Vegáætlun 1991-1994
Fimmtudaginn 28. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka þeim sem hér hafa tekið þátt í henni sem vert er og skylt. Ég hygg að ég geti farið fljótt yfir sögu því að í ræðum manna kom fyrst og fremst fram almenn afstaða þeirra til þessara mála og ekki var mikið um beinar spurningar. Auk þess vísa ég til þess að hv. fjvn. sem fær tillögurnar til umfjöllunar mun að sjálfsögðu afla þeirra upplýsinga sem óskað verður eftir og ég mun aðstoða við það eftir föngum. Ég kemst þó ekki hjá að nefna hér örfá atriði sem til mín var beint og reyni að gera það í sem allra skemmstu máli.
    Í fyrsta lagi nefndi hv. þm. Pálmi Jónsson að tillögurnar kæmu óþolandi seint fram, eins og mig minnir að hann hafi orðað það. Það er út af fyrir sig rétt, þó eftir því hvernig á það er litið. Tillögur til vegáætlunar hafa oft komið fram um þetta leyti vetrar og jafnvel seinna, en hitt er auðvitað augljóst mál að Alþingi lýkur óvenju snemma á þessu vori sökum alþingiskosninga og tíminn er þess vegna naumur til að vinna að tillögunum. Það viðurkenni ég fúslega, þykir miður að svo tókst til en það á sér ýmsar skýringar og þar á meðal þær að hér var mikil vinna á ferðinni þar sem voru bæði tillaga til vegáætlunar og langtímaáætlunar. Og eins og menn sjá og ég hygg viðurkenni af þeim þingskjölum og gögnum sem þar birtast hafa þarna verið dregnar saman miklar upplýsingar og mikil vinna liggur að baki þessarar tillögugerðar.
    Ég hygg að við þurfum engu að bæta við umræður sem urðu hér um bókun fulltrúa Sjálfstfl. Þær umræður fóru fram í morgun og ég hef þegar lýst því yfir fyrir mitt leyti að ef þeir óska þess að sú bókun verði birt með þingskjalinu, þá er sjálfsagt að verða við því að prenta það upp.
    Um það hversu til tekst með afgreiðslu áætlananna og efasemdir um að það vinnist tími til að afgreiða langtímaáætlun, þá vísa ég til þess sem ég hef áður sagt. Það er enginn efi um það í mínum huga að það væri ákaflega æskilegt ef þess er kostur, en að sjálfsögðu verður það að ráðast í meðförum nefndar og hv. Alþingis hvort það verður talið gerlegt.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson ræddi síðan nokkuð þær áherslubreytingar sem birtast í þessum tveimur áætlunum og reyndar komu að mörgu leyti fram þegar við afgreiðslu vegáætlunar vorið 1989. Ég rökstuddi nokkuð rækilega í mínu máli, framsöguræðu í morgun, helstu ástæður þess að breyttar aðstæður og breyttar áherslur koma nú fram. Ég tel að að ýmsu leyti verði þær ekki umflúnar. Ósköp einfaldlega vegna þess að aðstæður nú kalla á það í verulegum mæli að ráðist verði í auknar framkvæmdir eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Því miður er það staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að aukning umferðar hér er svo mikil og ástand flutningaæðanna umhverfis höfuðborgarsvæðið er þannig að það verður ekki umflúið að ráðast þar í kostnaðarsamar framkvæmdir á næstu árum.

    Að mörgu leyti má segja sama um ýmis stór verkefni, stærstu brýr. Við megum reyndar þakka fyrir ef sumar þeirra hanga uppi eins lengi og þessar áætlanir gera ráð fyrir að þær þurfi að endast. Ég nefni Kúðafljót sem dæmi. Það er því alveg ljóst að hér eru í mörgum tilvikum á ferðinni óumflýjanlegar áherslubreytingar. En auðvitað eru þarna líka innan um sjálfstæð stefnumarkandi atriði og pólitískar ákvarðanir í raun og veru eins og áhersla í jarðgangagerð. Þar má segja að haldið sé í meira mæli inn á þá braut að leysa samgönguvandamál einstakra landshluta og svæða, ryðja úr vegi þröskuldum sem þar hafa verið fyrir eðlilegum samskiptum byggðarlaga. Þar eru að sjálfsögðu samgöngupólitísk ákvörðunaratriði á ferðinni.
