Grunnskóli
Föstudaginn 01. mars 1991


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í nefndaráliti 1. minni hl. menntmn., Sigrúnar Helgadóttur, sem liggur frammi á þskj. 712, er bent á að í þessu frv. um grunnskóla og brtt. meiri hl. menntmn. Nd. komi fram tillögur um breytingar á grunnskólanum sem kvennalistakonur hafa lagt áherslu á árum saman. Hér er átt við breytingar eins og að daglegur skólatími verði lengdur, að skóli verði einsetinn, að nemendur fái mat í skólum og að stórum sveitarfélögum verði skipt í skólahverfi.
    Þá er bent á að hvaða leyti þetta frv. er ekki eins metnaðarfullt og það frv. sem Guðrún Agnarsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir lögðu fram á 110. og 111. löggjafarþingi varðandi þætti eins og fækkun nemenda í bekkjardeildum og það hve langan tíma það á að taka að koma á einsetnum skóla og lengdum skólatíma. Í frv. kvennalistakvenna var stefnt að einsetnum skóla á þremur árum, en í þessu frv. á tíu árum. Frv. Kvennalistans gerði auk þess ráð fyrir að nemendur gætu dvalist í umsjón fólks með uppeldisfræðilega menntun í skólanum utan kennslustunda, þ.e. frá 8 -- 9 á morgnana, í hádegi og kl. 15 -- 17 síðdegis. Engin slík ákvæði eru í fyrirliggjandi frv. Ekki heldur í ákvæðum til bráðabirgða, þó að lengingin eigi að taka tíu ár. Það tekur því að mjög litlu leyti tillit til þess misræmis sem er á milli skólatíma barna og vinnutíma foreldra þeirra.
    Það er verulega umhugsunarvert að gert er ráð fyrir tíu árum til að ná lokamarkinu sem nefnt er í ákvæðum til bráðabirgða, að kominn verði einsetinn skóli og 35 kennslustundir á viku fyrir öll skólaskyld börn. Lenging skólatímans fyrir yngstu börnin á næstu þremur árum samkvæmt ákvæðum 45. gr. á þó eingöngu að fara uppi í 25 kennslustundir og samkvæmt brtt. meiri hl. menntmn. eiga skólamáltíðir að vera komnar á á þremur árum í stað tíu. Auk þess að ætla of langan tíma til að ná settu markmiði tryggir þetta frv. ekki nauðsynlegar forsendur þess að ofangreindu markmiði verði náð. Þar á ég annars vegar við nauðsynlegar breytingar á vinnutíma og launakjörum kennara, sem eru alveg undir samningsvilja kennara og ríkisins komnar, hins vegar er átt við að þetta frv. tryggir ekki að uppbygging skólahúsnæðis á vegum sveitarfélaga verði nægilega hröð þrátt fyrir ákvæði 10. gr. Þarna reynir á framkvæmdarvilja sveitarfélaga, sbr. lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989.
    Í frv. eru ýmis ákvæði í átt til valddreifingar. Auk þess að færa vald frá menntmrn. til fræðsluskrifstofa má nefna stofnun grunnskólaráðs í 9. gr. og að fjölmennum sveitarfélögum sé skipt í skólahverfi, sbr. 17. gr. Bæði síðarnefndu atriðin styrkja stöðu foreldra gagnvart skólanum, sem ég fagna mjög, en líklega þarf þó að ganga lengra en hér er gert til að tryggja að foreldrar geti haft þau áhrif á starf grunnskólans sem þeim ber samkvæmt gildandi uppeldisskipan.
    Þetta frv. gerir ráð fyrir að ríkið sjái nemendum í skyldunámi fyrir ókeypis námsgögnum skv. 50. gr. Um leið og ég fagna þessu út frá jafnréttissjónarmiðum verður að vara við þeirri stöðnunarhættu sem þetta hefur í för með sér ef Námsgagnastofnun fær ekki það fé sem þarf til að hafa úrval vandaðra kennslugagna ávallt á boðstólum. Ef ætlunin er að svelta Námsgagnastofnun með sama hætti og undanfarin ár tel ég nauðsynlegt að skylda sveitarfélögin til að grípa þarna inn í eða að ríkið veiti fé beint til einstakra skóla í þessum tilgangi frekar en að núverandi ástand viðgangist, að foreldrar þurfi að kaupa kennslugögn við hæfi.
