í kennslu við skóla landsins. Sem dæmi ætla ég að nefna að í Vesturlandsumdæmi voru framhaldsskólakennarar í 83% af þeim kennarastöðum sem þá voru þar, en núna er sú tala komin niður í 51% og hefur verið á niðurleið öll þessi fjögur ár. Í Vestfjarðaumdæmi er ástandið verst. Þar hefur hlutfallið farið úr 40% niður í 29%. Það vita allir hvers vegna þetta er. Það eru fyrst og fremst launin og ég fæ ekki séð hvernig hægt er að gera kennarastarfið eftirsóknarvert með þeim launum sem í boði eru.
    Það er einnig minnst á það hér að menntmrn. beiti sér fyrir markvissri kynningu á mikilvægi þess að sveitarfélögin byggi upp leikskóla fyrir börn. Það er auðvitað ljóst að ríkið hefur alveg brugðist í dagvistunarmálum og mín skoðun er sú að það þurfi að koma til tímabundinn stuðningur til þess að koma þessum málum í horfið. Við erum svo langt á eftir núna að það gengur ekki að sveitarfélögin takist ein á við þetta verkefni. Það er talað hér í sambandi við menntmrn. um nám í fjölskyldufræðum og það tel ég vera mjög gott. Reyndar er á dagskrá Sþ. í dag tillaga frá þingkonum Kvennalistans um fjölskyldufræðslu og einnig vil ég minna á að við höfum lagt fram till. til þál. um að settar verði á laggirnar heimilisrekstrarbrautir við framhaldsskóla. En það sem mikilvægast er í skólakerfinu er auðvitað að fræðsla um jafnréttismál og stöðu kynjanna verði aukin og kennurum gert kleift að miðla slíkri fræðslu.
    Í samgrn. eru helst uppi þær hugmyndir að senda konur í vegavinnu og í símaflokka og hef ég svo sem ekki margt um það að segja annað en ég get bara endurtekið þær skoðanir mínar að það er engin lausn að beina konunum í karlastörfin.
    Sjútvrn. hefur áhuga á sérstöku gæðaátaki en þar er ekkert minnst á kjörin, enda kannski ekki í þeirra verkahring. Þar snýst málið auðvitað um að bæta kjör þeirra sem í fiskvinnslunni starfa. Þar getur auðvitað sjútvrn. hjálpað til með ýmsum hætti, með fræðslu m.a. og námskeiðum sem gefa þá einhvern launaauka. Þau laun sem fólk í fiskvinnslu býr við eru auðvitað alveg til skammar en stærstur hluti þess er konur eins og við vitum. En það er ekki síður starfsaðstaðan, vinnuálagið og þeir streitusjúkdómar sem fylgja svo erfiðum störfum sem fiskvinnslan er sem huga þarf að. Það er ekki komin fram jafnréttisáætlun frá umhvrn. Við fáum væntanlega tilefni til þess að ræða hana eða þeir sem hér verða næst þegar skýrsla sem þessi verður lögð fram.
    Ég vil sérstaklega fagna einu sem kemur fram hjá utanrrn. um að settar hafi verið reglur sem auka möguleika á starfsframa ritara. Það var mjög tímabært því að þeir sem eru í ritarastörfum fyrir utanrrn. eru yfirleitt konur með góða almenna menntun. Með reynslu sinni í þessum störfum auka þær mjög þekkingu sína á málefnum þeim sem þær vinna að og það er auðvitað út í hött að ætla þeim að vera eitt sinn ritari og ávallt ritari og aldrei skrefi lengra. Og hef ég grun um að launakjör þeirra þyrfti líka að skoða sérstaklega eins og allra annarra ritara sem vinna í þjónustu ríkisins.
    Utanrrn. minnist líka á konur í þróunarríkjunum og nauðsyn þess að auka framlag til þróunaraðstoðar fyrir konur. Þar vil ég fagna því framtaki sérstaklega og minna á að Kvennalistinn hefur undanfarin ár alltaf lagt fram brtt. við fjárlög um að sérstökum stuðningsaðgerðum verði beint til kvenna í þróunarlöndunum vegna mikilvægis þeirra við að ala upp börnin og sjá til þess að þau fái fæðu. Þær standa undir landbúnaðinum í þróunarlöndunum og þær annast mikinn

fjölda fólks því að fjölskyldurnar eru stórar og þar er skipulagið öðruvísi en hjá okkur að því leyti að stórfjölskyldan er við lýði enn þá. Dagleg fæðuöflun í þróunarlöndunum fyrir fjölskyldurnar er aðallega í höndum kvenna.
    Það er enn minnst á fjarvinnsluna í viðskrn. og ég vona svo sannarlega að miðað við hversu oft hún er nefnd fylgi hugur þar máli þó ég vilji auðvitað vara við því að fjarvinnslustofur séu einhver stóra lausn sem leysir allan vanda. Hins vegar geta þær verið mjög góður kostur víða um landið og nauðsynlegt að koma upp miðstöðvum þar sem fólk getur menntað sig og tekið þátt í þessari miklu byltingu.
    Þetta voru aðeins lauslegir þankar mínir eftir að hafa lesið þessa skýrslu. Ég vil bara ítreka það sem ég hef minnst á hér nokkrum sinnum áður. Lausnin er ekki að segja konum að fara í önnur störf. Þær verða að fá að velja. Lausnin felst í því að endurmeta þau störf sem konur vinna. Það hlýtur að vera eitthvað rangt við það verðmætamat sem birtist í því að næstum því vélrænt sé alltaf komist að þeirri niðurstöðu um störf kvenna að þau séu verðminni en þau störf sem karlarnir vinna.