Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil segja það fyrst að afstaða mín til þessara mála á undanförnum árum hefur ekkert breyst. Ég hef talið að vegamálin, eða sá samgönguþáttur sem fjallar um vegamál, væru með þýðingarmestu málum sem varða velferð þessa lands og ég hef alltaf viljað halda því fram að aukið fjármagn til vegamála væri forgangsverkefni í sambandi við þau mál og þar með um byggðamál almennt.
    Menn hafa ekki verið sammála um þessi mál að því leyti til að ég er einn af þeim sem hafa haldið því fram að það væri ekkert vafaatriði að til þess að gera það stórátak sem hér þarf að gera í vegamálum, þá þurfi að koma til erlent fjármagn. Ég hef oftar en einu sinni bent á það hér við umræður um vegáætlun að það væri stefna sem væri óhjákvæmileg miðað við það að ná verulegum árangri í því að gera stórar framkvæmdir sem blasa við öllum. Ég er þess vegna mjög hugsandi um það hvort þessi framsetning hér sinni þessum málum á þann veg að við ráðum við það miðað við þá mörkuðu tekjustofna sem Vegagerðin hefur.
    Það var mikið framfaraspor að mínu mati þegar vegáætlunin um langtímaáætlun var gerð 1981. Þó að hún yrði aldrei formlega samþykkt hér á Alþingi, þá hefur verið farið eftir henni allar götur síðan og þarf ekki að efa að það er visst stjórnunarform sem Alþingi hefur afskipti af hvernig að þessu hefur verið staðið. Ég hef gagnrýnt það á undanförnum árum og gerði það sérstaklega 1989 að ekki skyldi vera hafin ný langtímaáætlun sem þó var gert ráð fyrir að yrði, vegáætlunin sem ég nefndi hér áður 1981. Sú endurskoðun átti að hefjast 1987. Þetta er mikið verk og það var alveg augljóst mál að það yrði mjög vandasamt. Ég vil einnig rifja það upp að við þá breytingu sem hæstv. samgrh. gerði 1989 á núgildandi vegáætlun, þegar stórverkin voru tekin inn, þá fannst mér og mörgum fleirum að það lægi alveg á borðinu að þessi mikla breyting sem þar var gerð, að taka þessi stórverk inn í vegáætlunina, bæði að því er varðar jarðgangagerð og höfuðborgarsvæðið, mundi þýða minnkandi framkvæmdir í almennri vegagerð. Það sem ég hef lagt þar til grundvallar er það að ég tel og það þarf ekki að rökstyðja það, það liggur alveg á borðinu, að í þeirri vegáætlun sem hefur verið unnið eftir eru hringinn í kringum landið stórverkefni í almennri vegagerð, og það eru dýrustu kaflarnir, sem hafa orðið eftir og það þarf miklu meira framkvæmdafé í þá á síðari stigum heldur en í þær framkvæmdir sem þegar er búið að vinna að. Þess vegna hef ég alltaf verið haldinn vissum ótta um það að þessari almennu vegagerð mundi verða seinkað miðað við þá ákvörðun að taka stórverkin inn í vegáætlun 1989 eins og raunin varð á, ekki síst með þeirri flýtingu sem varð á Vestfjarðagöngum samkvæmt ákvörðun ráðherra í framhaldi af því. Ég ætla ekki að eyða tíma í að rökstyðja þetta nánar, en það blasir við okkur öllum.
    Á Vesturlandi erum við t.d. með gífurlega stór

verkefni í almennri vegagerð. Ég þarf ekki að nefna nema veginn vestur Mýrar sem kostar fleiri hundruð milljónir. Við erum að reyna að þoka honum áfram og stefnum að því að ljúka því verki 1993, en augljóslega kemur það niður á öðrum almennum framkvæmdum sem enn þá eru óunnar á okkar svæði í stofnbrautum sem hafa mikla þýðingu fyrir okkar samgöngukerfi.
    Í sambandi við þetta get ég einnig sagt að það veldur mér nokkrum áhyggjum hvað þessi breyting að því er varðar höfuðborgarsvæðið tekur mikið til sín. Ekki það að ég sé að hafa á móti því að uppbygging við höfuðborgarsvæðið fái fjármagn og fái framkvæmdir til þess að sinna því verkefni. Hins vegar vekur athygli að þetta verkefni, höfuðborgarsvæðið, fær jafnmikið fjármagn til sín á þessu langtímaverkefni sem hér liggur fyrir í þáltill. og stórverkin sjálf í heild, þ.e. jarðgöng og annað. Þetta hlýtur að skoðast út frá því að það rýrir enn hraða framkvæmda í almennri vegagerð í heild.
