Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Í fjarveru forsrh. mæli ég hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 64 1. júlí 1985, um Byggðastofnun. Það væri mikil ástæða til að hafa langt mál um þetta frv. en vegna þess að að baki liggur mjög gott nefndarstarf sem hefur tekist ágæt samstaða um þá hlýt ég fyrst og fremst að vitna til skýrslu þeirrar sem kom frá nefndinni og greinargerðar með þessu frv. Ég mun hins vegar hafa nokkur orð um þetta mál þótt það sé mun takmarkaðra en í reynd væri ástæða til.
    Eins og öllum hv. þm. er ljóst hafa orðið miklar breytingar á undanförnum áratugum á búsetu í landinu. Þessar breytingar felast í meginatriðum í því að það hafa orðið miklir flutningur úr dreifbýli í þéttbýli, en jafnframt hefur fólki fækkað á landsbyggðinni víða og dregið úr fjölgun en mikil fjölgun hins vegar orðið á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og í nágrannabyggðarlögunum.
    Á árunum 1981 -- 1990 hafa brottflutningar frá landsbyggðinni aukist ár frá ári og flutningar á þessum árum eru höfuðborgarsvæðinu í hag um 10.700 manns. Þessir flutningar voru mestir 1988 eða 1560 manns, en það er hæsta tala á einu ári frá því skráning innanlandsflutninga hófst. Árið 1990 var mismunur brottfluttra og aðfluttra á landsbyggðinni 1070. Það er ástæða til að vekja athygli á því að á árunum 1984 -- 1986 og árið 1989 fækkaði íbúum landsbyggðarinnar en slíkt hefur ekki gerst síðan á árunum 1945 -- 1946.
    Þessi þróun talar sínu máli og það er alveg ljóst að hún hefur mikil áhrif á okkar samfélag og þótt mörgum finnist að hér sé í reynd um þróun að ræða sem ekki verði stöðvuð og feli í sér margvíslega hagkvæmni fyrir rekstur þjóðarbúsins, þá er það jafnframt staðreynd sem ekki verður á móti mælt, mjög alvarleg staðreynd, að kostnaður og óhagræði vegna þessarar búsetuþróunar kemur fram á mörgum sviðum.
    Í fyrsta lagi er það þannig að á landsbyggðinni kemur fram vannýting mannvirkja og í mörgum tilvikum auðlinda vegna fækkunar fólks í fjölmörgum byggðarlögum. Það er jafnframt ljóst að langvarandi stöðnun leiðir til þess að það kemur fram svartsýni hjá því fólki sem býr í viðkomandi byggðarlögum um framtíðarmöguleika byggðarlaganna, fólksins sem þar býr og þeirra kynslóða sem þar eru að alast upp. Á höfuðborgarsvæðinu þarf aftur að byggja upp ný þjónustumannvirki sem í mörgum tilvikum eru til staðar annars staðar í landinu og eru þar vannýtt. Það kostar mikið að leysa umferðarvandamál sem á höfuðborgarsvæðinu eru og það blasir við að á því svæði þarf að fara í milljarða framkvæmdir til að leysa verstu umferðarhnútana. Það verður æ dýrara fyrir það fólk sem þar býr að sækja vinnu og ýmsa sérhæfða þjónustu. Þá er mikil mengun sem myndast af slíku þéttbýli og það er afar kostnaðarsamt að leysa frárennslismál, sorphreinsunarmál og þessi kostnaður vex eftir því sem byggðin stækkar og það er sú reynsla sem

jafnframt hefur orðið meðal flestra þjóða. Þessi þróun er ekki einsdæmi hér á Íslandi, hún er í reynd alheimsþróun og alls staðar blasa við vandamál vegna slíks misvægis.
