Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Það var af mikilli hógværð sem frsm. nál. meiri hl. sjútvn., hv. 3. þm. Norðurl. v. Stefán Guðmundsson, sagði að ekki hefði náðst fullkomin samstaða í sjútvn.
Það er nú varla hægt að kalla að það sé neitt nálægt því að vera samstaða þegar nefndin skiptist í þrjá hópa og formanninum tókst aðeins að ná meiri hluta með því að fá tvo stjórnarandstæðinga til að standa að nál. með sér. En lítillæti hv. þm. Stefáns Guðmundssonar er mikið enda bar ræða hans öll vott um það að hann væri harla ánægður með þá stöðu sem nú væri í stjórn fiskveiða og stöðu þess málaflokks yfirleitt. Hann nefndi ýmis dæmi um hvað ýmsir hlutir væru að gerast á hinn betri veg, t.d. að í Vesturlandi væru menn að átta sig á því að þeir ættu að taka mið af því hvernig fiskveiðum væri stjórnað og það væru þeir að gera, að mér skildist, og ég trúi að það hafi verið sameining fyrirtækja á Akranesi fyrir nokkrum dögum. Ekki ætla ég að blanda mér í það að meta hvort það hafi verið þróun á hinn betri veg eða á hinn síðri. En ég horfi til Norðurl. v. með sameiningu fyrirtækja og hefðu þeir átt að átta sig á því áður en Þormóður rammi var seldur að það hefði kannski átt að sameina Fiskiðju Sauðárkróks og Þormóð ramma til þess að sameiningin og möguleikar þeirrar fiskveiðistefnu sem við búum við hefðu getað nýst til fulls í kjördæmi hv. þm. En því miður er nú líkast til gengin tíð að hægt sé að sameina nokkurt fyrirtæki við Þormóð ramma vegna þess að þar hafa eignarskipti orðið á þann veg að það munu vera Siglfirðingar fyrst og fremst sem standa að því en kannski hefði verið möguleiki áður en eignabreytingin var gerð, ríkið seldi sinn hlut, að sameina fyrirtækin Fiskiðju Sauðárkróks og flytja allt til Siglufjarðar sem er mikið nær miðunum en Sauðárkrókur og hefði orðið af því heilmikil hagræðing.
    En þetta er ekki það mál sem við ætlum að fjalla um hér. Við vorum búin að lofa því að vera ekki með langar ræður á þessum fundi og höfum takmarkaðan tíma til að skila þessu máli héðan úr deildinni. Við sem myndum 1. minni hl. nefndarinnar, ég og hv. þm. Karvel Pálmason, höfum lagt fram nál. og brtt. Ég ætla að leyfa mér að lesa nál. okkar, kannski með nokkrum athugasemdum.
    ,,Fyrsti minni hl. nefndarinnar telur að eftirtalin atriði mæli gegn því að frv. þetta verði samþykkt:
    1. Engin efni standa til þess að úthluta bolfisksaflaheimildum til annarra skipa en þeirra sem hafa aflað sér þeirra með reynslu. Það er fráleitt að ætla að leysa núverandi vanda loðnuskipa með því að úthluta þeim aflaheimildum úr öðrum fiskstofnum, þorski eða öðrum bolfiski. Gegn þeirri aðgerð mælir og að aflamark af þorski hefur verið skert um tæp 24% frá árinu 1987 og við blasir enn stórkostlegri skerðing, jafnvel 40 -- 50%, á næsta og næstu fiskveiðiárum.``
    Ég vil taka það fram og undirstrika að þegar við segjum að ekki sé rétt að úthluta aflakvóta til skipa

öðruvísi en það byggist á reynslu, að aðalatriðið í úthlutun á aflakvóta miðað við það kerfi sem við búum við, þá fiskveiðistjórn sem við búum við, byggist einmitt á því. Hér er verið að brjóta hefð sem hefur verið í gildi undanfarin ár.
