Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Svo hefur nú farið að allmiklar umræður hafa orðið um samskipti þéttbýlis og dreifbýlis eins og menn gjarnan kalla það og átti ég ekki von á því að þessi umræða mundi ganga jafnlangt í þá áttina eins og raun hefur á orðið. Hitt er rétt að hæstv. ráðherra gaf nokkurt tilefni til þess að þessi metingur sem nú hefur komið fram, sérstaklega í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar, kæmi hér fram í dagsljósið. Og eins og hann raunar sagði, sá hv. þm., að ráðherra hefði vikið að samskiptavandamálum höfuðborgarinnar og dreifbýlisins. Ég held að það sé rétt að ráðherra gerði það þó að í hófi væri og alveg viðunandi. Ég held að hann hafi ekki meint það svo bókstaflega að það væru gífurleg samskiptavandamál milli höfuðborgar og dreifbýlis og alla vega sagði hann ekki að þéttbýlið, skulum við segja, sæti yfir hlut dreifbýlisins. Það heyrði ég hann ekki segja, ekkert í þá áttina, en hann gaf hv. þm. þetta tilefni sem ég áðan nefndi.
    Ég get nokkuð trútt um talað þetta efni því að ég var æðilengi þingmaður dreifbýlisins og held að ég hafi ekkert staðið mig lakar heldur en hv. þm. Stefán Guðmundsson t.d. sem situr nú hér á móti mér. Og auðvitað gætti ég hagsmuna míns kjördæmis eins vel og ég gat. Síðan hef ég orðið þingmaður Reykvíkinga, og verð það væntanlega fjögur ár í viðbót, og þess vegna þekki ég þetta mál kannski betur en þeir sem ekki hafa kynnst báðum hliðunum á því.
    Þegar ég var að koma fram málefnum fyrir mitt kjördæmi og önnur kjördæmi úti á landi, þá var best að leita til Reykjavíkurþingmannanna um stuðning. Þeir voru oftast þeir víðsýnustu og hjálplegustu. Eitt lítið dæmi var happdrættislán fyrir norðurveg og austurveg þar sem gert var ráð fyrir að ljúka þeirri stórframkvæmd á fjórum árum með happdrættisfé. Þau lög eru raunar enn þá í gildi. Það var ekki þingmaður Reykvíkinga sem torveldaði það. Reykvíkingar allir, og raunar um það er lauk allir þingmenn, studdu þetta mál. En ég ætla ekkert að fara lengra út í neinn meting í því efni, ég nefni bara þetta eina dæmi. Það er þess vegna tilefnislaust með öllu þegar hv. þm. Eiður Guðnason segir að stjórnendur Reykjavíkur og Reykjavíkurþingmenn sjái hvorki upp fyrir Elliðaár né suður yfir Fossvogslæk. Þetta eru náttúrlega ummæli með þeim hætti að gjörsamlega er ósæmandi að viðhafa þau.
    Í þessu tilefni ætla ég að rifja aðeins upp sögu Byggðastofnunar, Byggðasjóðs og þessara stofnana allra saman. Sannleikurinn er nefnilega sá að upphafið að því, samhjálp milli dreifbýlis og Reykjavíkurborgar skulum við segja, og Reykvíkinga, er að rekja allt aftur til atvinnumálanefndanna svokölluðu sem settar voru á laggirnar í kreppunni sem var 1967 -- 1968. Þá voru stofnaðar atvinnumálanefndir, sem svo voru kallaðar, einmitt til að byggja upp atvinnuvegi dreifbýlisins. Um þetta höfðu Reykvíkingar ekki síður forustu en aðrir. Það var mikið fé sem fór til þessara nefnda. Atvinnuvegirnir, atvinnurekendur og

verkalýðssamtök, stóðu að því að tilnefna í þessar nefndir og forustu um þetta höfðu --- ég held að það sé á engan einstakan hallað þó ég segi, þáv. forsrh. Bjarni Benediktsson og Eðvarð Sigurðsson, forustumaður og foringi verkalýðssamtakanna.
    Ég var einmitt að byrja að brölta í pólitísku framboði norður í landi þegar þetta gerðist og það var nú kannski grínframboð í upphafi þó að ég væri nærri orðinn þingmaður þá, en alla vega kynntist ég þá hve gífurlega þýðingu þetta fé hafði, þessar fjárveitingar þá. Og þá fengu menn svör um það, já eða nei, innan kannski viku eða hálfs mánaðar, hvort það væri unnt að gera þetta eða gera hitt. Þá þurftu menn ekkert að bíða árum saman eftir svari og fá svo alla spekingana sem voru búnir að kokka yfir þessu til þess að meta málin þannig að það er ágætt að láta viðkomandi fyrirtæki fá þetta fé. Það væri öruggt að það væri steindautt hvort sem væri, um að gera að hafa þetta nógu lítið. Ég er ekkert að ásaka einn eða annan og ekkert sérstaklega þá sem stjórna þarna núna. Þetta var viðloðandi og hefur verið lengi að hafa þetta nú nógu lítið og geta haft svolitla stjórn á þessum mönnum, geta sýnt mönnum fram á það --- þó að menn segðu það ekki beint eða hugsuðu þá var voða notalegt að vera skömmtunarstjóri og geta sýnt hverjir hefðu valdið í þjóðfélaginu. En menn nefnilega gefa eiginlega aldrei eftir, þeir sem eru einu sinni komnir í skömmtunaraðstöðu, þeir fara nú ekki með góðu móti úr henni. Þeir reyna að nota sér af því að vera svolítið fínni heldur en við pöpullinn. Ég held að allir kannist við þennan hugsunarhátt.
