Grunnskóli
Föstudaginn 01. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ritað undir nál. hv. menntmn. með fyrirvara og ég vil nú með örfáum orðum gera grein fyrir þessum fyrirvara mínum við frv. Ég vil taka það strax fram að ég tel að í þessu frv. sé margt mjög til fyrirmyndar. Þar séu á ferðinni breytingar sem eru mjög nauðsynlegar og hefðu átt í raun að koma fram miklu fyrr en raun ber vitni. Ég vil nefna sérstaklega samfelldan skóladag sem er orðin brýn nauðsyn. Ég vil nefna skólamáltíðir og fækkun í bekkjardeildum. Allt eru þetta hin merkustu og ágætustu mál og þurfa að ná fram að ganga og ég er þeirrar skoðunar að þetta frv. þurfi að verða að lögum áður en þinghaldi lýkur hér.
    Ég er hins vegar ekki sáttur við það að ekki skuli hafa verið gerð gleggri grein fyrir kostnaðinum sem fyrirsjáanlega mun fylgja þessum lögum. Ég óskaði eftir því á fundi í hv. menntmn. að reynt yrði að afla gleggri talna um kostnað einkum og sér í lagi sveitarfélaganna við það að þetta frv. verði að lögum. Þær kostnaðartölur sem nefndin hefur fengið eru frá Fjárlaga - og hagsýslustofnun og eru eingöngu kostnaðartölur ríkisins. Þar er gert ráð fyrir því að kostnaðarauki ríkissjóðs vegna laganna verði á bilinu 208 -- 213 millj. kr. sem dreifist eða skiptist á fimm ár. Þetta er sundurliðað nokkuð og kemur m.a. fram að kostnaður vegna lengingar skóladags yngstu nemenda, þ.e. 1. -- 3. bekkjar, samtals 5 vikustundir, verði 36 millj. kr. á ári. Kostnaður við að lækka hámarksfjölda í yngstu bekkjardeildum í 22 nemi 42 millj. kr. á ári og námsráðgjöf í grunnskólum 75 -- 80 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir því að önnur atriði eins og kennsluafsláttur, níu mánaða starfstími og fleira sé um 55 millj. kr. Eða eins og ég sagði áðan á bilinu 208 -- 213 millj. kr. Hins vegar hefur ekkert komið fram skjalfest í nefndinni um það hver verður kostnaðarauki sveitarfélaganna vegna stofnkostnaðar, vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að sveitarfélögin þurfa að færa út kvíarnar í skólabyggingum vegna þessara laga. Og ég hefði kosið að það lægi ljósar fyrir
eitthvað um það hver verður kostnaður sveitarfélaganna. Ég hefði t.d. talið mjög eðlilegt að þeirri beiðni væri beint til Sambands ísl. sveitarfélaga að það léti reikna út kostnaðarauka sveitarfélaganna. Það hefði verið tiltölulega einfalt mál og ég hygg að Samband ísl. sveitarfélaga hefði tekið þeirri beiðni nokkuð vel.
    Á fund hv. menntmn. komu tveir fulltrúar frá Reykjavíkurborg. Annar þeirra fullyrti að kostnaðarauki Reykjavíkurborgar vegna grunnskólalaganna yrði 3 milljarðar kr. Á landsvísu yrði kostnaðarauki allra sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli um 8 milljarðar kr. Nú var mér ekki ljóst hvort þarna var á ferðinni lauslegur útreikningur starfsmanna Reykjavíkurborgar á frv. eða hvort þessar tölur eiga við veruleg rök að styðjast. Engu að síður, ef þessar tölur eru réttar, þó ekki væri nema að hluta til, þá er það alveg ljóst að kostnaðarauki sveitarfélaganna, sem ég hygg að sveitarfélögin hafi kannski enn þá ekki gert sér neina grein fyrir, verði umtalsverður.

