Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans orð hér og ríkisstjórninni fyrir flutning þessa frv. Það var ánægjulegt að starfa í þeirri nefnd sem mér var falið að stýra með fulltrúum allra stjórnmálaflokka hér á Alþingi vegna þess einlæga vilja sem þar kom fram frá öllum þessum fulltrúum að reyna að ná samstöðu um aðgerðir sem gætu stuðlað að betra jafnvægi í byggðamálum. Það kom einnig fram í máli þeirra fjölmörgu fulltrúa sem ég átti viðræður við frá samtökum aðila vinnumarkaðarins, fjölmargra stofnana og landshlutasamtaka sveitarfélaga, að það þyrfti að snúa þessari öfugþróun síðustu ára við og stuðla að því að nýta kosti landsins alls með byggð og blómlegri atvinnustarfsemi. En okkur var ljóst að þetta gerist ekki nema með samstarfi og samvinnu margra aðila. Þetta kostar vinnu og aftur vinnu og að sjálfsögðu einnig fjármagn sem nauðsynlegt er að veita þar til stuðnings.
    Ég vænti þess að Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál þó að það fari síðan að sjálfsögðu mest eftir þeirri vinnu sem á eftir fylgir hver árangurinn verður.