Langtímaáætlun í vegagerð
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Hér er greint frá því í greinargerð hverjir sátu í þessum hóp. Ég fæ ekki séð að þar sé fullyrt annað en þeir hafi setið í þessum hóp. Nú eru samþykktar þáltill. frá Alþingi og njóta þær ekki stuðnings allra sem á þingi sitja. Engu að síður geta fréttamenn sagt: Á Alþingi Íslendinga á þessu ári sátu eftirtaldir þingmenn, og svo gæti beint á eftir komið: Eftirtaldar þáltill. voru samþykktar af þinginu. Hér virðist því vera um algert samræmi að ræða ef grannt er skoðað og má merkilegt vera hversu nákvæmlega hæstv. samgrh. hefur orðað þetta þannig að ekki hlytist tjón af.
    Ég tel aftur á móti að hv. 2. þm. Norðurl. e. hafi staðfest það svo ekki þurfi um að deila að hann hafi setið í þessum vinnuhóp eins og fram kom því að hann gat þess hér að hann ásamt Sturlu Böðvarssyni hefði skrifað niður sérstakar athugasemdir. Og hvar voru þær athugasemdir skrifaðar niður nema hjá vinnuhópnum? Allt ber þess vegna að sama brunni í þessum efnum. Skjalið stendur fyrir sínu eins og það hefur verið prentað, sé grannt skoðað.