Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 01. mars 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Það færi vel á því að það frv. sem hér er til umræðu yrði ein síðustu lögin sem þetta þing samþykkti, jafnvel þau síðustu, vegna þess að hér er verið að setja endapunktinn aftan við þær efnahagsaðgerðir sem hófust með ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar í september 1988. Hér er verið að búa til ramma utan um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og Hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Báðir voru þessir sjóðir stofnaðir til þess að lána atvinnufyrirtækjum og til þess, eins og sagt var, að koma rekstri ákveðinna fyrirtækja á sæmilegan grundvöll. Ég held að þetta sé þarft frv. Um leið og við fjöllum um þessi frumvörp í fjh. - og viðskn. held ég að það væri þarft, og ég vil bara nefna það strax til þess að það tefji ekki umfjöllun um þetta mál, að við nefndarmenn fáum lista yfir allar úthlutanir þessara sjóða beggja og hvernig öll þau mál standa, hverjir eru þar í vanskilum, t.d. í sambandi við lán Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, og hverjir hafa staðið sig vel. Þetta er málefni sem rætt er í þjóðfélaginu og ég held að það sé algert lágmark að við í nefndunum fáum að sjá hvernig sú staða er. Æskilegast væri við lok þessa kjörtímabils að það væri sýnt svart á hvítu hvernig þetta hafi gengið fram, þ.e. hvernig þau fyrirtæki, sem áttu að vera komin á sæmilegan rekstrargrundvöll eftir að þau höfðu fengið fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, hafa staðið sig í þeirri skyldu að standa skil á þeim lánum sem þau fengu til þeirra hluta.