    Grunnskólalögin frá árinu 1974 hafa um margt reynst vel og byggðust á mikilli framsýni. Markmiðsgrein þeirra er tekin upp óbreytt í þessu frv. en útfærsla hennar í 47. og 48. gr. er nokkuð breytt í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á samfélaginu og skólakerfinu. Áður en ég kem að þeim vil ég ítreka að góð löggjöf er eitt og útfærsla hennar í reynd er annað. Lög duga skammt ef hugarfarið er ekki í samræmi við þau. Sem dæmi um þetta má annars vegar nefna lögin um jafnrétti kvenna og karla, sem hér hafa verið til umræðu undanfarna daga, og hins vegar þá staðreynd að þó að konum hafi verið veittur aðgangur að öllum menntastofnunum landsins árið 1911 voru þær hlutfallslega fáar í framhaldsskólum og háskólum allt fram undir miðja öldina. Það þýðir lítið að lögfesta eitthvað sem ekki er mögulegt að útfæra í reynd vegna aðstæðna eða ráðandi hugarfars. Sú breyting að gera skólakerfið minna miðstýrt virkar mjög lýðræðisleg en um leið getur það aukið mismunun á milli sveitarfélaga eða byggðarlaga, kynja og stétta. Mjög mikið af raunverulegum áhrifum skólans á sér stað í gegnum hina svokölluðu duldu námsskrá, nefnilega því sem stendur á milli línanna í kennslubókunum eða óbeinu skilaboðunum sem nemendur fá í skólanum. Við getum ekki tryggt með lögum að allir skólar hafi menntaða úrvalskennara eða að námsefni og fyrirmyndir séu uppörvandi fyrir bæði kynin og að athygli kennara byggist á því að allir nemendur séu jafngildir einstaklingar. Stundum hvarflar þó að manni að þörf sé á annarri hliðarlöggjöf til að tryggja að lögin hafi tilætluð áhrif. Oft hafa breytingar sem í fyrstu eru taldar í lýðræðisátt og til bóta reynst hafa óvænt hliðaráhrif ákveðnum hópum í óhag. Lykillinn að sem bestu samræmi þarna á milli varðandi þetta frv. er metnaðarfull kennarastétt og aðstæður sem í reynd eru í samræmi við gildandi lög, sem því miður skortir oft á.
    Í 47. gr. frv. vil ég sérstaklega fagna því ákvæði að skólinn eigi að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Þar með verður vonandi bundinn endir á þann tvískinnung sem hefur ríkt í skólastefnu hér sem víðar alla þessa öld, að undirbúningur undir fjölskyldulíf hefur verið afar takmarkaður þó að í reynd hafi fjölskyldan og heimilið verið aðalstarfsvettvangur kvenna þar til á síðustu þrem áratugum eða svo. Sögulegar athuganir benda til að þegar kvennaskólar síðustu aldar voru almennt lagðir niður í löndunum í kringum okkur
við það að lögbundin alþýðufræðsla komst á hafi þótt

sjálfsagt að stúlkur lærðu allt það sem drengir áttu að læra en ekki öfugt og smám saman hafi því námsefni sem tengdist barnauppeldi og heimilisrekstri orðið undir. Kvenfrelsiskonan Betty Friedan benti eftirminnilega á misræmið á milli þeirrar menntunar sem vestræn menntakerfi hafa boðið stúlkum upp á og veruleika heimavinnandi kvenna í bók sinni The Feminine Mystique árið 1963 og kallaði það nafnlausa vandamálið.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er ákveðið lagt til að bæði kynin séu undirbúin undir sömu hlutverk, þ.e. virka þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og fjölskyldulífi. Þó þetta sé í samræmi við gildandi jafnréttislög, aðalnámsskrá grunnskóla og skýrslu starfshóps um jafna stöðu kynja í skólum sem menntmrn. gaf út í desember 1990, þá yrði þetta í fyrsta sinn sem skólalöggjöf tekur skýrt á þessu hér á landi þó að fræðimenn hafi í gegnum aldirnar skilgreint æskilega menntun kynjanna eftir því hvaða hlutverki þau áttu að gegna í þjóðfélaginu.
    Ég vil einnig fagna því í 47. gr. að skólinn leggi áherslu á margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni, safna- og heimildavinnu. Upplýsingaþjóðfélagið kallar svo sannarlega á góða færni nemenda til að vinna með upplýsingar. Þennan grunn þarf að leggja það snemma að hann nýtist í framhaldsnámi og í störfum á vinnumarkaði.
    Ef litið er svo aftur á 48. gr. í ljósi ofannefndra tveggja atriða verður ekki séð hvernig tryggt er að þessum markmiðum verði náð, en vissulega má leggja áherslur af þessum toga innan margra námsgreina. Í 47. gr. er einnig lögð áhersla á að starfshættir séu þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar sem er eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi sem byggir á jafngildi allra þegna. Það er mitt álit að ein af meginástæðum þess að skólar virðast hafa mismununaráhrif á einstaklinga og hópa sé sú skoðun sem mér vitanlega kom fyrst fram í Ríkinu eftir Plató 400 árum fyrir Krist að jafnt þýddi sama og eins í þessum efnum. Mikilvægt er að allir átti sig á að þetta þarf ekki að þýða að allir eigi að fá eins eða sams konar menntun. Til að koma í veg fyrir mismunun vegna ofannefndra þátta þarf að taka mið af þeim mun sem er á milli ofannefndra hópa varðandi leiðir þó að lokamarkið sem að er stefnt sé hið sama eða svipað. Fuglinn og fiskurinn geta báðir komist í mark þó með mismunandi hætti sé. Allir verða að fá möguleika til að nota þær leiðir sem þeim henta. Þetta er reyndar ítrekað í lok 47. gr., þ.e. að taka á mið af mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasviðum nemenda.
    Virðulegur forseti. Þetta frv. markar ákveðin spor í rétta átt og því get ég stutt framgang þess en mjög margt annað þarf að gera í íslenskum skólamálum og í þjóðfélaginu almennt til að áhrif þess verði þau sem að er stefnt í 2. gr. þess.