    ,,Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um aflahorfur 1991 segir á bls. 11, þar sem fjallað er um þorskinn:
    ,,Ef veidd verða 350 þús. tonn árin 1991 og 1992 mun veiðistofninn minnka úr 850 þús. tonnum í ársbyrjun 1991 í 630 þús. tonn í ársbyrjun 1993 og hrygningarstofn um 140 þús. tonn. Veiðidánarstuðlar munu fara hækkandi og árgangar endast illa, enda afli 40 -- 50% af stofnstærð. Verði aflinn takmarkaður við 300 þús. tonn mun veiðistofn minnka um 100 þús. tonn og hrygningarstofn um 70 þús. tonn. Við 250 þús. tonna afla á ári mun veiðistofn og hrygningarstofn nánast standa í stað næstu tvö árin. Fjórði kosturinn, 200 þús. tonna afli á ári, yrði til þess að veiðistofn og hrygningarstofn stækkuðu allnokkuð næstu árin. Veiðidánarstuðlar yrðu verulega lægri.``
    Við þessar aðstæður sem lýst er í skýrslu Hafrannsóknastofnunar er verið að leggja til hér á hv. Alþingi að tekin séu um 8 þús. tonn af stofnstærð bolfisksveiðikvótans og hann færður til loðnuflotans. Þetta eru rangindi sem við teljum að standist ekki. Vandamál þorskveiðiflotans eru ekki minni en loðnuflotans, það blasir við framtíðarvandi hjá þorskveiðiflotanum sem við vonum að sé ekki hjá loðnuskipunum.
    ,,Vandi útgerða, sem stunda þorskveiðar, er því nægur fyrir og á þann vanda er ekki bætandi, hvorki í dag eða á næstu missirum, með því að færa núverandi eða væntanlegar aflaheimildir þeirra til óskyldra útgerða. Þar breytir engu um hvort þeim aflaheimildum verður ráðstafað skv. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða eða samkvæmt þeirri aðferð sem lögð er til með þessu frv., þ.e. að taka svokallaðar aflaheimildir Hagræðingarsjóðs og úthluta þeim í þessum tilgangi. Í báðum tilfellum væri verið að taka væntanlegan afla frá bolfiskveiðiskipum með ,,flötum niðurskurði`` og færa hann til loðnuskipanna.``
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson og hæstv. sjútvrh. halda því fram að með því að taka þann kvóta sem ætlaður er Hagræðingarsjóði sé ekki verið að taka hann frá öllum skipunum. Það er alveg ótrúlegt að jafngáfaðir menn, eins og hefur oft verið sagt hér í hv. Alþingi að þessir menn séu, og þó sérstaklega hæstv. sjútvrh., skuli halda þessu fram stöðugt í ræðum sínum og Stefán Guðmundsson endurtók það enn. Ef tekið er ákveðið magn, það skiptir ekki máli hvort það er gert með svokölluðum flötum niðurskurði eins og þeir hafa talað um í 9. gr. eða hvort það er tekið á þann máta sem hér er lagt til, þá hverfur nákvæmlega sama magnið úr þorskveiðistofninum og veiðiheimildirnar minnka hjá þorskveiðiskipunum alveg á sama máta.
    ,,2. Takmörkun loðnuveiði í ár hefur valdið erfiðleikum í útgerð loðnuveiðiskipa. Erfiðleikar eru líka hjá sjómönnum á loðnuskipunum og verkafólki, sveitarfélögum, loðnuverksmiðjum, hafnarsjóðum, netaverkstæðum, verslunum og ýmsum þjónustustofnunum í byggðunum þar sem loðna hefur verið tekin til vinnslu.``
    Ég vil undirstrika að mjög óljósar upplýsingar liggja fyrir um hvernig á að leysa vanda þessara aðila sem ég hef verið að nefna, annarra en útgerða loðnuskipa, og sumir eru alls ekki nefndir á nafn, t.d. hafnarsjóðir, í umfjöllun stjórnvalda. Ef bæta á áfall eins og aflabrest með samfélagslegri aðgerð, eins og lagt er til með þessu frv., er óeðlilegt og ranglátt að taka þar aðeins einn þátt og bæta þar skaða en skilja aðra eftir án kvóta, jafnvel þótt tjón þeirra sé enn meira.
    Það var svolítið merkilegt að heyra í ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að hann nefndi hér Síldarverksmiðjur ríkisins, að þær þyrftu nú að taka sig til og bæta stöðu þess verkafólks sem atvinnuleysi blasir við og hefur verið atvinnuleysi hjá. Ég sé ekki að það eigi að ganga frá hlutum þeirra öðruvísi en með einhverri óskhyggju hér í ræðustól á Alþingi. Ef á að bæta stöðu þessa fólks og ef á að bæta stöðu þeirra aðila sem ég nefndi hér á undan, hafnarsjóða, sveitarsjóða, verksmiðjanna sjálfra og verkafólksins, fyrst og fremst verkafólksins og sjómannanna á loðnuskipunum, á að gera það með lagasamþykkt eins og verið er að leggja til að gera sérstaklega fyrir útgerðir loðnuskipanna. Allt annað er bara tal um hluti sem ekki á að gera, fyrst verið er að taka þennan sérstaka þátt út úr og lögfesta aðgerðir í kringum hann.
