Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að allir hv. alþm. séu sáttir við þá tilhögun sem við tímans vegna og til þægindaauka höfum hér á því að ræða þessi tvö náskyldu dagskrármál, vegáætlun og langtímaáætlun. En þannig háttar til, eins og menn þekkja, samkvæmt þingsköpum að þegar um staðfestingu meiri háttar framkvæmdaáætlana er að ræða er ótakmarkaður ræðutími eins og nauðsynlegt er. Við ættum því að geta komið öllu til skila sem okkur langar til í þeim efnum.
    Tillaga sú til vegáætlunar fyrir yfirstandandi og næstu þrjú ár, árin 1991 -- 1994, sem er á þskj. 716, tekur til hins fyrsta af þremur tímabilum langtímaáætlunar þeirrar sem mælt var fyrir hér áðan. Það má segja að í þessari vegáætlun sé nánari útfærsla og ýmsar ákvarðanir fólgnar sem taka til stefnumiða og grundvallar langtímaáætlunarinnar. Ég mun því fyrst og fremst víkja að slíkum málum í þessari framsögu fyrir vegáætluninni en vísa að öðru leyti um stefnumál og hina stærri þætti til þess sem áður var sagt í framsöguræðu um langtímaáætlun.
    Till. er með hefðbundnu sniði, þ.e. í henni er að finna áætlun um fjáröflun næstu fjögur ár, svo og skiptingu útgjalda á helstu liði. Þá er þar að finna skrá um þjóðvegi og flokkun þeirra, svo og um aðalfjallvegi.
    Í athugasemdum með till. koma fram skýringar á einstökum liðum hennar auk ýmissa upplýsinga um vegakerfið. Rétt er að geta þess í upphafi að allar tölur eru settar fram á sama verðlagi, þ.e. verðlagi þessa árs, verðlagi gildandi fjárlaga, og eins og ég reyndar tók fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir langtímaáætlun eiga því allar tölur í þskj. báðum að vera sambærilegar.
    Ef ég vík fyrst að helstu þáttum till. og þá fjármögnunarhlutanum fyrst er það að segja að framlag úr ríkissjóði á yfirstandandi ári upp á 350 millj. kr. mun renna til að hefja jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum. Að öðru leyti er eingöngu um að ræða markaða tekjustofna en gert er ráð fyrir bættri nýtingu þeirra frá því sem nú er og stefnt er að því að ná fullri nýtingu hinna mörkuðu tekjustofna á áætlunartímabilinu. Meðal þess sem gera þarf til að svo megi verða má nefna eftirfarandi: Bensíngjald og þungaskattur hafa ekki hækkað í takt við verðbólgu á undanförnum árum og hefur þannig myndast nokkur slaki í þessa gjaldstofna. Reiknað er með að þessum slaka verði að mestu náð upp á þessu ári, þó þannig að mestu hækkanirnar koma til framkvæmda á síðustu mánuðum ársins og er þannig tekið mið af þeim takti og þeim viðmiðunartíma sem gildandi kjarasamningar ná til.
    Afsláttur af bensíngjaldi af blýlausu bensíni hefur verið í gildi síðan í júnímánuði 1989 og nemur hann um 8,5%. Var þetta gert, og mjög svo réttilega að mínu mati, til þess að hvetja til aukinnar notkunar blýlauss bensíns, hefur enda markaðshlutdeild þess farið vaxandi og er nú komin í um 60%. Reiknað er með að sú þróun haldi áfram, ekki síst eftir tilkomu

95 oktana blýlauss bensíns. Þar með er þessu upphaflega markmiði í raun og veru náð og sú þróun í notkun þessara orkugjafa fram komin og á réttri leið sem stefnt var að með því að mynda ákveðinn verðmun blýlausu bensíni í hag á árinu 1989. Hitt er svo annað mál að eins og þessir afslættir eru nú framkvæmdir, þ.e. í formi beinna afslátta frá bensíngjaldi, draga þeir úr tekjum Vegasjóðs nema unnt sé að vega þann tekjumun upp með einhverjum öðrum hætti. Það var að sjálfsögðu ekki markmiðið á sínum tíma þegar þessi verðmunur á blýlausu bensíni annars vegar og blýbensíni hins vegar var myndaður að það skyldi koma fram sem sérstök tekjurýrnun hjá Vegasjóði. Hér var verið að kalla fram ákveðin markmið sem tengjast umhverfisvernd og mengun. Nauðsynlegt er því að mínu mati að finna farveg fyrir framkvæmd þessa markmiðs þannig að það valdi Vegasjóði ekki tekjutapi.
