Byggðastofnun
Föstudaginn 01. mars 1991


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mér þykir leitt að ég skyldi reita hæstv. ráðherra svo til reiði sem menn heyrðu og sáu hér áðan. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í síðara skiptið núna í dag var sú að ráðherra hafði ekki svarað því sem hv. þm. Eiður Guðnason lagði í orð hans. Ég lagði raunar líka það sama í orð hans og hafði víst einhver orð um það í upphafi míns máls að kannski hefði ég ekki haft mjög mikla ástæðu til þess að svara honum ef þetta hefði ekki verið sýnilega skoðun annarra. Ég veit af langri reynslu að framsóknarmenn eru að agnúast út í Reykvíkinga og Reykjavík með öllum ráðum og hafa gert og ala á óvináttu og ósamlyndi milli landsbyggðar og Reykvíkinga. Það kom þess vegna ekkert sérlega á óvart að ráðherrann léti gott heita að hann hefði sagt allt sem hv. þm. las út úr orðum hans.
    Þegar hann reiddist hér áðan sagði hann: Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að halda því fram að forustumenn Sjálfstfl. hafi ekki agnúast út í landsbyggðina, eða eitthvað í þá áttina. Það sáu náttúrlega allir hér inni og heyrðu að hann var að árétta að það bæri að halda áfram þessum metingi á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins sem flestir hv. þm., þar á meðal Skúli Alexandersson með ágætum, vildu kveða niður og Stefán Guðmundsson tók jafnvel sterkara til orða. En ráðherrann forðast það auðvitað að reyna að kveða þetta niður. Hann var að ala á því líka í þessari svokölluðu svarræðu sinni hér áðan og gerir það vafalaust í þriðja skipti ef hann tekur til máls. Svo ætlaði hann að fara að gera einhvern mat úr því að ég sagði hér góðlátlega og brosandi, nefndi nú að vísu aldrei lýðveldið Ísland, sagði góðlátlega að víða um lönd og meira að segja á Íslandi, ég tók það fram, væri verið að auka frjálsræði og áhrif almennings, en það væri þá hjákátlegt ef á því væri hert hér heima.