Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér þykir miður að hafa ekki haft tækifæri til að vera við þessa umræðu frá upphafi, en þannig stóð á að ég var fjarverandi á þessum fundi þar til nú fyrir nokkrum mínútum síðan og hef því misst af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frv. sem er nýkomið fyrir okkar augu og ég hef a.m.k. ekki haft tækifæri til að kynna mér ítarlega. En það sem vekur athygli er að hér er verið að leggja fram stjfrv. En það kemur aldeilis ekki fram í þessum umræðum, mér heyrðist helst að hér séu stjórnarliðar að deila innbyrðis um þetta mál eins og svo mörg önnur sem við fáum á borðin þessa dagana. Það er varla lagt svo fram stjfrv. að ekki komi einhver þingmaður stjórnarflokkanna og geri fyrirvara við það frv. sem viðkomandi ráðherra er að leggja fram eða mæla fyrir. Það er ekki langt síðan hæstv. félmrh. var að mæla fyrir frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun og fulltrúi Framsfl. steig í pontu og gerði rækilega fyrirvara á því sem það frv. fjallaði um. Og eins er að gerast nú.
    Ég vil taka það fram að ég er svolítið sammála hv. 4. þm. Reykn. Ég er ekki viss um að það sé endilega nauðsyn að breyta lögum til að framkvæma betri byggðastefnu. Það er nefnilega þannig að það er alltaf verið að setja á laggirnar nefndir og ráð og kalla eftir skýrslum og tillögum og ráðgjafarhópum og punktur og basta. Það er ekki langt síðan verið var að ræða um það í Sþ. hvernig staðan er í málum geðsjúkra. Ætli það sé ekki áratugur síðan farið var að ræða það mál hér í þinginu og flytja tillögur? Ég var meðflm. að þáltill. sem fyrrv. þm. Helgi Seljan var 1. flm. að á sínum tíma og ef ég man rétt var hv. 4. þm. Reykn. einnig einn af þeim sem fluttu hana. En það gerist ekki neitt. Það er alltaf verið að setja á laggirnar nefndir og ráð og kalla eftir skýrslum. Við ræðum skýrslurnar. Allir eru sammála um að það þurfi eitthvað að gera en það skeður ekki neitt. Þess vegna tek ég undir það að ég held að við ættum að fara að snúa okkur að því að sjá fyrir endann á þessu tali nema að það komi athafnir í stað orða.
    Það er staðreynd að Reykjaneskjördæmi hefur verið út undan og það hefur ekki verið litið á það sem eitt af þeim svæðum sem Byggðastofnun eigi að sinna. Að vísu var því breytt fyrir nokkrum árum að taka málefni Reykjaneskjördæmis inn hjá Byggðastofnun. En eins og hv. 4. þm. Reykn. benti á hefur ýmislegt verið að gerast í atvinnumálum á Suðurnesjum sem ekki ber þess vitni að þar hafi mikil aðstoð komið til og ætti hæstv. sjútvrh. að þekkja það best.
    Málið er það að verið er að ala á óvild landsbyggðarinnar í garð höfuðborgarinnar og stjórnenda hennar. Eftir því sem mér hefur verið sagt hafði það komið fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. í þessum umræðum að stjórnendur Reykjavíkurborgar sjái ekki út fyrir borgarmörkin. Það hefur verið góð samvinna á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, milli Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna allt þar í kring. Ég held að það mætti taka það til fyrirmyndar um

viðhorf og samstarf sveitarfélaga, hvort sem þau eru úti á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum að leggja áherslu á að sætta þessi sjónarmið í stað þess að vera alltaf að ala á þessari sundrungu og togstreitu sem er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Höfuðborgarsvæðið getur ekki verið án landsbyggðarinnar og þeirra sem þar búa og öfugt. Landsbyggðin þarf á þessu svæði að halda.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vildi aðeins láta þess getið að ég er ekki trúuð á að frv. sem þetta bæti eitthvað úr. Það er allt annað sem þarf að koma til.