    Hafa tvær leiðir einkum verið ræddar í því skyni, þ.e. að halda áfram mismunandi bensíngjaldi á blýlausu bensíni og blýbensíni en hækka þá heimild til álagningar bensíngjalds, lyfta þakinu sem svo er nefnt þannig að meðaltalstekjur geti, þrátt fyrir mismunandi bensíngjald á blýlausu bensíni og blýbensíni, orðið eins og að tekjustofninum væri beitt til fulls. Þyrfti þá að lyfta viðmiðuninni eða þakinu um allnokkur prósent til að ná þessum meðaltalstekjum inn óbreyttum. Hin aðferðin sem nokkuð hefur verið rædd er sú að búa þennan verðmun til með mismunandi tollprósentu á þessum tveimur tegundum bensíns. Báðar þessar leiðir kalla á lagabreytingar. Breyta þarf lögum um tekjuöflun til vegamála eða tollalögum, og er nú í undirbúningi frv. þar sem ákvörðun mun birtast um hvor þessara leiða verður valin og hvernig hún verður útfærð og verður slíkt frv. lagt hér fyrir. Rétt er þó að taka fram að ekki er gert ráð fyrir áhrifum af þessum breytingum á tekjur Vegasjóðs á þessu ári, þannig að í raun og veru þarf fyrst og fremst að tryggja að á næsta ári verði fundin og lögfest leið til að sjá til þess að þessi verðmunur á blýlausu bensíni og blýbensíni geti haldist án þess að það valdi tekjutapi hjá Vegasjóði.
    Þá má nefna innheimtu þungaskatts en þar er um tvenns konar breytingar að ræða sem áhrif hafa á þessar tekjuforsendur. Annars vegar er þar rætt um að breyta innheimtukerfinu þannig að innheimtan fari fram mánaðarlega samkvæmt áætluðum akstri og áætlun síðan leiðrétt þegar álestur fer fram, en það er nú þrisvar á ári. Mundi þetta skila tveimur aukamánuðum í innheimtu undir lok þessa árs og er reiknað með þeim tekjuauka hér. Auk þess eru vonir bundnar við að bætt skattskil með tíðari og um leið lægri greiðslum komi til. Þessi breyting eða önnur sambærileg sem skila mundi sömu tekjuniðurstöðu kallar enn fremur á lagabreytingu og er slík breyting nú í undirbúningi. Hin meginbreytingin sem tengist innheimtu þungaskatts er sú að rætt hefur verið um nýja tegund ökumæla sem, ásamt auknu eftirliti, eigi að koma að mestu leyti í veg fyrir undanbrögð frá skattinum, en þau eru eða hafa verið talin allveruleg á undanförnum árum. Nokkuð meiri tíma tekur að hrinda þessari breytingu í framkvæmd og er miðað við að tekjuauki frá þessum aðgerðum komi fram á nokkrum næstu árum.
    Niðurstöður fjáröflunar 1991 verða samkvæmt þessari áætlun 5.540 millj. kr. og hefur þá verið tekið tillit til áðurnefnds ríkisframlags og tíðari innheimtu þungaskatts að upphæð 170 millj. kr. Er þetta allnokkur aukning á framkvæmdafé til vegamála í samanburði við undanfarin ár. Fjármagn vex síðan út tímabilið sem þessi vegáætlun tekur til. Sú aukning á sér þær skýringar í tekjuforsendum sem hér hafa verið raktar en að auki er reiknað með að umferð aukist um 2 -- 2,5% á ári og tekjustofnar stækki að sama skapi.
    Vegaflokkun. Í vegalögum eru lagðar meginlínur um skiptingu vega í vegaflokka. Í þáltill. eru allir þjóðvegir taldir upp og gerð grein fyrir skiptingu þeirra í stofnbrautir og þjóðbrautir. Með hliðsjón af ákvæðum vegalaga eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar á skiptingu þessari. Stafa breytingar þessar annars vegar af aukinni umferð í samræmi við þau ákvæði vegalaga að vegir þar sem innan tíu ára megi búast við 1000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina skuli vera stofnbrautir. Hins vegar eru breytingar sem stafa af þeim ákvæðum vegalaga að stofnbrautir skuli vera þeir vegir sem ná til 1000 íbúa svæðis. Er í samræmi við þetta ákvæði lagt til að tenging um uppsveitir Suðurlands, frá Flúðum um Geysi að Laugarvatni, verði stofnbraut. Einnig tenging um Borgarfjarðardali, tenging yfir Þverárfjall og Kísilvegur. Þessar breytingar eru í samræmi við tillögur starfshóps um langtímaáætlun.