    En atvinnumálanefndirnar gerðu sem sagt stórkostlegt gagn, sérstaklega í dreifbýlinu, og minnist ég þess að allir þéttbýlisstaðirnir í mínu kjördæmi fengu fé til þess að endurbyggja frystihús, kaupa báta o.s.frv. og það varð gjörbylting á nokkrum mánuðum. Síðan tók við Atvinnujöfnunarsjóður þar sem var líka mikið fé. Þetta eru fyrirrennarar þeirrar stofnunar sem núna er verið að tala um. Síðan var verið að breyta nöfnum, flikka upp á þetta, fá nýja stjórnendur o.s.frv. Allir vildu Lilju kveðið hafa og þess vegna varð náttúrlega að strika yfir gömlu nöfnin. Þau voru einskis virði. Það varð að sýna hverju hefði verið áorkað einmitt af þeim sem voru við stjórnvölinn þá og það var Byggðasjóður og Byggðastofnun og ég veit ekki hvað og hvað. Alltaf var verið að breyta um þessi nöfn og það þótti aðalatriðið og skal ég út af fyrir sig ekki fara mikið lengra út í þá sálmana.
    Þá vík ég aftur að hv. þm. Eiði Guðnasyni. Það er nú verst að hann skuli ekki vera í salnum. Ég get þá ekki skammað hann eins og ég kannski hefði viljað gera, en þess vegna þætti mér nú vænt um ef einhver nennti að athuga hvort hann gæti nokkuð hlustað á. ( Forseti: Hv. þm. virðist ekki vera í húsinu eins og er.) Nú, þá verð ég líklega að draga úr skömmunum, en segja þó það sem ekki verður fram hjá komist að það voru ósæmileg hans ummæli og aðdróttanir í garð stjórnenda Reykjavíkurborgar.
Ég man það að allan þennan tíma sem ég er núna að fjalla um, frá 1967 til dagsins í dag, hafa allir stjórnendur Reykjavíkurborgar, a.m.k. þann tíma sem sjálfstæðismenn réðu, ég skal ekki tala um þetta eina kjörtímabil sem þeir réðu ekki, og ekki síst borgarstjórarnir barist fyrir því með oddi og egg að nægilegt fé yrði eftir úti á landi eða flyttist út á land til að þurfa ekki að kosta miklu meira til í Reykjavík til þess að taka á móti fólki, byggja upp heilu hverfin, heilu skólana og stærðarskóla kannski árlega, og allt það sem til þurfti. Þetta er miklu ódýrara fyrir Reykvíkinga og það sagði ég þeim fyrir norðan. Það breytir engu um það hvort ég er þingmaður þessa kjördæmis eða dreifbýliskjördæmis. Sannleikurinn er sá að Reykvíkingar voru alltaf fúsir til þess að láta sem mest fé renna út á landsbyggðina og eru það enn þá. Hvers vegna? Ekki af neinni sérstakri gæsku. Þeir eru ekkert betri menn, Reykvíkingar, heldur en þeir sem búa úti á landi. Við erum öll Íslendingar. Það var einfaldlega hagstæðara fyrir Reykjavík og hagstæðara fyrir landið í heild að féð yrði eftir úti á landi eða flyttist út á landið til þess að ekki þyrfti að yfirgefa þar stórkostlegar eignir og þjóðfélagið þyrfti svo að byggja yfir það fólk sem er að flytja suður og þetta er svo enn. Ég get nefnt alla borgarstjórana og fyrirmenn Reykvíkinga, sjálfstæðismennina, sem þessari stefnu hafa fylgt, oft dyggilegar og með mikið meiri festu heldur en t.d. hv. þm. sem lét sér þessi orð um munn fara.
    Hann sagði: Það er ótrúleg skammsýni stjórnenda höfuðborgarinnar. Og mér skildist að það hefði alltaf verið svo að það hefði verið ótrúleg skammsýni. Þetta væri skoðun hv. þm., en mín skoðun er þveröfug. Fólkinu í landinu þykir nefnilega vænt um Reykjavík þrátt fyrir allt og allt og Reykvíkingum auðvitað vænt um landið sitt því flest erum við nú komin utan af landi hingað til Reykjavíkur. Það er þess vegna alveg ósæmandi að vera með þessi brigslyrði nú enn einu sinni. Og segi ég það enn að þó að ég hefði kannski ekki talað svona til hæstv. ráðherra, þá geri ég það núna. Það var ýjað að þessu og hv. þm. Eiður Guðnason sagði það beint. Hann skildi þetta nákvæmlega eins og ég, að hæstv. ráðherra var nú að reyna að kveikja í illindum á milli höfuðborgarinnar og dreifbýlisins og gerði það auðvitað vísvitandi og svolítið glottandi.