    Varðandi það sem hv. þm. Pálmi Jónsson og síðar hv. þm. Halldór Blöndal ræddu um fjármögnun til vegamála og þann slaka sem verið hefur í tekjustofnum vil ég segja að það var skýrt tekið fram af minni hálfu í haust og kom fram við afgreiðslu fjárlaga strax á sl. hausti að stefna yrði að því að ná aftur upp þeim slaka sem myndaðist í hinum mörkuðu tekjustofnum, einkum á árinu 1990 og voru m.a. til komnir vegna þess að vegatekjustofnarnir lögðu af mörkum verulegt framlag til hjöðnunar verðlags á því ári. Það var ákveðið, sem liður í sérstöku verðlagsaðhaldi og aðgerðum til að ná niður verðlagi á árinu 1990, að fresta og draga úr áður ákveðnum hækkunum á hinum mörkuðu tekjustofnum. Hefur það leitt til þess að nokkur slaki umfram það sem ella væri var kominn í þessa tekjustofna sl. haust. Það lá skýrt fyrir og er gengið út frá því í forsendum fjárlaga að þessum slaka verði smátt og smátt náð upp. En með tilliti til verðlagsþróunar og æskilegra markmiða í þeim efnum var ákveðið að hafa þann háttinn á að dreifa þeim hækkunum nokkuð jafnt yfir árið, láta þær ekki koma allar til framkvæmda á fyrri hluta eða í byrjun árs. Þetta veldur að sjálfsögðu því að Vegasjóður fær eitthvað minni tekjur á árinu en ella væri, en við lok ársins og í upphafi næsta fjárlagaárs ættu þessir tekjustofnar að standa nokkurn veginn í fullri hæð.
    Hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir taldi að í þessari vegáætlun og langtímaáætlun væru í raun og veru tæplega reist nógu rismikil markmið í þessum efnum. Undir það gæti ég í sjálfu sér tekið að æskilegt væri að hafa þar enn háleitari markmið fyrir stafni, en á hitt vil ég leggja áherslu, og það er í raun og veru útgangspunktur þessara tillagna að mínu mati, að það er leitast við eins og kostur er að hafa þær raunhæfar, hafa þetta ekki óskalista, hafa þetta ekki loftkastala eins og stundum hefur viljað brenna við að menn hafa, þrátt fyrir þrengingar og takmarkaða fjármuni á yfirstandandi ári, gert sér strax á næsta ári eða árum háleit markmið um stóraukin framlög til þessara mála. Ég vil leggja áherslu á það og vekja athygli manna á því að í raun og veru er ekki gert ráð fyrir nema tiltölulega litlum hækkunum umfram þær fjárveitingar sem verða til vegamála á þessu ári í áætlununum á næsta ári og út þetta 12 ára tímabil. Þar með tel ég að meiri ástæða sé til að ætla að það sé raunhæf áætlanagerð á ferðinni sem geti staðist. Af tvennu er það mikið mikilvægara, finnst mér, að sú áætlanagerð sem verið er að ganga frá á hinu háa Alþingi sé raunhæf, hún fái staðist heldur en hitt að ná að sýna þar fallega óskalista. Ég hef þess vegna eindregið verið talsmaður þess að menn reyndu að halda sig á jörðinni í þessum efnum þrátt fyrir að svo sannarlega gæti ég tekið undir það að þarna mætti gjarnan gera meira.