    Herra forseti. Ég er hér að ræða um bæði málin í einu, ég vil ekki gera greinarmun á því, báðar þáltill., þ.e. vegáætlun 1991 -- 1994 og langtímaáætlun 1991 -- 2002, og það má draga ályktun af því sem ég segi hér og ætla ég ekki að hafa mjög langt mál.
    Á fyrsta fundi með vegagerðarmönnum í fjvn. óskaði ég eftir upplýsingum um vegakerfið eða gatnakerfið á höfuðborgarsvæðinu, hvernig það kemur fram í þessari áætlun og jafnframt vakti ég athygli á því að V. kafla vegalaga, sem er um þjóðvegi í þéttbýli og það sem því tilheyrir, er náttúrlega augljóslega orðið löngu, löngu tímabært að taka til endurskoðunar. Ég reikna með að á fundinum nk. mánudag fáum við vissar upplýsingar frá Vegagerðinni um þessi mál, en þessi kafli vegalaga er óbreyttur síðan 1977 og í raun miklu, miklu lengra síðan þessi kafli kom inn í vegamálin. Þetta er mál sem ég vænti að við fáum upplýsingar um nk. mánudag og getum þá skoðað betur þessi mál í samhengi, hvort eðlilegt sé að þessi verkefni á höfuðborgarsvæðinu plús hlutur þeirra í þjóðvegum í þéttbýli, hvort ekki sé löngu orðin þörf á því að endurskoða þetta mál.
    Í sambandi við vegáætlunina sjálfa vil ég aðeins undirstrika það sem raunar hefur komið fram og kom fram hjá ráðherra að það er ákaflega mikilvægt, finnst mér, að gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu viðhald og uppbygging vega hefur í þessari langtímaáætlun og raunar vegáætlunin sjálf einnig. Við erum með svo stórt svæði eins og ég sagði áður í almennri vegagerð og ekki síður í þjóðbrautunum, bæði stofnbrautum og þjóðbrautum, sem verða að bíða árum saman eftir varanlegri uppbyggingu og þar af leiðandi er þetta atriði mjög þýðingarmikið að fé verði aukið í þessu skyni því að fyrsti liður og aðalliður í langtímaáætluninni, bæði þeirri sem núna er í gildi og einnig þeirri sem hér er lögð til, er sá að stofnbrautir hafi fullt burðarþol, 10 tonn allt árið, svo og þýðingarmeiri þjóðbrautir. Það er þarna sem við þurfum að sjálfsögðu að leggja þunga áherslu á. Einnig það að vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því sem unnt

er með tilliti til vetrarþjónustu. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða því að þó að menn verði að bíða í lengri tíma eftir að fá bundið slitlag á þessa vegi og fullgerða uppbyggingu, þá er ekki síður þýðingarmikið og e.t.v. þýðingarmest fyrir mörg byggðarlög að það sé fjármagn á þessum tíma þangað til kemur að fullnaðaruppbyggingu á vissum vegakerfum, þá verði hægt að miða við að það sé búið að byggja þá þannig upp að þeir þoli þessa þungaflutninga og séu sæmilega byggðir upp úr snjó. Það er hægt að ná miklum áföngum til þess að ná því markmiði með því að auka viðhald og styrkingarfé til almennrar vegagerðar, sbr. það sem hér hefur verið túlkað að væri aukning á, og ég efast ekkert um það, og sem kom einnig fram hjá hæstv. samgrh.
