Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær eru vissulega þarfar og mér finnst þær nú yfirleitt hafa verið heldur jákvæðar gagnvart þeim tillögum sem hér liggja fyrir og það ber vissulega að þakka það. Hins vegar verð ég að segja það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ummæli hv. 4. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar. Mér finnst þar talað af ótrúlegri vanþekkingu og skilningsleysi á byggðamálum, þó ég taki nú ekki dýpra í árinni. Mér finnst það sorglegt að hér úr þessum ræðustól skuli varaformaður Verkamannasambands Íslands tala í slíkum tón sem hann gerði til þess ágæta starfsfólks sem starfar inni í Byggðastofnun. Að kalla þetta fólk einhver pappírstígrisdýr er ekki þolandi. Og mér finnst það fyrir neðan virðingu hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, varaformanns Verkamannasambands Íslands, að tala í þessari tóntegund. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að ræðu hv. þm. Karls Steinars. Það er eins og ég segi, þau voru yfirleitt töluð að mér fannst af lítilli þekkingu og mjög takmörkuðum skilningi á því að eitthvað þurfi að gera á landsbyggðinni. Því miður var það svo.
    Auðvitað hafa menn farið vítt yfir sviðið þegar um þessi mál er fjallað og ekki óeðlilegt. Hv. þm. Skúli Alexandersson ræddi nokkuð ítarlega um þessar tillögur. En mestur tími hjá mönnum hefur farið í að ræða fylgiskjal frv. sem eru tillögur þeirrar nefndar sem ég var formaður fyrir. Hv. þm. Skúla Alexanderssyni, sem sat í hinni byggðanefndinni, fannst þessar tillögur okkar vera heldur lausar í reipunum og virtist ekki sjá að þar væri um neinar beinar aðgerðir að ræða sem við legðum til og skortir nú á lagabreytingar. Það vill svo til að með þessu, hv. þm., fylgir tillaga um breyting á sveitarstjórnarlögum, það eina sem er nauðsynlegt að breyta í lögum til að þessar tillögur okkar geti náð fram. Það er það eina.
    Ég vil einnig segja það að ég er hv. þm. mjög ósammála að hér sé ekki um merkar tillögur að ræða. Hér er að mínu mati um mjög merkilegar tillögur að ræða. Hér er um mjög róttækar breytingar að ræða í byggðamálum. Það er verið að færa verulega mikil völd út á landsbyggðina og ekki bara völd, það er einnig og ekki síður verið að færa aukna ábyrgð til þess fólks sem þar starfar. Það er grundvallarbreytingin í tillögum nefndarinnar. Það er verið að reyna að auka áhrif landsbyggðarfólksins sjálfs í stjórnkerfinu, eins og kom fram hjá hv. þm., í gegnum héraðsnefndirnar. Það var okkar mat. Þær eru til staðar í dag og við treystum því fólki best til þess að fara með þessi völd, sveitarstjórnarfólkinu sjálfu, sem hefur verið kosið til þess að fara með þessi mál. Það var ekki nein tilviljun sem réði því að sá kosturinn var valinn. Það er verið að færa þarna völd til þessa fólks og við teljum að það sé sjálfsagt og sjálfgefið nánast að það fólk sem íbúar viðkomandi svæða hafa kosið í löglegum kosningum fari með þessi völd. Það séu ekki einhverjir allt aðrir aðilar sem komi utan að sem geri skuldbindingar fyrir sveitarstjórnirnar. Það finnst mér

rangt. Þess vegna var þessi leið okkar valin að styrkja svo mjög sveitarstjórnarstigið eins og hér er gert. Ég trúi því einnig að þessar tillögur um að styrkja svo mjög sveitarstjórnarstigið verði til að hvetja fólk til þess að vera virkari þátttakendur í sveitarstjórnarmálum og jafnvel fúsara til að leggja á sig þá miklu vinnu sem sveitarstjórnarmenn þurfa að taka á sig með því að gerast þátttakendur í sveitarstjórnarmálum.
    Hv. þm. vék líka að valddreifingunni og hvernig þetta væri hugsað að byggja upp þessar miðstöðvar í kjördæmunum og minntist þar á að ágætur maður hafi einhvern tíma sagt að Reykjavík væri vond, verra væri þó Akureyrarvaldið en verst væri Egilsstaðavaldið. Ég kannast við svona hugsunarhátt. Sem betur fer er þessi hugsunarháttur mjög á undanhaldi. Það skyldi þó aldrei vera að þessi hugsunarháttur eigi nokkra sök á því hvernig komið er fyrir okkur landsbyggðarfólkinu, okkur, þessu fólki sem fætt og uppalið er á landsbyggðinni og ætlum okkur að búa þar áfram. Þessi hugsunarháttur, þessi eilífa innbyrðis togstreita, það er hún sem hefur nagað okkur innan frá og því verður að linna.
    Hv. þm. vék einnig að því að það kæmi úr hörðustu átt, og var hann þá að tala til mín, þar sem lagt væri til að störf væru flutt út á land vegna þess að ég hafði greitt atkvæði gegn því að Byggðastofnun væri flutt til Akureyrar. Það er rétt. Ég var þá formaður stjórnar Byggðastofnunar og ég greiddi atkvæði gegn því að hún væri flutt til Akureyrar. En hann gleymdi að geta þess um leið að á sama fundi flutti ég tillögu um það að þessar miðstöðvar, stjórnsýslumiðstöðvar, yrðu byggðar upp í öllum kjördæmum landsbyggðarinnar. Það er þegar búið að byggja upp stofnun á Akureyri, aðra á Ísafirði og þegar er kominn í gang mikill undirbúningur að slíkri starfsemi á Egilsstöðum og svona á að halda áfram. Það var minn skilningur og er enn að svona eigi að standa að málum. Þessar miðstöðvar, héraðsmiðstöðvar sem talað er um í þessum tillögum, eru vitaskuld ekkert annað en það sem við höfum kallað fram að þessu stjórnsýslumiðstöðvar. Menn hafa breytt um nafn, finnst eðlilegra að þær beri nafnið héraðsmiðstöðvar en ekki stjórnsýslumiðstöðvar eftir að hafa farið í smiðju til hinna orðhögustu manna þar um.