    Næst er að víkja að gjaldahlið áætlunarinnar. Þar kemur fyrst að liðnum Stjórn og undirbúningur. Fjárveiting til þessa liðar er svipuð og verið hefur en fer örlítið hækkandi á tímabilinu. Verður ekki hjá því komist þar eð verkefnin verða sífellt umfangsmeiri og flóknari og þarfnast samráðs og umsagnar fleiri aðila en áður var. Þá eru kröfur um aukna upplýsingaþjónustu stöðugt vaxandi. Viðhaldi og þjónustu og nýmælum í þessum liðum voru gerð skil í stórum dráttum í tengslum við langtímaáætlun. Hér er þess fyrst að geta að talan 6 hefur fallið niður í niðurstöðutölu Almennrar þjónustu 1991. Ef menn líta á bls. 2 í þskj. sést þar undir stafliðnum 2.2. Viðhald þjóðvega, þar sem er dregin saman niðurstöðutala 2.2.1. Almenn þjónusta, þar hefur talan 6 fallið niður í prentun og á að standa 657 í staðinn fyrir 57 millj. kr.
    Þá er rétt að undirstrika að fjárveiting til þessara verkefna þarf að aukast mjög á næstu árum og er gert ráð fyrir því hér. Allra helst á þetta við um viðhaldið sem mest hefur liðið fyrir fjárvöntun undanfarin ár, enda verður það eðli málsins samkvæmt eins konar afgangsstærð innan viðhalds- og þjónustuliðanna. Þessi vöntun kemur harðast niður á styrkingum og viðhaldi malarvega. Í samræmi við það aukast fjárveitingar mest til þessa liðar á tímabilinu. Þá má benda á að fjárveiting til vegmerkinga og umferðaröryggis er mun hærri en verið hefur og fer vaxandi á tímabilinu. Um viðhalds- og þjónustuliðina má segja að flestir þeirra

snúa mjög að vegfarendum og ráða mestu um það hvort þeir komast leiðar sinnar greiðlega og örugglega.
    Um nýbyggingu vega og brúa. Eins og áður var getið um tekur till. sú sem hér liggur fyrir til fyrsta tímabils langtímaáætlunar. Í framsögu fyrir þeirri áætlun var gerð grein fyrir þeim atriðum sem höfð voru í huga við skiptingu fjármagns milli verkefnaflokka. Venja hefur verið að fjvn. fjalli um skiptingu fjármagns til einstakra kjördæma, stórverkefna og sérstakra verkefna á stofnbrautum og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Við vinnu að undirbúningi langtímaáætlunar voru kannaðar aðferðir þær sem notaðar hafa verið við skiptingu fjármagns milli kjördæma. Niðurstaða starfshópsins varð sú að farsælast væri að nota þessar reglur áfram enda sé endurreiknað reglulega, þannig að tekið sé tillit til breytinga sem verða á vegakerfinu, m.a. vegna framkvæmda á því. Kemur þá til kasta fjvn. að fara yfir þessar reglur og breytingar á tölugildum við nýja útreikninga.
    Eins og gert var grein fyrir áður er í langtímaáætlun gerð tillaga um skiptingu fjármagns til stórverkefna á tímabil. Þessar tillögur verða að sjálfsögðu lagðar fyrir fjvn. til nánari útfærslu og skoðunar. Um aðra útgjaldaliði má að mestu vísa til þess sem sagt var hér áður í tengslum við langtímaáætlun svo og til athugasemda við tillögur um vegáætlun. Einungis vil ég geta tveggja liða undir Fjallvegum. Reiknað er með að lokið verði við að leggja bundið slitlag á núverandi vegakerfi innan þjóðgarðsins á Þingvöllum á þessu tímabili. Þá gefst svigrúm til að auka fjárveitingu til þjóðgarðavega og vega að fjölsóttum ferðamannastöðum. Er það mjög brýnt og mörg verkefni þar sem bíða þess að fá einhverja úrlausn. Reyndar á það við um fjallvegaliðinn í heild og er í till. sýnd viðleitni til að þoka málum í rétta átt á því sviði.
    Ég vil, hæstv. forseti, að lokinni þessari stuttu framsögu fyrir till. um vegáætlun leggja til að henni verði vísað til hv. fjvn. Mér er að vísu kunnugt um að nefndin hefur, eins og stundum áður, þegar hafið vinnu á þessu sviði og þá er einnig hafin vinna og viðræður við þingmannahópa hinna ýmsu kjördæma um útkomu vegamála á þeirra svæði. Ekki er að efa að allir þeir sem að þessu máli koma munu leggja sig fram um að leita eftir samstöðu og farsælli lausn og niðurstöðu eins og jafnan er.
    Ég vil svo að lokum, af því að hér eru tvær viðamiklar og afdrifaríkar till. á ferðinni, leyfa mér að vona að vel takist til með afgreiðslu á þeim báðum. Þó svo að mér sé fullljóst að skammur tími er til stefnu og annir verða miklar hér á hv. Alþingi síðustu vikurnar veit ég, og þekki reyndar af eigin raun, að hv. alþm. telja það ekki eftir sér að leggja vinnu í þessi mikilvægu mál. Því verður ekki á móti mælt að afar mikilvægt væri ef hægt væri að festa þennan framkvæmdaflokk í sessi með áætlanagerð á Alþingi af því tagi sem hér er í tveimur þáltill. gerð tillaga um.