Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Unnið verður skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun.`` Ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin hæstv. metur það hvað áunnist hefur í samgöngumálum á því tímabili sem hún hefur setið. Það hefur í rauninni verið unnið skipulega. Það hefur verið haft mið af langtímaáætlun en því fer fjarri að þau markmið sem sett voru með henni hafi náðst.
    Þessi langtímaáætlun var stefnumarkandi plagg þó hún væri aldrei samþykkt hér inni á þingi en það má ekki horfa fram hjá því að það hefur aðeins náðst að framkvæma 75% af því sem markmiðið var með þeirri langtímaáætlun því að fjármagn hefur ekki fengist til frekari framkvæmda. Eins og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan hafa framkvæmdir í höfuðdráttum á síðustu árum reynst ódýrari en áætlað var af ýmsum orsökum, en þrátt fyrir það höfum við ekki komist lengra.
    Ég átti sæti í þeirri nefnd sem vann að framtíðaráætlun þeirri sem hér er til umræðu núna og fyrsta verkefnið sem sú nefnd tókst á hendur var að finna einhverja niðurstöðu um það hvaða fjármagn væri líklegt að fengist til þeirra hluta og til ráðstöfunar á hverjum tíma án verulegrar hækkunar á sköttum. Það kom í ljós að núv. hæstv. ríkisstjórn var ekki reiðubúin að samþykkja að það yrði neitt frekari fjármunum varið til þess heldur en raun ber vitni. Það er vitanlega mjög miður og í rauninni ekki ásættanlegt, en í ljósi þess að ekki var ætlað að leggja á frekari skatta vegna vegagerðar né vegna þeirra fjármuna sem yrðu þá teknir frá öðru til samgöngumála, þá varð þetta niðurstaðan. Síðan var markmiðssetningum hagað eftir því hvaða áföngum væri hægt að ná fyrir það fjármagn sem fyrir hendi væri á hverjum tíma og því svigrúmi sem þeir fjármunir veita. Ég tel þessa aðferð raunhæfa. En auðvitað væri æskilegra að fyrst væri litið á hvaða markmiðum við viljum ná og það væri sannarlega metnaðarfyllra að hafa það þannig. Einnig væri metnaðarfyllra að ákveðin væri einhver prósenta af landsframleiðslu til viðmiðunar við það sem verja ætti til vegagerðar eins og í rauninni var gert við fyrri langtímaáætlun í vegamálum. En stjórnvöld hafa heykst á því að standa við þá áætlun áður og mér finnst eiginlega óhófleg bjartsýni að ætla stjórnvöldum í framtíðinni það að standa við þetta að fenginni reynslu þó að það sé dálítið hart að segja það hér í þessum stól. Það eru mér sannarlega vonbrigði hvernig þetta hefur farið.
    Landsbyggðin á í miklum erfiðleikum nú svo sem öllum er ljóst og góðar samgöngur og tengingar á milli byggða og atvinnusvæða eru landsbyggðinni lífsnauðsyn. Um það deila menn ekki. Það eru mér því enn meiri vonbrigði að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki treyst sér til að ákvarða að myndarlegar skuli staðið að málum nú varðandi framtíðarframlög til vegamála þrátt fyrir alls kyns fögur fyrirheit í málefnasamningum um framkvæmdir í byggðamálum og framkvæmdir og átök í málefnum landsbyggðarinnar.

En þar lít ég svo á að góðar samgöngur séu forsenda fyrir bættum skilyrðum byggðanna, bæði til samvinnu þeirra og samstöðu og nauðsynlegra breytinga í atvinnuháttum og atvinnulífi.
    Auðvitað er ég ekki sátt við einstök atriði í þessari langtímaáætlun. Og auðvitað er ég ekki sátt við það að markmiðin skuli ekki vera sett hærri, að ekki skuli ákveðið hér og nú að ákveðnar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar og óumflýjanlegar og lífsnauðsyn fyrir byggðirnar, að þær skuli ekki unnar á þessu tímabili. En miðað við fjármagnsforsendur þá tel ég þessa áætlun raunhæfa og vænti þess að stjórnvöld treysti sér í framtíðinni að sjá til þess að hún gangi betur eftir en sú fyrri.
    Vegáætlunina fyrir næsta tímabil mun ég ekki ræða hér. Ég geri ráð fyrir að það gefist tími til aftur að taka hana til umræðu, en þar eru ýmsir hlutir sem ég hefði viljað sjá með öðrum hætti. En ég legg enn áherslu á það að við megum ekki missa sjónar af því að ef okkur er annt um að byggð þróist á einhverjum skynsamlegum nótum úti um landið, þá eru það samgöngurnar sem ráða því fyrst og fremst og á það verður að líta.