    Um það sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði og hné að nokkru leyti í sama farveg varðandi áherslur við stórverkefni, brýr og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, vísa ég til þess rökstuðnings sem áður hefur komið fram og þeirrar sannfæringar minnar og ég held rökstuddu niðurstöðu sem í þessum tillögum birtist, að í verulegum veigamestu atriðum sé hér um að ræða aðlögun að núverandi aðstæðum og breyttum aðstæðum sem við verðum að horfast í augu við. Hv. þm. spurði hvort gert væri ráð fyrir því fjármagni sem kerfisbreytingar í tengslum við innheimtu á þungaskatti og bensíngjöldum gera ráð fyrir. Svarið er já. Þær breyttu forsendur mynda grundvöll vegáætlunar og langtímaáætlunar. Þar er gert ráð fyrir fullnýttum mörkuðum tekjustofnum á grundvelli þeirra innheimtuaðgerða og innheimtuforma sem áformuð eru í framtíðinni, en það er ekki gert ráð fyrir krónu meira, ekki einni einustu krónu í beinum framlögum úr ríkissjóði á þessum áætlunartíma fyrir utan það sem er á þessu yfirstandandi ári.
    Hv. þm. Alexander Stefánsson og síðan fleiri þingmenn spurðust fyrir um og ræddu eina tiltekna framkvæmd á kjördæmismörkum Vesturlands og Vestfjarða þar sem er brú og uppfylling yfir eða um þveran Gilsfjörð, hvort sem við köllum það nú þessu nýyrði sem einhvers staðar varð til í kerfinu fyrir tveimur árum síðan, fjarðaþverun, en alla vega er sú vegalagning um þveran fjörð með tilheyrandi brú. Ég get tekið undir það eins og svo margt, margt annað sem hér hefur verið nefnt að vissulega væri það æskilegt að hægt væri að ráðast fyrr og hraðar í þá framkvæmd. Hún er geysimikilvæg og þýðingarmikil fyrir þá byggð en hún er stór og hún er dýr og það er óhjákvæmilegt að einhvers staðar inni í framkvæmdaröð stórverkefnanna verður hún að falla. Það er ákvörðunaratriði hvernig því verður nákvæmlega hagað. Hér birtist í tillögunni ákveðin tillaga eða hugmynd þar um.
    Ég bendi á að í fylgiskjölum með langtímaáætlun eru upplýsingar um þessi stórverkefni sem eru mörg stór og dýr og mikilvæg og ráðast verður í. Þar kemur fram að helsta stórverkefni af þessu tagi til hliðar við Gilsfjörðinn, og á sama tíma og hann verður unninn, er einmitt brú yfir Kúðafljót sem er framkvæmd hátt á annað hundrað millj. kr., ríkishlutinn í því eða stórverkefnaflokkshlutinn, á sama tíma og Gilsfjörður nálgast líklega hálfan milljarð. Staðreyndin er sú, eins og ég sagði hér áðan, að við megum kallast heppin, hygg ég, ef brúin yfir Kúðafljót hangir uppi og þjónar sínu hlutverki í þann tíma sem henni er ætlað samkvæmt þessum áætlunum þannig að ekki væri það björgulegt að þurfa að taka áhættuna af því að

fresta henni. Menn hafa fréttir af Markarfljótsbrú, hvernig hún hefur verið að láta undan síga síðustu missirin og ekki verður undan því vikist að ráðast í þá framkvæmd og svo má áfram telja.
    Ég held að það sé þó mikilvægast að hér er því slegið föstu og sett inn á fyrsta tímabil þessarar vegáætlunar framkvæmdafjárveiting, þó lítil sé, til að hefja framkvæmdir við Gilsfjörð. Ég er svo sannarlega tilbúinn til að taka þátt í að skoða hvort einhver möguleiki sé á að þoka þeirri brýnu framkvæmd enn framar. Ég bendi á reglulega endurskoðun vegáætlunar að tveimur árum liðnum í því sambandi. Ef menn sjá þess þá kost og möguleika að færa hana framar eða að ráðast framar í hana með einhverjum hætti þá tel ég sjálfsagt mál að athuga það. En þetta byggir á því að menn nái saman um uppröðun verkefna sem gerir það mögulegt.
