Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að í þingskjalinu er rangt farið með. Ég vil vekja athygli á nokkrum orðum í inngangi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hugmyndir og tillögur starfshópsins um fjölmörg atriði, sem snerta langtímaáætlunina, verða settar fram í athugasemdum þessum.``
    Ég hef ekki með formlegum hætti komið að samningu þessara athugasemda. Ég lýsti því yfir í nefndinni að málið hefði tekið þá stefnu að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar tóku málið út úr nefndinni, tóku allar ákvarðanir sem skiptu máli hér í sínum þingflokkum og í ríkisstjórn. Það þýðir ekki fyrir þá að samþykkja þar að ég beri ábyrgð á þessum tillögum eða þessari greinargerð. Það verður helst að bera það undir nefndarmenn sjálfa þannig að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Bókun mín og Sturlu Böðvarssonar er alveg skýr. Bókunin snýr að vinnubrögðum. Þar að auki liggur fyrir, sem ég mun koma að síðar, ágreiningur um fjáröflun þannig að við erum ekki aðilar að þessum tillögum eins og þær liggja fyrir.
    Það er ekki hægt að una því, hæstv. forseti, að í þingskjali standi að maður sé höfundur að athugasemdum með stjtill. Það er alveg gersamlega útilokað. Ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir forseta að grípa inn í og gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að leiðrétta greinargerðina og endurprenta síðan þingskjalið áður en frekari slys verða. Ég kæri mig ekki um það að þessu þingskjali sé dreift með þeim hætti að ég sé einn af höfundum greinargerðarinnar, bara alls ekki. Ég biðst undan þeim höfundarrétti fullkomlega og vona að hæstv. forseti sjái til þess að þingskjalið verði leiðrétt í samræmi við staðreyndir og efni málsins.
    Ég geri mér grein fyrir að þetta eru mistök, en það er nauðsynlegt vegna fréttamanna og annarra sem hér eru að þetta komi skýrt fram. Ég var norðan lands. Ef ég hefði séð þingskjalið í gær hefði ég komið leiðréttingum á framfæri þegar í stað. Þar sem umræður voru hafnar og hæstv. ráðherra vék að málinu með þeim hætti sem hann gerði hér í framsöguræðu hlýt ég að taka fram að mér finnst það ekki nægilegt þó svo ræða hæstv. ráðherra yrði fest við þingskjalið og send með, hver sem biður um skjalið að leiðrétting komi fram í hans ræðu, heldur fer ég fram á að þingskjalið sjálft verði leiðrétt.