Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Ég neyðist til að koma hér upp án þess að ég ætli að tala beint meira um vegáætlunina. Það er vegna orða hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar, sem ég geri ráð fyrir að sér hér einhvers staðar í gættum, til mín hér í umræðunni þar sem hann bar á mig ýmis grófyrði. Ég kannast við sérstæðan hroka hv. þm. Eiðs Guðnasonar og gróft orðbragð ef hann telur sér misboðið. Um það er hægt að sjá mörg dæmi í þingtíðindum eða umræðum á Alþingi og það þekkja margir, hann er frægur fyrir það.
    En ég vil aðeins endurtaka það sem ég sagði í minni ræðu í dag. Á fundi í fjvn. 21. febr. sl. með vegamálastjóra eða hans mönnum þar sem þeir voru að skýra vegáætlun 1991 -- 1994 fyrir nefndinni óskaði ég sérstaklega eftir upplýsingum frá Vegagerð ríkisins um gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, þar með talið upplýsingum um skuld ríkisins við Reykjavíkurborg vegna þessara mála. Jafnframt bað ég um upplýsingar um nauðsynlegar breytingar á lögum um þjóðvegi í þéttbýli þar sem höfuðborgarsvæðið er nú komið undir sérstakan lið í vegáætlun og er þess vegna spurning hvort ekki eigi að fella þetta ákvæði niður í þeim lögum sem nú gilda. Um þetta, þau svör sem við fáum við þessu, verður fjallað á fundi í fjvn. núna 4. mars nk. og þá verða gefnar upplýsingar um hvað um er að ræða á þessu sviði.
    Frá þessu skýrði ég á fundi með samþingsmönnum mínum í morgun þegar við vorum að ræða um vegamálin, þegar hv. 3. þm. Vesturl. sagði frá hugmynd sinni um þáltill. um endurskoðun á einmitt þessu atriði sem við vorum að ræða í fjvn. Ég er sammála því að slík þáltill. verði flutt. En það væri kannski út frá þessum staðreyndum málsins nær fyrir mig að spyrja hv. þm. hvort hann hafi frétt af þessum umræðum í fjvn. 21. þessa mánaðar. Það væri fróðlegt að heyra það vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að tengja þetta saman.
    En ég vil segja þessum hv. þm., sem er nú orðinn þingvanur eins og við fleiri, að grófyrði sem honum hættir til að nota við bæði samþingsmenn og aðra sem eru honum ekki til geðs hverju sinni, eru honum til vanvirðu. Og ég vísa grófyrðum hv. þm. hér úr ræðustól á Alþingi í minn garð algerlega á bug. Það er ósæmandi fyrir starfandi þingmenn að haga sér svona. Það vil ég láta verða mín síðustu orð hér.