    Hv. þm. Halldór Blöndal spurði síðan um hækkanir á tekjustofnum Vegagerðarinnar og féll sú spurning í svipaða átt og hv. þm. Pálmi Jónsson hafði áður fram borið. Því er til að svara að gert er ráð fyrir því að bensíngjald hækki um 15% á þessu ári eða því sem næst. Að vísu er það svo að síðan þetta var ákveðið hafa aðeins breyst forsendur og ekki þarf alveg jafnmikla hækkun á bensíngjaldi til að ná sömu tekjum af bensínsölu þar sem ljóst er að heildarsalan hefur aukist og er lítillega meiri en gert var ráð fyrir þegar forsendur fjárlaga voru lagðar fram á sl. hausti. Þannig er nú metið að um 13% hækkun á þessu ári skili Vegasjóði sömu tekjum og þess vegna var ákveðið að hækka bensíngjald ekki nema um 3% í febrúar en síðan muni það hækka um 5% í tvígang, í júní og september nk.
    Þungaskattshækkanir hafa verið áformaðar þannig að 10% hækkun var áformuð núna á fyrstu mánuðum ársins og 15% hækkun við seinni álagningu eða seinni gjalddaga eða seinni útreikning þungaskatts í júní eða júlímánuði á næsta sumri, væntanlega í júní. Kemur þetta til af því að slakinn var orðinn nokkru meiri í þungaskatti en í bensíngjaldi. Þetta mun þá skila Vegasjóði þeim tekjum sem fjárlög gera ráð fyrir og forsendur fjárlaga og þær hafa verið mönnum kunnar, jafnt aðilum vinnumarkaðarins sem öðrum, um mánaðar skeið.
    Síðan var það reyndar þannig að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal vék beint frá því að ræða þessa skatta og þessar tekjuforsendur vegáætlunar þar sem ég skildi hann nú svo að hann teldi þarna farið jafnvel fullgeyst í það að hækka þessa tekjustofna vegamálanna yfir í að telja upp brýnar framkvæmdir sem hann harmaði að ekki kæmust inn í þessar áætlanir ( HBl: Í fimm ára áætlun.) og nefndi þar vegalagningu yfir Öxarfjarðarheiði og tengingu Norðurlands og Austurlands og fleira af því tagi. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm., þetta eru hvort tveggja mikilvægar framkvæmdir og ótal margar fleiri í öllum landshlutum sem við hefðum örugglega getað sameinast um að væri æskilegt að gengju hraðar fyrir sig. En til þess þarf peninga og til að hafa peninga þarf að afla þeirra. Menn verða þá auðvitað að

gera það upp við sig í eitt skipti fyrir öll: Eru menn tilbúnir til að afla þessara tekna? Hér er verið að reyna að byggja upp og styrkja tekjustofna Vegasjóðs með því að ná inn í tilteknum áföngum þessum slaka sem þarna er orðinn, með því að framkvæma þannig kerfisbreytingu að afsláttur á blýlausu bensíni valdi Vegasjóði ekki tekjutapi, með því að fara í ákveðnari innheimtuaðgerðir og kerfisbreytingar gagnvart innheimtu þungaskatts þannig að hann skili sér sem best o.s.frv. Allt er það gert til þess að reyna að styrkja þessar tekjuforsendur vegáætlunar og langtímaáætlunar. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Það er ekki nema um tvennt að velja í þessum efnum, sætta sig við það að bíða lengur eftir verkefnunum eða að auka tekjuöflunina. Ég hef enga trú á því að menn sæki í ríkissjóð til viðbótar hinum mörkuðu tekjum miklar fjárhæðir til vegamála á næstu árum. Ég hef enga trú á því að forsendur í okkar ríkisfjármálum og ríkisbúskap verði þannig að það verði létt verk. Reynslan sýnir okkur hvernig það hefur gengið. Það er því miður yfirleitt sá hlutinn sem alltaf er skorinn niður þrátt fyrir fögur fyrirheit í fyrri vegáætlunum. Eftir stóðu menn með hinar mörkuðu tekjur einar til ráðstöfunar. Það er staðreynd, það er niðurstaða málsins eftir átta ára reynslutíma þessara áætlana. Ég held að við eigum að kyngja þeirri staðreynd.