    Það sem mig langar til að koma inn á við hæstv. ráðherra áður en lengra er haldið er að það er gert ráð fyrir því í sambandi við fjáröflun til vegagerðar að það þurfi lagabreytingar, bæði að því er varðar bensín og eins þungaskatt og nýjar tegundir ökumæla o.s.frv. Nú er ljóst að það er vafasamt að þau lagaákvæði nái fram að ganga á þessu þingi sem nú á eftir nokkra daga og þá er spurningin sú: Er ekki gert ráð fyrir því að það fjármagn sem þessar lagabreytingar gefa, er gert ráð fyrir því í því fjármagni sem hér er til vegaframkvæmda, bæði í vegáætluninni fyrir 1991 -- 1994 og í langtímaáætluninni þannig að það er ljóst að það er búið að reikna með þessu fjármagni? Ég a.m.k. óska eftir að það sé staðfest. Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir því að þarna á Alþingi eftir að taka mikilvæga ákvörðun sem tengist stefnunni í fjáröflun til vegagerðar almennt í þessum þáltill.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að öðru leyti að gera athugasemdir við fjármögnunarkaflann. Það var búið að fjalla um það m.a. í mínum þingflokki. Hins vegar get ég endurtekið það sem ég sagði hér áðan að ég er enn þá á þeirri skoðun að stórir hlutar af þessum stórframkvæmdum, sem hér er talað um, þurfi meira fjármagn í lántökum heldur en tekjustofnarnir segja til um ef á að ná viðunandi áföngum á því tímabili sem hér er talað um.
    Mig langar aðeins til að koma inn á tvö mál að því er varðar mitt kjördæmi, þó ég muni gera það nánar þegar kemur að síðari umræðu þessara mála. Þá er það fyrst eitt stærsta mál í mínu kjördæmi sem tengist að vísu öðru kjördæmi, þ.e. Vestfjörðum, og það er vegurinn yfir Gilsfjörð. Ég tel ástæðu til að taka það fram hér að við þingmenn Vesturlands og Vestfjarða höfum haldið marga sameiginlega fundi um þetta mál, ýmist með heimamönnum á heimavettvangi, ef ég má orða það svo, og einnig hér inni á Alþingi, um það hvernig standa skuli að þessum málum.
    Við höfum lýst því yfir, og raunar má segja stigið á stokk og strengt þess heit, þessir þingmannahópar, að vinna að því að um leið og veginum og brúnni yfir Dýrafjörð yrði lokið, sem er reiknað með að ljúki 1992, þá taki við nýtt sameiginlegt verkefni sem hefjist þá þegar, þ.e. vegur eða brú yfir Gilsfjörð. Undirbúningur þessa verks er mjög vel á veg kominn. Á

undanförnum árum hefur verið veitt fjármagn til að gera verkáætlun eða úttekt á þessu verki þannig að það er ekkert slíkt sem hamlar og allar samþykktir samtaka sveitarfélaga, bæði á Vestfjörðum og á Vesturlandi, hafa hnigið að því að þessi framkvæmd hefjist 1993 og verði helst lokið á þessu tímabili. Í langtímaáætluninni sem hér liggur fyrir er hins vegar gert ráð fyrir því að framkvæmdin verði aðallega á öðru tímabili, þ.e. 1995 og þá á næstu tveimur, þremur árum. Hins vegar er sett þarna inn opnunarupphæð, 15 millj., á fyrsta tímabilið, 1994. Þessi fjárhæð er að mínu mati allt of lítil til þess að hægt sé að sætta sig við það í fyrstu umferð. Ég tel að við þingmenn þessara tveggja kjördæma séum búnir að gefa út vissar skuldbindingar sem við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að við sé staðið. Þar af leiðandi munum við mjög leita eftir því á hvern hátt væri hægt að lagfæra þessa tillögu að því leyti til að Gilsfjörður kæmi að stærri hluta en hér er lagt til inn á fyrsta tímabilið heldur en þessar 15 millj. segja til um.
    Þetta er atriði sem ég tel mikilvægt að komi hér fram strax því að þessi vegagerð hefur slíkar afleiðingar að hún tengir þarna saman svæði sem standa höllum fæti í byggðamálum, þ.e. Dalabyggð og Austur - Barðastrandarsýslu, og þegar ákvörðun var tekin um það að sameina hreppana í Austur - Barðastrandarsýslu, þá var það eitt af meginmálum til þess að koma þeirri sameiningu á að stjórnvöld mundu taka saman höndum um það að gera að veruleika að tengja þessar byggðir saman með brú eða vegi yfir Gilsfjörð. Um þetta hefur ekki verið neinn ágreiningur. Þetta er að hluta til þegar sameiginlegt þjónustusvæði, að því er varðar heilsugæslu og annað, en það er búið að færa margvísleg rök fyrir því hvaða gífurlega þýðingu þetta mundi hafa til að styrkja þessar byggðir, tengja fólk þarna saman í atvinnusvæði og lagfæra ýmislegt annað í rekstri þessara byggðarlaga sem er dýrt í dag en mundi taka allt aðra stefnu ef þetta væri orðið sameiginlegt svæði sem tengdist þarna saman.