    ,,3. Með 1. gr. frv. er lagt til að sjútvrh. verði heimilt að úthluta allt að 8 þús. þorskígildislestum af veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til loðnuveiðiskipa og þar með að gera sjóðinn að aflatryggingasjóði fyrir útgerð þessara skipa.``
    Ég minnist þess vel að hv. þm. Stefán Guðmundsson mælti mjög með stofnun Hagræðingarsjóðs á síðasta vori. Og ég minnist þess líka að ég óttaðist að þessi sjóður mundi varla standa undir nafni og ég óttaðist það að einmitt svona hlutir eins og hér er verið að leggja til mundu gerast. Að Hagræðingarsjóðnum yrði ekki beitt á þann veg sem Stefán Guðmundsson mælti fyrir um hér í hv. deild á sl. vori, enda er sú raunin á að nú er verið að gera Hagræðingarsjóð að aflatryggingasjóði ákveðins hluta útgerðarinnar á Íslandi. Handa litlum hluta útgerðar á Íslandi er Hagræðingarsjóður tekinn og gerður að aflatryggingasjóði, sem þessir sömu aðilar höfðu hafnað að yrði stofnaður á þeirra eigin vegum þegar unnið var að undirbúningi fiskveiðilaganna í fyrra.
    Hvað getur verið ljósara en þetta að menn séu að hlaupa frá þeim markmiðum sem þeir settu sér og ætluðu að vinna að en það frv. sem hér liggur fyrir til umfjöllunar og afgreiðslu. Það er kannski rétt að undirstrika þetta með því að lesa kafla úr nál. hv. formanns sjútvn., Stefáns Guðmundssonar, og Jóhanns Einvarðssonar um frv. til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem þeir félagar lögðu fram í hv. Ed. 30. apríl 1990. Þar segir um hlutverk Hagræðingarsjóðs, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi aukið hlutverk sjóðsins`` --- og nú legg

ég til að hv. þm. Stefán Guðmundsson rifji það upp sem hann lagði fyrir hv. deild fyrir ári síðan. (Gripið fram í.) Hv. þm. þarf nú sjálfsagt ekki að vera að skrifa þetta því ég geri ráð fyrir að hann kunni þetta, öll sín góðu fyrirheit frá fyrra ári, hann þurfi ekki að vera að skrifa það niður, en það er gott fyrir hann að rifja það upp í huganum. Og þetta er svohljóðandi:
    ,,Varðandi aukið hlutverk sjóðsins leggur 1. minni hl. til``, en hann skipuðu þeir hv. þm. sem ég nefndi hér áðan, Stefán Guðmundsson og Jóhann Einvarðsson, ,,að gerðar verði breytingar á 1. gr. og að bætt verði inn nýrri grein á eftir 7. gr. Gert er ráð fyrir að nafni sjóðsins verði breytt úr ,,Úreldingarsjóður fiskiskipa`` í ,,Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins```` --- og var nú mikil breyting, alveg gjörbreyting á sjóðnum --- ,,og honum fengið það tvíþætta hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa og koma til aðstoðar í byggðarlögum sem höllum fæti standa vegna sölu fiskiskips eða fiskiskipa þaðan. Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins verði þó bundið við að sala skipa úr byggðarlaginu leiði til fyrirsjáanlegrar fækkunar starfa og að byggðaröskun sé yfirvofandi af þeim sökum. Allt að helming þeirra veiðiheimilda, sem gerð er tillaga um að sjóðurinn fái úthlutað, geti sveitarstjórnir fengið til ráðstöfunar þar sem þær aðstæður hafa skapast sem réttlæta aðstoð af hálfu sjóðsins, enda hafi bæði Byggðastofnun og stjórn Hagræðingarsjóðs samþykkt aðstoðina. Með þessu ákvæði er tryggt að slík aðstoð fái ítarlega umfjöllun.``
    Ég efast ekki um að hv. þm. muni sérstaklega eftir þessari setningu: ,,Með þessu ákvæði er tryggt að slík aðstoð fái ítarlega umfjöllun. Úthlutun veiðiheimilda í þessu skyni verði bundin við að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.`` --- Og ekki síður þessari setningu. ,,Stjórn Hagræðingarsjóðs skal ákveða verð fyrir slíkar veiðiheimildir er taki mið af gangverði sambærilegra heimilda á hverjum tíma með sama hætti og við á um þann hluta veiðiheimilda sjóðsins sem fiskiskip fá árlega forkaupsrétt á. Nýti sveitarstjórnir ekki slíkan ráðstöfunarrétt verða heimildirnar boðnar út til skipa gegn sömu skilyrðum um ráðstöfun aflans, þ.e. að honum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Fáist hins vegar ekkert skip til veiðanna er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða lægra endurgjald eða fella það niður. Ólíklegt er hins vegar að ætla að slík staða komi upp þar sem fiskiskipaflotinn er það afkastamikill að fremur auðvelt ætti að vera að fá skip til veiðanna.``
    Svo mörg voru þau orð. Mér finnst að þau falli ekki alveg heim og saman við það sem hv. þm. var að segja hér í ræðustól áðan, að hann fagni því að Hagræðingarsjóður sinni því hlutverki sem honum er ætlað með því frv. sem hér er verið að fjalla um, þ.e. eins og ég nefndi, að gera hann að aflatryggingarsjóði fyrir loðnuveiðiflotann og í þessu tilfelli aðeins að leysa vandamál takmarkaðs hóps þeirra fjölmörgu aðila sem verða fyrir skaða vegna takmörkunar loðnuveiða.
