Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Umræða um langtímaáætlun í vegagerð hér á hv. Alþingi er afar mikilvæg því hér er um að ræða stefnumörkun löggjafar - og framkvæmdarvalds til 12 ára á sviði vegaframkvæmda. Ég ætla ekki að fara dult með það að mér finnst málaflokk þessum ekki gert of hátt undir höfði með þessari áætlun og ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að ekki voru framkvæmdir nema innan við 3 / 4 hlutar af síðustu langtímaáætlun vegna þess að ekki var útvegað fjármagn til þeirra framkvæmda nema að 3 / 4 . En þar sem samgöngur eru einn af mikilvægustu málaflokkum þessa lands og bættar samgöngur, þá er nauðsynlegt að það sé vandað til verka eins og kostur er.
    Ég hef, hæstv. forseti, lagt fram í dag brtt. við þessa langtímaáætlun sem gerir ráð fyrir því að hægt verði að hraða brýnustu samgöngubótum enn frekar en langtímaáætlunin gerir ráð fyrir. Vil ég leyfa mér að kynna hana hér:
    ,,Við tillöguna bætist nýr kafli, Mannvirkjasjóður samgönguframkvæmda, svohljóðandi:
    Alþingi ályktar jafnframt að fela samgrh. að undirbúa lagafrv. um sérstakan sjóð til þess að hraða framkvæmdum á stofnbrautum, þjóðbrautum og við jarðgangagerð samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis síðar. Sjóðurinn heiti Mannvirkjasjóður samgönguframkvæmda.
    Mannvirkjasjóði samgönguframkvæmda verði heimilað að taka erlend eða innlend lán til þess að hraða brýnustu framkvæmdum í samgöngumálum á stofnbrautum umfram langtímaáætlun, enda verði við einstakar framkvæmdir gerð grein fyrir hvernig lánin verði endurgreidd með gjaldtöku af umferð og/eða með mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar í framtíðinni.``
    Margir hv. ræðumenn hafa rætt um það að nauðsynlegt væri að framkvæma meira, en ég leyfi mér hér að koma með hugmyndir að því hvernig slíku væri hægt að koma í framkvæmd. Erlend lántaka t.d. þykir nú ekki fín en ég tel að þegar hún skili þjóðinni arði sé hún fyllilega réttlætanleg og stjórnendur landsins verða að gera greinarmun á því hvort erlenda lántakan fer til arðsamra framkvæmda eða hvort lántakan fer til greiðslu rekstrarkostnaðar ríkissjóðs eða einhvers konar vandræðagangs í ríkisfjármálum. Erlenda lántöku til arðsömustu vegaframkvæmda er hægt að réttlæta t.d. á eftirfarandi hátt: Mannvirki sem byggt er fyrir lántökuna stendur raunverulega sem eign, sem mannvirki á móti láninu. Þannig hafa skuldir þjóðarinnar aukist vegna lántökunnar en eignir hafa líka aukist. Og það er auðvitað allt annar hlutur hvort lántakan er gerð með þessum hætti eða hvort hún er gerð til þess að borga einhverja eyðslu sem engin eign stendur á bak við. Þó að vegamannvirki séu ekki talin fram í þjóðarauðsmati í dag, þá er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að gera. Og maður getur leyft sér að spyrja hvers vegna vegamannvirki eru ekki talin með í þjóðarauðsmati því að samgöngumannvirki eru auðvitað verðmætar eignir.

    Það kemur fram hér í greinargerð Vegagerðarinnar að arðsemi af einstaka framkvæmdaliðum geti numið allt að 30% og það sjá allir að svo há arðsemi hlýtur að réttlæta lántöku, hvort sem hún er innlend eða erlend. Er rétt að taka einnig fram að það kemur fram á bls. 8 í þessari langtímaáætlun að útreikningar þessir sýni ekki raunverulega arðsemi heldur eru notaðir hér einungis til samanburðar. Hér stendur eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðferð sú, sem notuð hefur verið við arðsemisútreikninga, er úrelt orðin, m.a. vegna breytinga sem urðu með tilkomu virðisaukaskatts. Sýnir hún almennt of lága arðsemi. Allmikið verk er að endurskoða aðferðina og hefur enn ekki unnist tími til þess.``
    Mér sýnist hér, hæstv. forseti, vera fyllsta ástæða til þess að hraða þessum arðsemisrannsóknum og þá verði einnig tekið tillit til þess hags sem atvinnulífið og þjóðin öll hefur af bættum samgöngum en ekki eingöngu þeim atriðum sem tekið er tillit til í dag.
    Að öðru leyti vil ég minna á að við slík stórverkefni, sem meiningin er að ráðast í, í samgönguframkvæmdum er rétt að það verða að koma til stórauknar rannsóknir á arðsemissjónarmiðum og félagslegum sjónarmiðum svo að það sé ljóst við hverja ákvarðanatöku hver hagur þjóðarinnar raunverulega er af einstaka stórframkvæmdum. Það er alveg ljóst í mínum huga að íslensk stjórnvöld þurfa að gera stórátak í samgöngumálum á næstu árum. Það má t.d. nefna að það þarf að ljúka gerð hringvegarins. Það þarf að leggja aukið bundið slitlag svo að þau mannvirki sem þegar er búið að byggja fjúki ekki út í loftið. Jarðgangagerð þarf að hraða á Vestfjörðum og Austurlandi og fyrir liggur tvöföldun Reykjanesbrautar sem er mjög nauðsynleg vegna fyrirhugaðra framkvæmda þar.