    Ég tel rétt að láta þetta koma fram nú þegar vegna þess að það voru mjög mikil vonbrigði þegar þessi langtímaáætlun kom fram að þessu skyldi ekki vera sinnt á þennan veg og margir segja við mig: Ja, af hverju eruð þið að kvarta? Vesturland hafði þrjá fulltrúa í þessari endurskoðunarnefnd, tvo starfandi þingmenn og einn varaþingmann, sem hefðu þá átt að geta sett þetta inn á annan hátt í gegnum nefndina. Ég skil erfiðleika þessara aðila í svona nefnd, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við þurfum að fá stærra skref hér heldur en þarna er lagt til.
    Einnig vil ég segja það að mér finnst ástæðulaust að vera að setja hér í sambandi við úttekt vegakerfisins breytingu á vegum í kjördæminu sem ekki er búið að taka ákvörðun um, ekki er búið að rannsaka eða gera neinar slíkar tillögur um. Þar á ég við það sem kemur hér fram í breytingum á flokkum vega og viðamestu breytingar á veglínum. Hér er því slegið föstu að áætlað er að Kerlingarskarðsvegur liggi um Dökkólfsdal í stað þess að hann liggi yfir Kerlingarskarð. Það liggur ekkert fyrir um þessa breytingu. Það hefur komið ósk um það frá samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi að gerð verði rannsókn á því hvernig þessi veglína mundi koma út í samanburði við veglínu yfir Kerlingarskarð, en það er engin ósk um það að taka þetta inn á vegáætlun til breytinga með þessum ákveðna hætti, a.m.k. ekki svo að ég eða aðrir þingmenn hafi vitneskju um. Fyrir stuttu var í Borgarnesi sameiginlegur fundur sveitarfélaga á Vesturlandi þar sem fjallað var einvörðungu um það að gerð yrði rannsókn á vegarstæði um þetta svæði til þess að hægt væri að bera það saman við vegarstæði um Kerlingarskarð. Þetta er kannski smáatriði en eigi að síður er ástæðulaust að marka stefnu á þennan hátt sem er ekki búið að leggja grunn að í vegakerfi svæðisins.
    Virðulegi forseti. Ég sagðist ekki ætla að tala langt mál. Ég veit að það er mikill vandi á höndum hjá okkur í fjvn. sem tökum við þessum tillögum. Eins og hér kom fram áðan er tíminn orðinn mjög þröngur þar sem aðeins eru nokkrir dagar eftir, ef svo má að orði komast, af þinghaldinu hér, fimm eða sex fundir í Sþ. samkvæmt dagskrám. Þar af leiðandi er mikill vandi á höndum í fjvn. að fjalla um þetta mál. Ég geri mér líka grein fyrir því að Vegagerðin bíður eftir ákvörðun fjvn. um meginlínur í þessum málum til að geta tekið lokaákvörðun með þingmönnum kjördæmanna um þær skiptingar sem mestu máli skipta. Ég geri ráð fyrir því að það verði að leggja megináherslu á þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994 til þess að það verði örugglega afgreitt. Ég tel nauðsynlegt að ganga frá svona þáltill. í meginatriðum að því er varðar langtímaáætlunina. Mér finnst það vera mikilvægt mál og a.m.k. allar helstu útlínur í þeirri tillögu.
    Ég vænti þess að það verði hægt að vinna að þessu máli þannig að niðurstaða fáist. Við eigum sem bakhjarl í þessu stofnun, Vegagerð ríkisins, sem hefur alltaf sannað það að hún heldur vel á málum og þar er hægt að fá upplýsingar fljótlega um öll þau atriði sem máli skipta og menn vilja fá í sambandi við þessi mál. Vegagerðin er trausts verð og hún hefur haldið vel á þessum málum. Ég vona að okkur takist í fjvn. að skila þessu máli aftur inn í þingið en það kostar mikið starf og það kostar miklar og greiðar upplýsingar og mikið samstarf um að hægt verði að ná málinu fram.