    Það hefur verið lögð á það vaxandi áhersla í okkar atvinnulífi að undirstöðuatvinnuvegirnir séu reknir á sem hagkvæmastan hátt þannig að þessar atvinnugreinar geti skilað þjóðarbúinu sem mestum tekjum og byggt upp sem best lífskjör. Það er því ráðandi í þessum greinum að verið er að leita eftir hagræðingu, betri rekstri þannig að t.d. sjávarútvegurinn geti skilað landsmönnum betri lífskjörum. Þessi hagræðing kemur oftast fram í því að fólki er fækkað, meira reynt að leysa með vélum og meiri afkasta krafist af hverjum einstaklingi. Það sama á við á margan hátt í landbúnaðinum að það eru gerðar þær kröfur til hans að vörurnar séu framleiddar með minni kostnaði þannig að þar hefur fólki fækkað hlutfallslega meira en nokkurs staðar annars staðar.
    Skipulagsbreytingar í undirstöðuatvinnugreinunum hafa því leitt til þess að fólki sem þar starfar fer fremur fækkandi en fjölgandi þótt ekki sé að öllu leyti hægt að alhæfa í því. Það er því nauðsynlegt til að styrkja atvinnulíf víða um land að reyna að fara inn á nýjar brautir, inn á ný svið og leita allra leiða til nýsköpunar bæði á vettvangi þessara atvinnugreina og jafnframt á vettvangi nýrra greina. Það er engu að síður staðreynd að þjónustugreinarnar hafa tekið við fleira og fleira fólki og þar er stöðug fjölgun. Þessi fjölgun í þjónustugreinunum hefur fyrst og fremst verið hér á höfuðborgarsvæðinu og er því ekki hægt að mæla á móti því að aukning þjónustugreinanna hefur í reynd á margan hátt leitt til meiri byggðarröskunar en margir gera sér grein fyrir.
    Það hlýtur því að vera markmið þeirra aðgerða sem eru brýnastar í byggðamálum að gera allt sem hægt er til að breyta samsetningu atvinnulífsins á landsbyggðinni þannig að störfum í þeim greinum þar sem vöxturinn er hvað mestur fjölgi og sú mikla aukning sem hefur orðið í þjónustugreinunum hér á höfuðborgarsvæðinu stöðvist.
    Það geta flestir verið sammála um það að byggðastefna sem byggir fyrst og fremst á því að viðhalda stöðu mikilvægustu undirstöðuatvinnugreinanna, landbúnaðarins og sjávarútvegsins, getur ekki orðið árangursrík. Og það hlýtur að vera eðlileg krafa landsbyggðarinnar, m.a. vegna þess að þjóðfélagið gerir þær kröfur til þessara undirstöðuatvinnuvega að þær skili sem mestum arði til þjóðarbúsins, en þessi arður stendur undir þjónustugreinunum, að það fólk, sem við þessar greinar starfar og heldur þeim í reynd uppi, fái jafnframt notið þess í sínu umhverfi að þjónustugreinarnar vaxi þar.
    Auðvitað er það svo að atvinnuþróun á hverjum stað byggist og hlýtur alltaf að byggjast fyrst og fremst á vilja, þekkingu, dugnaði og framtaki þeirra sem búa á viðkomandi stöðum og vilja hasla sér þar völl. En það er þannig að ef stofna á til atvinnurekstrar þá þarf að vera til víðtæk þekking og fjármagn. Það er mörgum ofviða að takast á við það og

þeir þurfa aðstoð samfélagsins til þess að geta stigið ýmis framfaraspor.
    Ríkisvaldið hefur að sjálfsögðu bein áhrif á atvinnu - og byggðaþróuun með staðarvali stórfyrirtækja sem koma inn á borð ríkisvaldsins. Það getur jafnframt haft mikil áhrif með tilhögun opinberrar þjónustu og enn fremur með þeim aðgerðum sem gripið er til til þess að stýra þróun landbúnaðar og sjávarútvegs. Í þessu sambandi skiptir að sjálfsögðu langmestu máli að efnahagsstjórnin tryggi jafnvægi í efnahagslífinu og að gengisskráningin miðist við það að atvinnuvegirnir búi við viðunandi rekstrarafkomu. Við höfum sára reynslu af því að ef þetta sjónarmið er ekki ríkjandi, þá fer illa fyrir viðkomandi atvinnugreinum og það getur tekið mörg ár og jafnvel áratugi að vinna þær upp á nýjan leik þannig að fyrirtækin sem eru burðarás í hverju byggðarlagi geti staðið undir lífsafkomu fólksins og ekki síst gefið fólkinu þá tryggingu og það öryggi sem er nauðsynlegt til þess að hafa trú á búsetu til lengri tíma.
