Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum sem er á þskj. 725. Því miður varð ekki fullkomin samstaða í hv. nefnd um afgreiðslu þessa máls og liggja hér fyrir allmörg nefndarálit. Meiri hl. nefndarinnar skipa Stefán Guðmundsson, Halldór Blöndal, Jóhann Einvarðsson og Guðmundur H. Garðarsson. Í nefndarálitinu segir svo:
    ,,Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. Til fundar við nefndina komu Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jón B. Jónasson og Kristján Skarphéðinsson frá sjútvrn., Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, Hólmgeir Jónsson og Guðmundur Hallvarðsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson og Helgi Laxdal frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri í félmrn., Sæmundur Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenskra sjávarafurða hf., Friðrik Pálsson, forstjóri SH, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og Jón Ólafsson frá Félagi íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Guðmundur Kristjánsson, formaður Félags útgerðarmanna á Snæfellsnesi, Sturla Böðvarsson, formaður Hafnasambands sveitarfélaga, Sverrir Hermannsson bankastjóri, Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri Félags rækju- og hörpudiskframleiðenda, Þorsteinn Gíslason og Jón Reynir Magnússon frá Síldarverksmiðjum ríkisins. Margir þeirra sem komu til viðræðna við nefndina lögðu fram skrifleg gögn en auk þess bárust umsagnir frá bæjarstjórnum Eskifjarðar, Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar og hreppsnefndum Þórshafnar - og Raufarhafnarhrepps.
    Fjölmargir fyrrgreindra aðila hafa lýst yfir stuðningi við frv. enda þótt ljóst sé að með þeim aðgerðum, sem lagðar eru til, verður ekki allur vandi vegna aflabrests í loðnuveiðum leystur. Nefndin náði ekki samkomulagi um afgreiðslu frv. og skilar minni hl. hennar séráliti.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem eru eingöngu til leiðréttingar. Er gerð tillaga um þær á sérstöku þingskjali.`` En það er þskj. 726 og er aðeins um orðalagsbreytingar að ræða og lagfæringu.
    Af lestri mínum má sjá að nefndin tók til starfa og ég vona að hún hafi reynt að vinna þetta verk af samviskusemi. Margir voru kallaðir fyrir nefndina sem vissulega áttu hagsmuna að gæta og við lögðum nokkra vinnu í að komast í gegnum þetta mál. En eins og ég sagði í upphafi voru mér það vonbrigði að við skyldum ekki geta náð samkomulagi í þessu máli. Hér er auðvitað um gífurlega mikið mál að ræða og þarf vissulega að taka á þessum málum. Ég trúi því að að því sé nú unnið á ýmsum stöðum, ekki bara í sjútvrn. heldur víða annars staðar. Það er áhyggjuefni þegar svona hlutir gerast og þarf örugglega að taka rösklega til hendi. Það er umhugsunarefni hvernig við getum náð þeirri arðsemi og hagkvæmni sem þarf að ná í þessari atvinnugrein þar sem við erum með 44

loðnuskip og 21 verksmiðju. Þessar verksmiðjur eru reknar af 16 fyrirtækjum á 16 stöðum á landinu. Það eru sem sagt 44 skip á móti 21 verksmiðju. Það hlýtur hverjum sjáandi manni að vera ljóst að sú arðsemi sem þarf að nást í þessari atvinnugrein næst ekki með þessu móti.
    Hér fóru fram allítarlegar umræður þegar hæstv. ráðherra kynnti þær hugmyndir að Hagræðingarsjóður verði notaður til þess að bæta það tjón sem þarna verður. Vissulega er það ekki nema að litlum hluta. Það er gert til þess að forðast að þurfa að fara í flatan niðurskurð á fiskveiðiflotanum. Til þess að þurfa ekki að taka úthlutaðar aflaheimildir sem hann hefur þegar í dag er brugðið á það ráð að nota þær aflaheimildir sem Hagræðingarsjóðurinn hefur, um 8 þús. tonn, og svo einnig hitt að auka veiðar á rækju sem að mati fiskifræðinga er óhætt að gera. Ástand úthafsrækjustofnsins er gott og þeir töldu þess vegna að óhætt væri að veiða þar þau 5 þús. tonn til viðbótar sem ráð er gert fyrir hér. Það eru sem sagt nálægt því 14 þús. þorskígildistonn sem þarna eru færð til loðnuskipanna.
    Vissulega verður að grípa til margra annarra aðgerða ef ekki rætist úr loðnuveiðunum. Það er öllum ljóst. Hér er aðeins tekið á vanda þeim varðandi heimildir til að ráðstafa úr Hagræðingarsjóði eins og ég hef getið um áður. Það þarf að taka á vanda verkafólks sem missir atvinnu vegna þessa aflabrests og ég trúi því að Síldarverksmiðjur ríkisins athugi það mál af mikilli kostgæfni hvernig megi koma til móts við það ágæta fólk sem um áraraðir hefur starfað hjá þeim. Ég vil benda á að örugglega er það allvíða og sjálfsagt í flestöllum verksmiðjunum sem væri mjög skynsamlegt að taka svolítið til hendi með margvísleg viðhaldsverkefni sem ekki hafa verið framkvæmd árum saman og gætu þannig skapað mörgum manninum úr verksmiðjunum atvinnu sem annars mundi missa hana. Einnig þarf að íhuga vanda viðkomandi staða. Ég veit að að þessum málum er mjög unnið í dag. Við heyrðum það hjá þeim aðilum sem kallaðir voru fyrir okkur. Bæði var um skuldbreytingar og annað að ræða, lengingu lána. Það vitum við að er í gangi.