    Varðandi skatta af umferð vil ég undirstrika það, og taka fram vegna ummæla sem hér féllu frá fleiri en einum hv. þm., að sem betur fer er það nú ekki svo að við Íslendingar séum þar mjög hátt á lista settir hvað snertir það að skattleggja umferð. Þvert á móti höfum við t.d. ekki farið út á þá braut sem í verulegum mæli hefur verið gert í nágrannalöndunum, að leggja til viðbótar ýmsum fyrri sköttum á umferðartækin og á orkugjafana, umhverfisskatta. En það er eins og kunnugt er víða í nágrannalöndunum að lögð eru orðið til viðbótar fyrri sköttum umtalsverð gjöld á eldsneytið og á umferðina sem rökstudd eru sérstaklega með þörfinni fyrir það af umhverfisástæðum að draga úr einkabílanotkun, að draga úr orkunotkun á þessu sviði og mengun og öðru tilheyrandi. Við eigum þarna í raun og veru inni, ef maður liti svo á, miðað við ýmsar aðrar þjóðir. Ég hef lagt á það áherslu fyrir mitt leyti að þetta pláss þurfi Vegagerðin að nota og þess vegna sé ekki rétt að fara út á þá braut miðað við ástand okkar vegakerfis að fara að leggja sérstök gjöld á sem rynnu í ríkissjóð þó þau væru svona rökstudd.
    Ég hygg að ég hafi svarað hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni varðandi Gilsfjörð um leið og öðrum. Hann ræddi það sem hv. þm. Kristinn Pétursson gerði einnig, hvort ekki væri tímabært að gera Vegagerðina sjálfstæðari og byggja upp rekstur hennar og grundvalla kannski meira í líkingu við það sem gerist hjá Pósti og síma, að sú stofnun yrði sjálfstæð um sína tekjuöflun og sínar framkvæmdir. Ég tel þetta fyllilega koma til greina. Við höfum nokkuð rætt þann möguleika að stefnt yrði á þetta með allar helstu framkvæmdir samgöngumála. Hugmyndir um að afla

hafnarframkvæmdunum sjálfstæðs tekjustofns eru náskyldar þessu, þannig hugsaðar að allir helstu flokkar samgönguframkvæmdanna, vegamálin, flugmálin og hafnargerðin, ásamt auðvitað fjárfestingum í fjarskiptum sem Póstur og sími sér um, eignuðust sína sjálfstæðu og sterku tekjustofna og gætu í raun í fyllingu tímans myndað framkvæmdasjóði samgöngumála sem væru tiltölulega sjálfstæðir, bornir uppi af sértekjum þessara stofnana. Með ýmsum hætti mætti sjá það fyrir sér að þetta gæti orðið til framdráttar þessum málaflokkum þegar frá liði. Ég tel það fyllilega athugunarvert að skoða slíkar kerfisbreytingar og setja þá upp í raun og veru sjálfstæð fjárlög eða sjálfstæðar fjárfestingaáætlanir þessara framkvæmdasjóða samgöngumálanna sem kæmu með svipuðum hætti inn í fjárlög ríkisins og B - hluta stofnanirnar gera í dag.