    Þá var það stóra dæmið sem hv. þm. nefndi, ferðaþjónustan, að Reykjavíkurborg hefði átt hlut í ferðaþjónustu. Það má vel vera, ég hef ekki hugmynd um það. Hann sagði að einhverjar milljónir hefðu verið skornar niður. Þetta mál bara einfaldlega þekki ég ekki. Það hefur kannski verið talið betra að nota þetta fé í einhverja aðra þætti ferðamála en akkúrat þetta, en það veit ég ekki.
    Hv. þm. Eiður Guðnason sagði að það væri nauðsynlegt að breyta eignarhaldi á Landsvirkjun og sérstaklega væri þetta bölvað þar sem Reykvíkingar og Akureyringar ættu þarna hluti. Ég skal ekki leggja neitt mat á það hver nauðsyn er að breyta eignarhaldinu. Ég held að það væri þá kannski best að gera úr þessu almenningshlutafélag, að landsmenn ættu þetta og gætu verslað með sín hlutabréf. Kannski tvö félög

sem mundu keppa, náttúrlega með ákveðin svæði hvort um sig en þó ákveðna samkeppni. Við skulum segja að Rafmagnsveitur ríkisins yrði hluti slíks fyrirtækis og eitt eða tvö stór félög, sem víða þekkist erlendis, og þetta sé í einkarekstri og almenningur hagnist á því og hafi þá líka áhrif á verðlag, a.m.k. á innanlandsmarkaði þó að það sem selt er útlendingum sé auðvitað háð markaðsverði og aðstæðum erlendis jafnt og hér heima. Það er ekki neitt vandamál, held ég. Við getum sameinast um að breyta eitthvað eignarhaldi í þessum félögum. Og raunar er nú ekki hægt að komast hjá því að nefna það að á síðustu áratugum hafa augu manna, og það skal ég játa, í öllum flokkum opnast fyrir því, sem fáir hlustuðu á fyrir 15 -- 20 árum eða svo, að fjármunum þjóðarinnar í atvinnuvegunum væri betur komið hjá einstaklingunum og félögum þeirra en hjá ríkinu. Að því leyti til eigum við miklu meiri samleið en áður var þegar menn lömdu hausnum við steininn og sögðu að ríkið ætti allt að eiga vegna þess að auðmenn mættu ekki græða svona mikið og allt eftir því. Það má kannski segja að erfiðleikarnir núna felist í því að enginn eiginlega græðir, því miður, og kjör láglaunafólks eru lakari en þau hafa verið í áratugi og aðstaða þess öllsömul verri en verið hefur í áratugi og mismunur meiri en verið hefur í áratugi. Það þekktist ekki áður, a.m.k. ekki í stórum stíl, að fólk ætti ekki til hnífs og skeiðar en svo er nú, bæði úti á landi og í Reykjavík, en fyrst og fremst í Reykjavík. Og nú skal ég segja ykkur að ég sagði líka í mínu gamla kjördæmi að aðstaðan úti á landi væri betri þrátt fyrir allt en fátækt fólksins í Reykjavík, af því að það var líka til fátækt þar, en ekki jafnsár og núna. Það var ekki jafnmikið óréttlæti í launagreiðslum fyrir t.d. 20 árum og er núna. Og það er auðvitað fylgifiskur vinstri stefnunnar, ofstjórnarstefnu á öllum sviðum og slæmrar meðferðar á fjármálum þjóðarinnar. En við skulum ekki fara að ræða almennt um fjármál landsins í þessari umræðu.
    Ég ætlaði aðeins að leiðrétta þessi ummæli tveggja manna, hæstv. ráðherra og hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Þeir voru að vekja upp gamlan draug, sem alltaf gengur nú aftur öðru hverju. Ég held að það sé alveg rétt, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði hér áðan, að ástæðan fyrir því að fara að hæla núna eitthvað sérstaklega Byggðastofnun og öllu þessu brambolti í kringum hana væri auðvitað þær kosningar sem fram undan væru. Nú ætti að sýna dugnaðinn einu sinni enn. Kannski verður skipt um nafn á henni, líklega byggt nýtt hús einhvers staðar og fjölgað eitthvað kommissörum og svona dótaríi. Ég býst við að það verði allt saman gert í Sovét - Íslandi nútímans þegar eiginlega allir eru að hverfa frá sovétstefnu og kommúnisma í efnahagsmálum, þá verði hert á því hér. Þetta er nú kannski ekki sagt í fullri alvöru, en alla vega hefur slík gerbylting orðið í hugsunarhætti ekki bara á Íslandi og ekki bara í Evrópu heldur um heim allan. Núna er vonandi frjálsræðisöld fram undan og við höfum verið að lesa tíðindi af því að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú a.m.k. styrkt sig og lýðræðisríkin öll með því að sigra þennan brjálæðing við

Persaflóa. Þá er ég líka kominn út í aðra sálma og ráðherra farinn svo að ég hef engan til þess að skamma svo ég held ég hætti þá bara.