    Það er ekki síst mikilvægt í allri þessari þróun að ríkisvaldið jafni kostnað við opinbera þjónustu um allt land á þeim sviðum þar sem það hefur tök á og aðstæður allar fyrir atvinnurekstur og einstaklinga. Þessar aðstæður eru því miður mismunandi bæði fyrir einstaklingana og jafnframt fyrir atvinnufyrirtækin sem ekki síst kemur fram í því að einstaklingar borga mismunandi orkuverð í landinu og fyrirtækin jafnframt sem hlýtur að hafa áhrif á staðsetningu þeirra.
    Með tilliti m.a. til þeirra sjónarmiða sem ég hef nú rakið og margra annarra, þá skipaði forsrh. hinn 4. jan. 1990 tvær nefndir í byggðamálum. Annarri nefndinni, svokallaðri byggðanefnd, var falið að gera tillögur um langtímastefnu í byggðamálum, en í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og samtaka á Alþingi. Formaður þessarar nefndar var Jón Helgason alþm., hæstv. forseti þessarar deildar, en aðrir í nefndinni voru Egill Jónsson alþm., Guðmundur Einarsson, fyrrv. alþm., Gunnar Hilmarsson, formaður Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, Hreggviður Jónsson alþm., Lárus Jónsson, fyrrv. alþm., Skúli Alexandersson alþm., Skúli Björn Árnason fulltrúi og Snjólaug Guðmundsdóttir húsmóðir. Ritari þessarar nefndar og starfsmaður var Kristófer Oliversson frá Byggðastofnun.
    Þessi nefnd, sem ég hef nú greint frá, hefur samið það frv. sem ég mæli hér fyrir.
    Áður en nefndin var skipuð hafði Byggðastofnun fjallað um þetta málefni og lagt fram hugmyndir um mótun nýrrar byggðastefnu og átaks til að rétta hlut landsbyggðarinnar til frambúðar. Haldnir voru fundir með fulltrúum allra stjórnmálaflokka þar sem starfsmenn stofnunarinnar lögðu fram gögn um þróun á landsbyggðinni. Megintilgangur þessara funda var að finna þau grundvallaratriði nýrrar byggðastefnu sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum væru sáttir við og teldu framkvæmanleg. Niðurstöður viðræðna voru sendar forsrh. 16. apríl 1989. Í framhaldi af því skipaði hann framangreinda nefnd.
    Jafnframt skipaði forsrh. í byrjun desember 1989

aðra nefnd sem var falið að fjalla um starfsemi Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum. Í þeirri nefnd sátu Stefán Guðmundsson alþm., formaður, Ragnar Arnalds alþm., Sighvatur Björgvinsson alþm., Trausti Þorláksson skrifstofumaður og Zophonías Zophoníasson framkvæmdastjóri. Starfsmaður þeirrar nefndar var Aðalsteinn Steinþórsson en Kristófer Oliversson frá Byggðastofnun var nefndinni jafnframt til aðstoðar.
    Skýrsla og tillögur þessarar nefndar fylgir með frv. sem fskj. 2.
    Í áliti nefndarinnar koma fram mjög margar athyglisverðar tillögur. Ég ætla ekki að rekja þær hér í máli mínu, enda eru hér í þessari deild þingmenn sem þekkja þær miklu betur en sá sem hér stendur og mun færari að skýra frá þeim. En ég vek sérstaka athygli á aðgerðum í byggðamálum á bls. 10 -- 11 í skýrslunni og á tillögum nefndarinnar um breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, sem koma fram í viðauka 1 í skýrslu nefndarinnar á bls. 33.