    ,,Síðastliðið vor settu nokkrir alþingismenn það sem

skilyrði fyrir samþykkt sinni á frv. um stjórn fiskveiða að frv. um Hagræðingarsjóðinn yrði að lögum og hlutverk sjóðsins yrði á þann hátt sem fram kemur í áðurnefndu nefndaráliti.`` --- Ég geri ráð fyrir því að nefndarmenn muni eftir þeirri umræðu sem átti sér stað, og menn urðu varir líka við að átti sér stað í þingflokkunum í sambandi við afgreiðslu bæði fiskveiðistjórnunarlagafrv. og frv. um Úreldingarsjóð fiskiskipa sem síðar varð að lögum undir nafninu Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins. Það sem tryggði að fiskveiðistjórnarfrv. var samþykkt hér á hv. Alþingi, og kannski fyrst og fremst í hv. Ed., var það að sumir þingmenn höfðu trú á því að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins gæti sinnt og mundi sinna því hlutverki sem lýst var í nál. þeirra félaga. En svo virðist ekki raunin verða á.
    ,,Því var lofað að gengið yrði vel frá því hvernig ráðstafa mætti úr sjóðnum væntanlegum veiðiheimildum, þar sett ýmis skilyrði og enn fremur að stjórn Byggðastofnunar og stjórn Hagræðingarsjóðs skyldu samþykkja ef um aðstoð yrði að ræða.``
    Þessi yfirlýsing þeirra þingmanna er í sjálfu sér mjög merkileg. Yfirlýsing um það að stjórn Hagræðingarsjóðs skyldi samþykkja alla úthlutun úr sjóðnum. Og ekki nóg með að stjórnin samþykki það, sem eðlilegt var, heldur skyldi stjórn Byggðastofnunar líka samþykkja það. Mér er ekki kunnugt, og nú leyfi ég mér að spyrja hv. formann sjútvn., formann stjórnar Byggðastofnunar. ( Gripið fram í: Það er ekki sami maðurinn.) Það er ekki sami maðurinn, þá bið ég afsökunar á því. (Gripið fram í.) Varaformaður. Í báðum tilfellum meinti ég sama manninn, hv. þm. Stefán Guðmundsson, hann er í stjórn Byggðastofnunar, hvort þetta mál hafi verið tekið til umfjöllunar í Byggðastofnun. Mér er vel ljóst að það var mjög erfitt að koma því til umfjöllunar í stjórn Hagræðingarsjóðs vegna þess að ekki mun vera búið að skipa þá stjórn enn þá, þannig að flýtirinn á því að breyta verkefnum sjóðsins var það mikill að ekki gafst tími til þess að skipa stjórn í sjóðinn. En hin stofnunin mun þó vera til og stjórnin mun vera til og það væri gaman að fá upplýsingar um það hvort Byggðastofnun hefur ekki fjallað um þessa sérstöku og nýju úthlutun úr Hagræðingarsjóði.
    Við teljum að með þessu frv. sé lagt til að með lagabreytingu eigi nú að ganga yfir öll fögru loforðin um Hagræðingarsjóð og líka ganga yfir öll þau skilyrði sem sett voru fyrir því hvernig ætti að úthluta úr Hagræðingarsjóði.