    Ég hef oft sagt að það er allt of algengt hér á hinu háa Alþingi að hér er hleypt í gegnum þingið stórum lagabálkum, feiknalega kostnaðarsömum fyrir ríkissjóð, án þess að kannað sé rækilega hver kostnaðarauki, bæði ríkissjóðs og sveitarfélaganna í landinu, verður. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Við getum ekki endalaust gefið út óútfylltar ávísanir hér á hinu háa Alþingi, en það höfum við gert á undanförnum árum í æ ríkari mæli þrátt fyrir það að lög kveði á um annað. Það er í raun þetta atriði sem ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við, að það skuli ekki fylgja þessu frv. nákvæmari kostnaðaráætlun. Vera kann að það geti reynst erfitt að reikna út kostnað sveitarfélaganna með nákvæmum hætti. Það getur vel verið því aðstaða þeirra er mjög misjöfn til þess að framfylgja þessum lögum, m.a. vegna þess að skólahúsnæði er misjafnt, aðstaða er misjöfn til íþróttakennslu o.s.frv.
    Í franska þinginu er það regla að ef stjórnvöld leggja fram kostnaðarsöm frv. og ef þingmenn leggja fram kostnaðarsöm frv., þá verða bæði stjórnvöld og almennir þingmenn að leggja fram á móti tekjuöflunarfrv. Þetta er býsna góð regla og ég er ekki frá því að . . . ( Menntmrh.: Á ég að flytja eitt skattafrv.?) Það væri mjög gott. Úr því að hæstv. menntmrh. gerir þessa athugasemd þá er það nú svo að ég held að stór hópur hv. þm. geri sér ekki grein fyrir því að með því að samþykkja lög, kannski svipuð þessum sem við erum nú að fjalla um, eru hv. þm. auðvitað að hækka skatta. Þess vegna er það býsna kyndugt þegar heilir stjórnmálaflokkar lýsa því yfir, venjulega rétt fyrir kosningar, að þeir muni lækka skatta mjög verulega án þess að þeir segi fólkinu í landinu hvaða þjónustu þeir ætli að draga úr. Þetta er mjög einkennandi t.d. gagnvart heilbrigðiskerfinu þar sem stjórnvöld hafa svikist um það að ákvarða hvert skuli vera þjónustustig heilbrigðiskerfisins. En það á að reyna að gera allt fyrir alla, stundum fyrir peninga sem ekki eru til.
    Ég hygg að það væri öllum hv. þm. til góðs að fá uppgefnar nákvæmari tölur um það hvað þetta frv., þegar það verður að lögum, kostar sveitarfélögin. Við erum búin að fá tölurnar frá ríkinu, hvað það kostar ríkissjóð að gera út á þessi nýju lög, en ég ítreka það engu að síður að ég tel að í þessu frv. séu svo margir mikilsverðir þættir að okkur beri að reyna að afgreiða þessi lög áður en þing fer heim. Það er beðið eftir þessum lögum og það þarf að reyna að knýja á um að þau nái fram að ganga. Engu að síður, og ég endurtek það, vil ég að við gerum okkur grein fyrir því hvaða álögur við erum að leggja á sveitarfélögin og þá að við gerum sveitarfélögunum grein fyrir því hvernig við ætlum að gera þeim kleift að mæta þessum álögum, því að óbreyttu, séu þær tölur sem fulltrúar Reykjavíkurborgar komu fram með réttar, er það býsna mikil útgjaldaaukning sveitarfélaganna ef rétt er að hún verði um 8 milljarðar kr. vegna tilkomu þessara laga.
    Virðulegi forseti. Um þetta mál ætla ég ekki að hafa fleiri orð en ég óska sem sagt eindregið eftir því að það verði reynt áður en gengið verður frá þessu

máli hér á Alþingi að afla upplýsinga um kostnaðinn sem af þessu frv., ef að lögum verður, hlýst fyrir sveitarfélögin.