    Síðan var nokkuð rætt um Óshlíð og hv. 1. þm. Vestf., sem síðan kvaddi okkur, gerði þetta að umtalsefni og harmaði það að Óshlíð hefði verið tekin út úr, eins og hann orðaði það, svonefndum stórverkefnaflokki. Ég hygg að ekki sé rétt að stilla málum upp með þeim hætti. Óshlíð var unnin fyrir tíma þeirrar flokkunar og það er ekki fyrr en með vegáætlun vorið 1989 sem sá verkefnaflokkur verður til og skilgreiningar um hann verða til. Ég get ekki lofað neinu um það að unnt verði að fella áframhaldandi framkvæmdir og uppbyggingu og lagfæringar á Óshlíð inn í stórverkefnaflokk miðað við ríkjandi skilgreiningu fyrir þau verkefni. Ég held
að hv. þm. Vestfjarða verði að hafa það í huga að ekkert eitt kjördæmi nýtur jafngreinilega góðs af þessari tilhögun eins og einmitt Vestfjarðakjördæmi sem er með miklar brúa - og jarðgangaframkvæmdir sem ósköp einfaldlega hefðu verið óviðráðanlegar fyrir það kjördæmi ef ekki hefði komið til skipting af þessu tagi. Um það hvort menn sjá sér fært að bæta síðan lagfæringum á Óshlíðinni þar við get ég engu lofað og tel satt best að segja að það þurfi þá mjög vandlega að hyggja að því hvort ekki væri komið á það fordæmi sem mundi opna þann verkefnaflokk fyrir ýmsum öðrum framkvæmdum annars staðar þannig að hann smátt og smátt missti tilgang sinn sem slíkur ef hann yrði opinn fyrir ýmsar almennar framkvæmdir.
    Hv. þm. Vesturl. Eiður Guðnason og Alexander Stefánsson ræddu nokkuð eins og við heyrðum hugmyndir um að endurskoða þyrfti V. kafla vegalaga um gerð þjóðvega í þéttbýli. Um orðaskipti þeirra ætla ég engin orð að hafa, en um efnið sem þar var á bak við, þ.e. þá spurningu hvort ekki væri orðið tímabært að endurskoða þessa skiptingu, vil ég segja það að ég tel að svo sé. Ég held að það sé alveg rétt að m.a. gerbreyttar samgönguforsendur hér á höfuðborgarsvæðinu geri það að verkum að nauðsynlegt sé að fara aftur yfir þessar forsendur og ræða þetta út frá mjög breyttum aðstæðum í umferð og vegakerfi á þessu svæði. Ég tel að það væri eðlilegt að taka þetta inn í umræður við sveitarfélög á þessu svæði, og reyndar þéttbýlli sveitarfélög víðar í landinu, þegar rætt er um samskipti þessara aðila. En að sjálfsögðu er það ekki eitthvað sem hægt er að gefa sér niðurstöður úr fyrir fram en tvímælalaust tímabært orðið að líta yfir það á nýjan leik hvort þetta sé sú tilhögun sem menn vilja þarna viðhafa til framtíðar eða hvort hún sé að einhverju leyti orðin úrelt eða gölluð í ljósi breyttra aðstæðna.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson vék svo að, eins og fleiri reyndar, tengingu Norðurlands og Austurlands og taldi að tæplega yrði séð að sú framkvæmd rúmaðist í vegamálunum á næstu árum, eða innan þessa langáætlunartímabils jafnvel, öðruvísi en unnt yrði að koma þeirri framkvæmd fyrir með einhverjum sérstökum hætti, ekki síst vegna aðstæðna í Austurlandskjördæmi. Þetta kann vel að vera rétt hjá hv. þm. en það breytir ekki hinu að það er að mínu mati mjög vandséð að unnt sé að taka slíka almenna framkvæmd undir stórverkefnaflokkinn.