    Það er rétt að geta þess að í mörgum tilfellum getur verið miklu ódýrara að taka lán og ljúka gerð tiltekinna stórverkefna í samgöngumálum og innheimta t.d. gjald af viðkomandi framkvæmd til endurgreiðslu fjármögnunar ásamt greiðslu af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar heldur en að framkvæma t.d. lítilræði á hverju ári þannig að heildarkostnaður við framkvæmdina verður kannski langtum meiri en hann hefði þurft að vera. Og framkvæmdin skilar ekki þjóðinni því gagni sem til er ætlast fyrr en búið er að ljúka henni. Þannig vinnst tvennt. Framkvæmdin kemur fyrr til með að skila þjóðinni arði og framkvæmdakostnaður lækkar ef verkið er unnið með meiri hraða.
    Það er einnig rétt að geta þess, hæstv. forseti, að úrbætur í samgöngumálum eru alger forsenda þess að byggðaþróun á Íslandi fari ekki öllsömul á óæskilegan veg og fólk yfirgefi eignir sínar á landsbyggðinni og flytji til höfuðborgarsvæðisins eða úr landi. Því að kostnaður þjóðfélagsins af slíkum búferlaflutningum og byggðarröskun er mjög mikill. Flytji fólk af landsbyggðinni suður til Reykjavíkur þarf að byggja aftur yfir það hér, sem kostar peninga, auk þess sem nýtt fjármagn þarf til húsnæðismála, stækkunar skóla og aukinnar þjónustu á öllum sviðum.
    Hæstv. forseti. Ég vil minna á það að ég flutti hér

í vetur till. til þál. um stefnumörkun í jarðgangagerð á Austurlandi, þar sem gert var ráð fyrir að Alþingi markaði skýra stefnu í þeim málum og hvernig þeim yrði komið í framkvæmd. Sú tillaga gerði ráð fyrir því að undirbúið yrði heildarútboð jarðgangaframkvæmda á Austurlandi í lok framkvæmda við jarðgöng í Fljótsdalsvirkjun. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta í samhengi því að slíkt tækifæri fáum við vart aftur á næstu árum. Með því að stefna að alþjóðlegu heildarútboði nauðsynlegustu jarðganga á Austurlandi í framhaldi af jarðgangagerð við Fljótsdalsvirkjun, sem gert er ráð fyrir að verði 32 km, þá er hægt að koma þessu mikilvæga máli í framkvæmd á þann ódýrasta hátt sem kostur er. Og með því að hafa
t.d. fjármögnun skilyrt innifalda í hugsanlegu útboði mætti fá þetta á hagkvæmum kjörum. Tímasetning framkvæmdarinnar, þ.e. lok framkvæmda við aðrennslisgöng Fljótsdalsvirkjunar, er mjög mikilvæg til að tryggja að hagkvæmt tilboð fáist í þessi jarðgöng.
    Þótt einhverjum kunni að þykja það stórt hugsað að ráðast í öll jarðgöng á Austurlandi í einu, þá er þetta einungis spurning um hagkvæmni. Hvað er ódýrast fyrir þjóðina og hvað er best fyrir fólkið í landinu? Við hljótum að hugsa fyrst og fremst um það. Að framkvæma þetta verk í einu lagi tryggir að einingarverðið við framkvæmdina verður sem lægst, það tryggir að jafnframt því að ætla að bora göt í gegnum fjöllin, þá séum við ekki líka að leggja vegi yfir þau, sem gengur auðvitað ekki upp því að þjóðin hefur ekki efni á að fara þannig með sína peninga. Þjóðin hefur fyrst og fremst efni á því að ráðstafa fjármunum sínum á markvissan hátt í framkvæmdir sem öruggt er að skili þjóðinni arði til lengri tíma litið. Skattborgarar þessa lands geta ekki borgað vegi bæði yfir fjöllin og malbikað þá og ætlað síðan að fara í gegnum þau á eftir. Slík stefna er auðvitað fáránleg.
    Ég vil ítreka það að hagur atvinnulífsins er mjög mikill af bættum samgöngum og með tilliti til fiskmarkaðar sem nú er að ryðja sér til rúms er nauðsynlegt að samgöngur batni á Austurlandi því að það er ljóst að fiskmarkaðir eru komnir til þess að vera og munu verða komnir hér um allt land innan mjög fárra ára.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, þakka gott og ánægjuleg samstarf við Vegagerð ríkisins og við þá starfsmenn sem hafa unnið með okkur þingmönnum við að útdeila þessum peningum, sem erfitt er nú að útdeila því allt of lítið er til skiptanna. Ég vil að lokum minna hér á það, hæstv. forseti, að vegaframkvæmdir eru með arðsömustu framkvæmdum að mínu mati sem hægt er að setja fjármagn í hér á landi ef undanskildar eru hafrannsóknir.