    Byggðanefndin sem samið hefur frv. leggur til að Byggðastofnun verði falið að hafa meira frumkvæði en hingað til um stefnumótun á sviði byggðamála. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögum um stofnunina. Miða allar breytingarnar í frv. að þessu markmiði. Þar er ætlast til að Byggðastofnun geri byggðaáætlun til fjögurra ára sem forsrh. leggi síðan fyrir Alþingi til samþykktar. Þannig gefist Alþingi kostur á að fjalla um byggðamál og þau áhrif sem ákvarðanir og aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda hefur á þróun byggðar. Ætti sú umfjöllun að stuðla að málefnalegri umræðu um byggðamál í þjóðfélaginu. Þá er lagt til að stuðningur Byggðastofnunar við atvinnuþróun verði aukinn. Í hverju kjördæmi verði jafnframt starfandi atvinnuráðgjafi og eitt eða fleiri atvinnuþróunarfélög sem Byggðastofnun veiti stuðning við atvinnuráðgjöf og þróunarstarf. Einnig er gert ráð fyrir að stofnunin leggi fram áhættufjármagn til þeirra verkefna sem þykja álitleg hverju sinni.
    Til þess að hugmyndir byggðanefndar beri tilætlaðan árangur er það grundvallaratriði að byggðarlögin verði tengd sem best saman með greiðum samgöngum og opinber þjónusta jöfnuð sem mest má verða, ekki síst með sambærilegu orkuverði um land allt.
    Frumvarpsgreinarnar, efnisgreinarnar, eru fjórar. Í 1. gr. er fjallað um það að fela Byggðastofnun í samráði við ráðherra að móta byggðastefnu og gera tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára. Í slíkri áætlun koma fram helstu þættir sem áhrif hafa á þróun byggðar. Þar kemur fram framtíðarstefna stjórnvalda í byggðamálum og fjallað er um áhrif stefnu í efnahags - og atvinnumálum á þróun byggðar ásamt því hvernig framkvæmdaáætlun fyrir opinberar framkvæmdir tengist byggðaþróun. Ráðherra skal leggja þessa byggðaáætlun fyrir Alþingi til afgreiðslu og Alþingi tekur byggðaáætlun til endurskoðunar ekki sjaldnar en annað hvert ár. Hér er því lagt til að tekin verði upp svipuð vinnubrögð og tíðkast við undirbúning að gerð þjóðhagsáætlunar og meðferð Alþingis t.d. á vegáætlun og margvísleg önnur

þróun hefur verið í gangi á þessu sviði sem að vísu tengist allt byggðamálum með einum eða öðrum hætti. Einnig er gert ráð fyrir að Byggðastofnun geri svæðisbundnar byggðaáætlanir sem unnar verði í nánu samstarfi við heimamenn í hverjum landshluta og verði tekið mið af þeim við undirbúning byggðaáætlunarinnar sem Alþingi fjallar um.
    Í 2. gr. er kveðið á um hlutverk stjórnar Byggðastofnunar við undirbúning byggðaáætlanagerðar. Stjórninni er ætlað að fjalla um stefnumótandi hluta byggðaáætlunarinnar og fylgjast með framkvæmd þeirra þátta hennar sem henni er falið af Alþingi. Stjórn stofnunarinnar er einnig ætlað að fylgjast með þeim svæðisbundnu byggðaáætlunum sem unnar verða af Byggðastofnun.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir stuðningi Byggðastofnunar við stofnun og rekstur atvinnuþróunarfélaga. Um leið og hér er lögfestur stuðningur Byggðastofnunar við þau er lögð áhersla á að efla þátttöku heimamanna í atvinnuþróunarfélögum og gera starf þeirra markvissara. Aðild að þeim geta átt sveitarfélög og allir aðrir aðilar sem vilja taka þátt í þeim og láta sig varða þróun og uppbyggingu atvinnulífs á viðkomandi svæði. Með þátttöku sinni er Byggðastofnun ætlað að vera bakhjarl þessara félaga og veita þeim félagslegan og tæknilegan stuðning eins og henni er kleift og frumkvæði heimamanna gefur tilefni til.
