Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég furða mig á því að hæstv. ráðherra skuli ekki taka til máls í lok umræðunnar en það er kannski allt í lagi að hann geri það ekki. Þá stendur það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði í upphafi síns máls að ráðherrann hefði vikið að samskiptavandamálum höfuðborgarinnar og dreifbýlisins og tók mjög undir þau sjónarmið ráðherra og bætti því við að stjórnendur Reykjavíkur horfi ekki upp fyrir Elliðaár og ekki suður fyrir Fossvogslæk. Það væri ótrúleg skammsýni stjórnenda höfuðborgarinnar. Þetta lagði hv. þm. fram sem skilning sinn á ummælum ráðherrans. Þau voru ekki alveg jafnskýr, þau voru dylgjur og dulbúin árás á Reykjavíkurborg og alið á þeim sjónarmiðum sem hafa komið í ljós mjög greinilega að framsóknarmenn telja að höfuðborgin sé nánast til bölvunar fyrir landslýð allan. Líklega framsóknarmenn allir nema einn, og það var drenglyndi Stefáns Guðmundssonar sem kom hér fram áðan. Hann sagði orðrétt: Ég tek undir sjónarmið Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Og hann bætti við orðrétt: Látum af þessum ágreiningi og látum af óskynsamlegum málflutningi. Hann var þá væntanlega að svara foringja sínum og sjónarmiðum þeim sem hv. þm. Eiður Guðnason las út úr orðum ráðherrans. Það fer ekkert á milli mála að það voru ákúrur þar á ferðinni.
    Á sama hátt má segja að hv. þm. Karl Steinar Guðnason hafi verið að svara flokksbróður sínum, sem lengst gekk nú í árásum á höfuðborgina, þegar hann tók til máls í tvígang. Þessu ber að fagna og það þarf að undirstrika það að Framsfl., varaformaður hans, er við þetta heygarðshornið eins og framsóknarmenn alltaf hafa verið, að reyna að ala á tortryggni og óeiningu, sundrungu, milli þeirra manna sem búa úti á landi og hinna sem eru í Reykjavík. Nú ber hæstv. ráðherra í borðið sem betur fer og væntanlega reynir hann þá að bæta eitthvað um þau ummæli sem hann viðhafði og skýra þau þá á einhvern allt annan hátt en hv. þm. Eiður Guðnason gerði. En ég var að lesa eftir honum það sem hann sagði og lagði í orð ráðherrans, sem ég gerði raunar líka. Það var nú ekkert misskilið það sem hann var að fara.
    En þessi umræða er orðin ágæt. Menn vita það núna í höfuðborginni að ekki er mikið treystandi á það að kjósa einhverja framsóknarmenn til trúnaðarstarfa. Því síður náttúrlega er ástæða til að kjósa formann flokksins sem hefur nú ákveðið í lokin að verða í framboði á Reykjanesi. Það er varla að vænta þess að hans sjónarmið séu allt önnur en varaformannsins. Og framsóknarmenn hafa náttúrlega aldrei gætt hagsmuna Reykjavíkur og munu aldrei gera. En það þýðir ekki fyrir þá að ætla að færa það fram fyrir landslýðinn að Reykjavíkurþingmenn eða Reykvíkingar almennt séu að reyna að hindra uppbyggingu úti á landi. Það hefur alla tíð verið sjónarmið forustumanna Sjálfstfl., eins og ég gat hér um áðan, að reyna að hindra flótta af landsbyggðinni til borgarinnar, reyna að auka atvinnulíf á landsbyggðinni og leggja mikið af mörkum til þess fjárhagslega og gera það enn og

telja það ekkert eftir sér. Það er alveg ljóst að þau sjónarmið eru ríkjandi í Sjálfstfl. að reyna að kveða niður þennan róg, þennan óskynsamlega málflutning sem Stefán Guðmundsson nefnir svo, láta af honum, segir hann, það er einn framsóknarmaður sem talar skýrt í þessu efni, það er hv. þm. Stefán Guðmundsson. Hann á að njóta þess að hann hefur talað hér skýrt, aðrir ekki og síst ráðherrann.