    Ég bendi hv. þm. á að það er þó þannig að á öðru og sérstaklega þriðja tímabili langtímaáætlunarinnar er væntanlega svigrúm, og reyndar áformað samkvæmt þeim tiltölulega lauslegu drögum sem við þm. Norðurl. e. höfum skoðað, að hefja framkvæmdir við þessa uppbyggingu að vestan, okkar megin frá, áleiðis austur að kjördæmamörkum. Hvernig til tekst austan megin frá verður svo að skýrast m.a. í ljósi þeirrar áherslu og þeirrar forgangsröðunar sem þingmenn Austurlands koma sér saman um.
    Ég vil þó eingöngu nefna þá hugmynd, sem hefur auðvitað áður komið fram, að svo kynni að fara að innan nokkurra ára væri ekki óskynsamlegt að setjast yfir það verkefni sérstaklega að skoða þá kafla sem eftir væru á hringveginum öllum, og verða þá væntanlega ekki síst á norðaustanverðu landinu, og jafnvel gera um það einhvers konar sérstaka áætlun að ljúka þeim pörtum sem eftir væru á hringveginum. Þessi hugmynd hefur áður komið fram og hún er góðra gjalda verð og ég nefni hana hér af því að það er ekki ólíklegt að hún verði oftar á dagskrá þegar að því kemur, sem verður innan fárra ára, að á hringveginum öllum saman verða einungis fáein höft eftir án bundins slitlags.
    Herra forseti. Ég held ég hafi þá að mestu leyti lokið við að svara þessum beinu spurningum. Ég er hér með í höndunum ákaflega merkilega töflu þar sem fjárveitingar til framkvæmda í vegamálum frá 1980 til og með þessu fyrsta áætlunartímabili vegáætlunarinnar eru settar upp. Ég held að það væri áhugavert fyrir hv. þm. að fá af því plaggi ljósrit. Ég held að við getum glaðst fyrir því að þrátt fyrir allt stefnir í það á árinu 1991 að framkvæmdagildi fjárveitinga til vegamála verði allmiklu hærra en það hefur verið undanfarin ár og reyndar hið hæsta sem ég finn á þessum töflum alveg aftur til ársins 1980. Til nýbygginga vega og brúa eiga að verða samkvæmt þessari vegáætlun á árinu 1991 2.750 millj. kr. en voru t.d. árið 1987 1.872. Og þó svo merkilega vilji nú til að það sé einmitt þetta sama ár sem oft er vitnað til og lögð voru lengst bundin slitlög í samanlagðri vegasögunni á landinu, þá er það engu að síður svo að til nýbygginga vega og brúa á að verja á þessu ári 878 millj. kr. meira fé á sama verðlagi en var á þessu ári. Þannig

að auðvitað verða menn að gæta sín þegar tölur eru notaðar, þær segja ekki allt nema þeim fylgi þá þær skýringar sem nauðsynlegar eru til þess að skilja þær.
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta. Ég þakka hv. þm. þær umræður sem hér hafa orðið, þessar málefnalegu og ágætu umræður, og ég vænti þess að hv. fjvn. og þingheimur allur greiði götu þessara áætlana, að þær geti náð hér fram að ganga og hlotið staðfestingu sem væri ákaflega æskilegt fyrir alla áætlanagerð og vinnu í þessum málaflokki.
    Ég vil svo að endingu þakka á nýjan leik þeim starfshópi sem að undirbúningi langtímaáætlunarinnar vann og taka undir þakkir sem hér hafa verið færðar fram af mörgum hv. þm. til starfsmanna Vegagerðar ríkisins sem mér þykir vænt um og ég tek heils hugar undir. Ég held að þar eigum við á að skipa ákaflega hæfum starfsmönnum sem vinni verk sín vel og leggi þá hluti vel fyrir eins og sjá má af þessum plöggum. Ég vil þess vegna fyrir þeirra hönd, af því að þeir hafa ekki málfrelsi hér á Alþingi þó að þeir komi hingað oft eins og þingmenn þekkja, þakka þau hlýju orð sem í þeirra garð hafa fallið.