Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 01. mars 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér í fjarveru hæstv. forsrh. fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir. Frv. þetta er einfalt og í því eru lagðar til tvær meginbreytingar.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að Hlutafjársjóður Byggðastofnunar verði felldur undir Byggðastofnun og lúti framvegis stjórn þeirrar stofnunar. Hinn 1. apríl nk. verði með öðrum orðum stofnuð sjálfstæð hlutafjárdeild Byggðastofnunar sem á stofndegi tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Deildin skal hafa sjálfstæðan fjárhag vegna fyrri starfsemi Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar en henni má jafnframt fela að annast eftirlit með hlutafélögum sem Byggðastofnun á aðild að. Fjallar 1. gr. frv. um þessa breytingu.
    Um Hlutafjársjóð Byggðastofnunar gilda nú 8., 9. og 10. gr. laga um efnahagsaðgerðir, nr. 9/1989. Hlutverk þess sjóðs var að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu útflutningsgreina með kaupum á hlutabréfum í starfandi fyrirtækjum og þátttöku í stofnun nýrra fyrirtækja er taki við starfsemi eldri útflutningsfyrirtækja. Hlutafjársjóður hefur nú að mestu lokið upphaflegu hlutverki sínu og er því eðlilegt að fella starfsemi hans undir aðra starfsemi Byggðastofnunar á svipaðan hátt og gert var um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina.
    Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. gildandi laga er tekið fram að Hlutafjársjóður Byggðastofnunar lúti stjórn þriggja manna sem skipaðir eru af forsrh. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frv. er starfsemin felld undir Byggðastofnun eins og fyrr greinir. Því segir í 4. gr. frv. að umboð núverandi stjórnar Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar falli niður frá stofndegi hlutafjárdeildar Byggðastofnunar eða frá 1. apríl 1991.
    Í öðru lagi er lagt til í 2. gr. frv. að markmið atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar verði skilgreind nánar í 11. gr. laga um efnahagsaðgerðir, nr. 9/1989. Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar tók við öllum eignum og skuldum Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina hinn 1. jan. 1991 skv. 11. gr. gildandi laga. Hlutverk atvinnutryggingardeildarinnar var hins vegar ekki nákvæmlega skilgreint. Þykir því rétt að taka af öll tvímæli í þessu efni og umorða 11. gr. gildandi laga. Tekið er skýrt fram að hlutverk deildarinnar er að innheimta skuldabréf í eigu deildarinnar en henni er þó óheimilt að veita ný lán. Deildinni er samt sem áður heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að vernda eignir sínar en þó óheimilt, án samþykkis Ríkisábyrgðasjóðs, að breyta skilmálum lánadeildarinnar, skuldbreyta þeim, breyta þeim í víkjandi lán, hlutafé eða fella þau niður. Að jafnaði skulu slíkar breytingar í skilmálum vera liður í aðgerðum sem miða að fjárhagslegri endurskipulagningu, meiri háttar skipulagsbreytingum, samruna fyrirtækja og öðru því sem til hagræðingar horfir.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. þar sem það skýrir sig sjálft. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.