Fóstureyðingar
Föstudaginn 01. mars 1991


     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 741 frá minni hl. heilbr. - og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 25 22. maí 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Auk mín skipar hv. þm. Geir Gunnarsson minni hl. hv. nefndar. Nál. er svo, með leyfi forseta:
    ,,    Á fundum nefndarinnar hefur verið fjallað mjög lauslega um frv. Nefndinni gafst ekki tími til að fara yfir þær umsagnir sem bárust nema á einum fundi og dugði það hvergi nærri til. Minni hl. telur að ekkert hafi komið fram í störfum nefndarinnar sem mæli með því að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar með tilmælum um endurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Um efni frv. eru mjög skiptar skoðanir og ekki þarf nema lauslega athugun á umsögnum þeim sem bárust til að sjá að þessar andstæðu skoðanir koma þar skýrt fram. Því telur minni hl. að ekki sé hægt að afgreiða þetta mál á annan hátt en að taka til þess afstöðu: annaðhvort að samþykkja frv. óbreytt eða að halda núgildandi lögum í því horfi sem þau nú eru í og fella þar með frv. Minni hl. telur að konum sé fyllilega treystandi til að axla þá miklu ábyrgð sem þeim er falin samkvæmt núgildandi lögum en bendir jafnframt á brýna nauðsyn þess að ákvæðum núgildandi laga verið framfylgt hvað varðar ráðgjöf og fræðslu.
    Minni hl. er þeirrar skoðunar að ekki eigi að breyta núgildandi lögum í þá átt sem lagt er til í frv. og mælir því með því að frv. verði fellt.``
    Undir þetta ritar auk mín Geir Gunnarsson.
    Þannig hljóðar nál., hæstv. forseti. En mig langar til að bæta nokkrum orðum við af þessu tilefni. Ég tel það meginatriði, sem fram kemur í álitinu, að konum sé fyllilega treystandi til að axla þá ábyrgð sem þeim er lögð á herðar skv. núgildandi lögum og því ekki tilefni til að endurskoða lögin efnislega eins og þau eru í núverandi mynd. Hins vegar er það hrein hneisa að samfélagið skuli ekki bjóða öll börn velkomin í þennan heim og búa þannig að mæðrum og börnum, og þá ekki síst ungum einstæðum mæðrum og jafnvel ungu fólki í sambúð, að stundum blasi ekki annað við en basl og hörð barátta ef barn er í vændum. Um þetta atriði held ég að allir geti verið sammála. En staðreyndin er sú að þessi atriði eru í megnasta ólestri. Laun eru skammarlega lág, fæðingarorlof allt of stutt, leikskólar allt of fáir og stuðningur við foreldra alls ekki fullnægjandi. Ef fólk meinar eitthvað með því að öll börn eigi að vera velkomin í þennan heim, þá verður að gæta að þessum atriðum.
    Á meðan þessi mál verða ekki leyst verða fóstureyðingar af félagslegum ástæðum tæplega stöðvaðar. Ég vil benda á orð Jóns Þ. Hallgrímssonar yfirlæknis, Helgu Hannesdóttur geðlæknis og Guðrúnar Ögmundsdóttur félagsráðgjafa í umsögnum um þetta frv.

frá kvennadeild Landspítala Íslands. En í umsögninni er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Reynsla af núverandi löggjöf hefur sýnt að þau félagslegu vandamál sem eru forsendur fóstureyðingar eru oft mjög einstaklingsbundin og persónuleg. Þau verða oft ekki leyst nema með víðtækum hjálparaðgerðum og góðum stuðningi við konuna. Erfitt getur verið að setja sig í annarra spor í þessum efnum og hljóta því þeir sem um slík vandamál fjalla að taka tillit til mats einstaklingsins á eigin aðstæðum og vandamálum.`` Og síðar í sömu umsögn segir: ,,Reynsla erlendis frá hefur sýnt að þar sem félagslegar aðstæður eru ekki viðurkenndar eru fóstureyðingar stundum framkvæmdar á ólöglegan hátt og við ófullnægjandi aðstæður. Þessar aðstæður geta stefnt lífi og heilsu konunnar í voða. Með tilkomu núgildandi laga hefur þetta vandamál ekki verið til staðar á Íslandi að okkar dómi. Samkvæmt núgildandi lögum skal aðgerðin gerð á sjúkrahúsi og skal sérfræðingur í kvensjúkdómum samþykkja umsóknina fyrir hönd sjúkrahússins. Það er niðurstaða okkar að niðurfelling heimildar til fóstureyðingar vegna félagslegra forsendna sé á engan hátt raunhæf miðað við þær þjóðfélagsaðstæður sem við búum við í dag. Með þrengingu laganna yrði konum mismunað eftir fjárhag því að eins og alkunnugt er geta konur farið utan í fóstureyðingu, jafnvel til staða þar sem aðgerðir eru gerðar á konum sem eru enn lengra gengnar með en heimild er fyrir í löggjöfinni sem nú er í gildi á Íslandi. Slíkt mundi skapa félagslegt ójafnvægi og óréttlæti fyrir þá hópa kvenna sem hafa versta félagslega stöðu.``
    Annað atriði sem mér finnst óhjákvæmilegt að gera að umtalsefni hér er hve illa fræðslu - og ráðgjafarhluta laganna frá 1975 hefur verið sinnt. Það er algerlega óviðunandi. Á þessi atriði hefur oft verið bent í þingsölum en veitir greinilega ekki af að ítreka enn einu sinni. Ég vil taka undir orð landlæknis í umsögn hans um þetta frv. er hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Á Íslandi eru engar sérstakar göngudeildir sem annast fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir að undanskilinni einni kynfræðsludeild sem starfrækt hefur verið í Reykjavík síðustu 15 árin. Hafa skjólstæðingar þeirrar deildar einkum verið ungt fólk. Einstaklingar verða því að leita til heimilislækna eða kvenlækna með fræðslu og ráðgjöf um getnaðarvarnir. Forvarnarstarf af ýmsu tagi skipar æ mikilvægari sess innan heilbrigðisþjónustunnar. Fræðsla og ráðgjöf um getnaðarvarnir þjónar m.a. þeim tilgangi að koma í veg fyrir kynsjúkdóma og ótímabærar þunganir. Þótt tíðni fóstureyðinga hafi heldur farið lækkandi á allra síðustu árum sýna tölur þó að notkun getnaðarvarna er enn mjög ábótavant og þar með fræðslu og ráðgjöf þar að lútandi.``
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það að betri fræðsla og ráðgjöf mundi fækka ótímabærum þungunum. Mál er til komið að framfylgja ákvæðum laganna frá 1975 að því er þetta varðar. Ég ítreka, ekki er þörf á að breyta efni laganna frá 1975. Það er fráleitt annað en að treysta konum til að taka jafnmikilvæga ákvörðun

í lífi sínu og þau lög heimila. En við verðum að veita þeim fræðslu, ráðgjöf og síðast en ekki síst stuðning þegar út í lífsbaráttuna er komið til þess að geta staðið undir því nafni að teljast bjóða börn velkomin í þetta samfélag.