    Það er margt annað sem mér finnst koma til greina og ég gat um og vil aðeins nefna hér. Mér finnst mjög koma til greina að beita þessum ágæta skipakosti sem loðnuskipin eru. Þetta eru mjög góð og fullkomin skip með hinum hæfustu sjómönnum. Mér fyndist að það ætti mjög að skoða það að beita þeim nú í tilraunaveiðar, t.d. á kolmunna, styrkja þau til þeirra veiða. Og einnig og ekki síður, sem ég hefði áhuga fyrir að væri gert, að sett væri nokkurt fjármagn í það að styrkja a.m.k. tvö góð loðnuskip til tilraunaveiða á rækju við Svalbarða. Ég held að það væri mjög merkileg tilraun að gera slíkt og það mundi skila okkur miklum fróðleik og ég er sannfærður um að það mundi skila okkur hagnaði að auki.
    Við vitum að það er margoft á ári sem loðnuverksmiðjurnar eru að kaupa heilu farmana af rækju sem veidd er við Svalbarða af erlendum veiðiþjóðum. Því

hef ég oft velt því fyrir mér, hvernig það má vera að við skulum ekki í auknum mæli hafa stutt þessi skip til þess að stunda slíkar tilraunaveiðar, t.d. við Svalbarða? Ég er nærri sannfærður um að hægt væri að ná mjög skynsamlegum og góðum samningum við íslenska útgerðaraðila um það að fara út í slíka veiði.
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að eyða lengri tíma í þessa framsögu en ég fagna því auðvitað, vegna þess að það er ekkert mjög langt síðan við fjölluðum um fiskveiðistjórnunina, þegar lögunum var breytt, að menn töluðu í ýmsum tóntegundum um þennan sjóð, Hagræðingarsjóð, og ekki alltaf í vinsamlegum tón. Því er það mér gleðiefni, sem talaði fyrir þessum sjóði og hef talað heldur hlýlega til hans og talið að hann væri af hinni bestu gerð og mætti nota hann til margra góðra hluta. Það var eins og menn, sem töluðu gegn þessum sjóði, meira að segja hagsmunaaðilarnir sjálfir, vöknuðu af vondum draum þegar aflabrestur varð í loðnuveiðum og áttuðu sig þá á því að þessi Hagræðingarsjóður var til og sjálfsagt væri að nota hann til þess að jafna þessa miklu sveiflu. ( EgJ: Hann bjargar ekki fiskunum í sjónum við það.) Nei, hann bjargar ekki fiskunum í sjónum, það er rétt. Enda eru þeir nú að mestu veiddir. ( EgJ: Það fjölgar þeim.) En það má nota Hagræðingarsjóð, hv. þm., til margra góðra hluta alveg eins og menn hafa gert með ýmsa sjóði sem þessi ágæti þingmaður þekkir í landbúnaðinum. Hann er nýkjörinn stjórnarmaður Búnaðarfélags Íslands. Þar hafa ýmsir sjóðir verið stofnaðir sem hafa verið notaðir og komið að góðum notum fyrir landbúnaðinn. En við eigum eftir að ræða það mál alveg sérstaklega.
    Ég vil einnig segja að ég held að þetta sé gott mál. Að vísu hefði maður viljað sjá aðeins öðruvísi útfærslur á þessu. Mér er það ekkert launungarmál en ég geri ekki athugasemdir við það. En þetta sýnir okkur að við höfum verið á réttri leið með fiskveiðistjórnun og þau lög sem gengu þá í gildi. Margt er einmitt að sanna sig þessa dagana með samruna fyrirtækja og mikilli hagræðingu. Mér var það mikið gleðiefni þegar ég las það í blöðunum og hef haft fréttir af því núna allra síðustu daga, hve mikið er raunverulega að gerast á því sviði. Menn eru að sameina fyrirtæki og hagræða alveg gífurlega í þessari atvinnugrein. Ég heyrði það í fréttum og las um það í blöðum og hef átt viðræður um það við menn, t.d. um þær miklu aðgerðir sem eru í gangi í kjördæmi hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar. Það er mikið gleðiefni hvað fiskveiðistjórnun er tekið af mikilli skynsemi af þeim mönnum sem búa á Vesturlandi. Þeir nota fiskveiðistjórnun til þess að hagræða hjá sér og skipuleggja í atvinnugreinum. Það er einn þátturinn af fiskveiðistefnunni að ná fram þeirri hagkvæmni sem við þurfum að hafa til þess að ná nógu mikilli arðsemi út úr þessari atvinnugrein þannig að við getum keppt við þær erlendu þjóðir sem nú sækja svo mjög í þetta hráefni okkar. Þannig getum við stuðlað að því að þessi þjóð verði ekki bara veiðiþjóð í sínu landi heldur einnig og ekki síður fiskvinnsluþjóð.