    Einnig vék hv. þm. að því að það væri einkennilegt að binda landshlutasamtök sveitarfélaga með lögum, hverjir ættu að vera í þessum samtökum. Í mínum huga er sjálfsagt að gera það vegna þess að við erum að færa veruleg völd frá því opinbera til þessara staða. Við erum þó ekki frekari en það, hv. þm. Yfirgangurinn er nú ekki meiri en það að þessar tillögur sem hér eru, og það hefur komið fram hjá fleirum, eru lagðar fram sem fylgiskjal. Við hugsum okkur það og viljum eiga sem best samstarf við sveitarstjórnarmenn um allt land um þessar tillögur. Því eru þær lagðar hér fram nú, ekki sem eitthvert kosningaplagg, eins og hv. þm. Karl Steinar orðaði svo smekklega áðan. Það skyldi þó ekki vera að beri að líta á þær tillögur sem við höfum séð á borðunum og

eigum eftir að sjá, m.a. frá ráðherrum Alþfl. sem eru að sjá dagsins ljós næstu daga, sem kosningaplögg, hv. þm. Karl Steinar Guðnason? Er sú tillaga sem er í smíðum hjá hæstv. iðnrh. um byggingu álvers á Keilisnesi, og stendur til að hér verði lögð fram sem þáltill., er hún kosningaplagg? Er hún kosningaplagg í skilningi hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar? Og aðrar tillögur sem eiga eftir að koma frá ráðherrum Alþfl. það sem eftir lifir þessa þings? Ég lít ekki svo á. Að þessum málum hefur verið unnið lengi og þessar nefndir sem hér er vitnað til hafa starfað í hvorki meira né minna en eitt ár og hafa nú skilað af sér. En meginmálið er að þessar tillögur verði til umfjöllunar í þjóðfélaginu í allt sumar. Ég vona að þær verði teknar síðan upp hér á Alþingi næsta haust þannig að sem víðtækust umræða geti orðið um þessar tillögur úti í þjóðfélaginu. Það er grundvallaratriði. Við erum ekki að pressa á að þær verði lagðar hér fram og samþykktar í dag eða á morgun. Við viljum fá opna umræðu í þjóðfélaginu um þessar tillögur. Þetta eru róttækar tillögur og, ég fullyrði það, einhverjar rótækustu tillögur sem settar hafa verið fram í byggðamálum. Þess vegna er nauðsynlegt og sjálfsagt að þær verði í umræðunni úti í þjóðfélaginu þennan tíma. Ég vona að þegar þær koma hingað inn á haustdögum taki menn vel á þeim og þær geti farið í gegn sem líkastar því sem þær eru hér lagðar fram.
    Ég sé að þau stinga saman nefjum hæstv. félmrh. og hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason sem ég vék að máli mínu rétt áðan. Þau hafa kannski verið að velta vöngum yfir því og bera sig saman um hvort þetta væru kosningatillögur sem félmrh. er nú að bera fram í húsnæðismálum eins og hv. þm. Karl Steinar segir að þessar tillögur séu kosningatillögur. Það skyldi þó ekki vera.
    Ég ætla ekki að eyða lengri tíma í þetta. Ég vil segja það enn og aftur að það hafa orðið miklar breytingar í byggðamálum og það er vissulega þörf á að taka þar til hendi. Við þurfum að átta okkur á því hvað hefur gerst. Af hverju er vandinn svo mikill í dag? Við þurfum að reyna að skilgreina það. Í mínum huga er það nokkurn veginn tært. Það er búið að setja framleiðslutakmarkanir á alla höfuðatvinnuvegi landsbyggðarinnar og þarf enginn að vera hissa á því þó að hrikti þá í. Ég hef sagt: Mér er ekki sama um það hvernig mitt hérað lítur út, mér er ekki sama um það. Ég geri mér grein fyrir því að við dreifbýlismenn þurfum að hopa um sinn. En ég vil ekki hafa undanhaldið stjórnlaust. Ég vil að við viðurkennum að við þurfum að hopa. Við skulum finna okkur þá varnarlínu þar sem við staðnæmumst og þar skulum við byggja okkur upp til nýrrar sóknar í byggðamálum. Við eigum ekki að vera á stjórnlausu undanhaldi. Það væri versta leiðin. Og versti kosturinn er einnig að þora ekki að viðurkenna og segja fólkinu frá því að breytinga er þörf og það er róttækra breytinga þörf. Það þarf enginn að halda það að þær breytingar muni ekki koma við margan sem úti á landsbyggðinni byggir.
    Að endingu segi ég: Ég gat ekki skilið orð ráðherrans svo að hann væri að segja að það væri svo harðsnúið lið hér í Reykjavík sem landsbyggðin ætti við að eiga. Ég lít ekki svo á. Ég tek miklu frekar undir þau orð sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði í þessum efnum. Ég held að menn eigi að láta af slíkum málflutningi. Það er pláss fyrir okkur öll í þessu landi og það fer best á því að við náum sem mestum friði um þessi mál og látum af óskynsamlegum málflutningi eins og einhverjir ákveðnir þingmenn hafa kannski haft í frammi í þessum ræðustól.