    Samkvæmt 4. gr. er Byggðastofnun heimilað að veita atvinnuþróunarfélögum styrki til einstakra verkefna á sviði þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi. Einnig að stofnunin skuli koma á fót föstu samstarfi við rannsóknastofnanir atvinnuveganna, stofnlánasjóði og háskóla um miðlun tæknilegra framfara til atvinnuþróunar. Byggðastofnun er einnig ætlað að taka við hlutverki iðnrn. vegna iðnráðgjafa og greiða hluta af kostnaði við starfsemi þeirra, a.m.k. eins þeirra í hverju kjördæmi. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuráðgjafarnir leitist við að koma á samstarfi atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi kjördæma og stuðla að samstarfi við aðra aðila sem vinna þar að ráðgjafar - og leiðbeiningarstarfi.
    Herra forseti. Ef þetta frv. nær fram að ganga sem ég vænti að geti orðið er ljóst að fram undan er mikið starf við framkvæmd allra þeirra hugmynda sem fram koma í frv. og hafa komið fram í starfi þeirra ágætu nefnda sem ég hef hér minnst á og eiga þessar nefndir og allir þeir einstaklingar, ekki síst alþingismenn sem þar hafa starfað, miklar þakkir skilið fyrir sín störf. Það er t.d. ætlast til þess að byggðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi þegar á næsta hausti.
    Í tengslum við væntanlegar breytingar á deildaskiptingu Alþingis er jafnframt nauðsynlegt að sérstök nefnd fjalli um byggðamál framvegis. Á þann hátt er unnt að færa inn á Alþingi þá vinnu að stefnumótun í byggðamálum sem farið hefur fram í nefndum utan Alþingis á undanförnum árum. Einnig er nauðsynlegt að athuga gaumgæfilega hugmyndir nefndar um skipulag Byggðastofnunar sem fjalli um aðgerðir í byggðamálum og fram koma í fskj. 2 með frv. þessu og er áður getið um. Það er nauðsynlegt að halda vinnslu

þeirra hugmynda áfram og hrinda þeim í framkvæmd eftir því sem tilefni þykir til.
    Það er að mínu mati mjög þýðingarmikið að um þessar hugmyndir og breytingar sem hér koma fram verði sem best samstaða hér á Alþingi og í þjóðfélaginu í heild. Það ber um of á togstreitu á milli þéttbýlis og dreifbýlis í landinu og það ber líka á því að ekki er nægilega ríkur skilningur, og þá ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, á mikilvægi landsbyggðarinnar fyrir landið allt. Sérhver einstaklingur í landinu vill eiga sér glæsilega höfuðborg og vill geta staðið með sinni höfuðborg. En það gera einstaklingarnir ekki ef þeir sem í höfuðborginni starfa og henni stjórna hafa ekki ríkan skilning á þýðingu landsbyggðarinnar og dreifbýlisins fyrir landið allt. Um þetta þarf að vera sem best samstaða í landinu og ég hef mesta trú á því að með meira starfi Alþingis á sviði byggðamála megi byggja upp betri skilning á mikilvægi þess að landið sé allt byggt og þeir sem starfa fyrst og fremst í undirstöðuatvinnuvegunum njóti ekki síður þeirra gæða og þeirra réttinda sem okkar ágæta land hefur gefið okkur.
    Ég vil ekki hafa fleiri orð, herra forseti, um þetta mál og vitna til þess starfs sem hér hefur verið unnið, en vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og trúlega --- ég bið afsökunar á því að ég þarf aðeins að hugsa um það, en það hlýtur að vera til hv. allshn., það sé eðlilegt að máli þessu sé vísað þangað.