    Er hægt að bjóða hv. Alþingi upp á það að sjóði, sem samþykkt var að stofna á sl. vori og átti að taka til starfa 1. jan. sl., skuli nú vera lagt til hér á hv. Alþingi að breyta, bæði markmiðum hans og hvernig standa eigi að ráðstöfun á þeim aflaheimildum sem í sjóðinn kunna að koma? Það má nærri því segja að áður en lögin um þann sjóð tóku gildi var farið að fjalla um þetta. Og áður en búið er að skipa stjórn í sjóðinn er farið að ráðstafa þessum eignum, veiðiheimildum.
Mér finnst þetta ótrúleg óskammfeilni, ef það má orða

það þannig. Fá samþykkt fyrir nokkrum mánuðum frv. á hv. Alþingi með fögrum fyrirheitum til styrktar byggð í landinu og fá samþykkt um leið frv. um fiskveiðistjórn sem byggðist að sumu leyti, meiri hlutinn, á því að þessi sjóður yrði myndaður. Og síðan á að breyta þessum sjóði og láta hann þjóna allt öðru markmiði en honum var ætlað, markmiði sem um var fjallað þegar verið var að undirbúa lögin um fiskveiðistjórnunina, þ.e. að loðnuflotinn sjálfur tryggði stöðu eins og þá sem nú er komin upp með því að leggja ákveðinn hluta af aflaverðmæti sínu í sjóð til að mæta slíkri uppákomu. Því var hafnað og í staðinn þrýst inn svokallaðri 9. gr. Það skyldi leysa allan vanda annarra skipa en þorskveiðiskipa. Búinn til aflatryggingarsjóður með 9. gr. fyrir öll sérveiðiskip á Íslandi. En dugurinn er ekki meiri en svo að þeir hafa ekki kjark til að nota þessa 9. gr., sem átti að leysa öll vandamál, heldur er gripið til þess ráðs að nota Hagræðingarsjóðinn sem átti að þjóna allt öðru, slík er reisnin. Slík eru reyndar vandamálin stöðugt að eiga sér stað í sambandi við stjórn fiskveiða. Það er hlaupið frá einum vanda yfir í annan og annar miklu stærri vandi alltaf búinn til með þeim leiðréttingum sem reynt er að gera. En það er nú annað mál.
    Við í 1. minni hl. leggjum til að frv. verði breytt og að í stað 1. gr. komi ný grein um að stofnaður verði Viðlagasjóður loðnuútgerðar. Hans hlutverk verði að bæta afkomu loðnuútgerðar vegna aflabrests o.fl. Þetta er nákvæmlega sama till. og við nokkrir héldum fram að ætti að standa í stað 9. gr. í fiskveiðistjórnarlögunum.
    Við leggjum einnig til að á eftir 1. gr. komi þrjár nýjar greinar er fjalli um starfsemi Viðlagasjóðsins.
    Þá er till. 1. minni hl. sú að á eftir 2. gr. frv. bætist tvær nýjar greinar. Í fyrsta lagi um að ríkissjóði verði heimilt að ábyrgjast lán sem Viðlagasjóður loðnuútgerðar taki til að endurlána útgerðum loðnuveiðiskipa. Upphæð lánsins yrði jafngildi markaðsverðs 8.000 þorskígildislesta. Í öðru lagi um það að aflahlutum Hagræðingarsjóðs verði á yfirstandandi fiskveiðiári aðeins varið til eflingar fiskvinnslu í þeim byggðarlögum sem höllum fæti standa.
    Þessar till. báðar koma heim og saman við það sem ég nefndi að hefði verið rætt á síðasta ári um tryggingarsjóð loðnuskipanna sjálfra en við bætist nú það vandamál að aflabresturinn er duninn yfir og þá þarf að taka á þeirri staðreynd. Við leggjum til að loðnuskipin geti fengið lán að upphæð sem jafngildi markaðsverði þeirra 8.000 þorskígildatonna sem lagt er til að tekið verði af bolfiskveiðistofninum og flutt til loðnuskipanna til að standa af sér það skakkafall sem nú blasir við.
    Við vitum öll að meginhluti þess afla sem úthlutað verður, ef þetta frv. verður samþykkt, verður ekki notaður af skipunum sjálfum. Það verður selt og verður þess vegna alveg nákvæmlega eins á milli handa þeirra sem peningar og það sem boðið er upp á með brtt. okkar. Hitt er svo annað mál að með því að frv. verði samþykkt er loðnuútgerðum sérstaklega afhent verðgildi þessara 8.000 tonna, það er hártoganlegt

hvað verðgildið er. Sumir hafa nefnt að það sé allt upp í 250 millj. Er nú reisn okkar á hv. Alþingi orðin nokkuð drjúg ef við treystum okkur til þess með einni lagasamþykkt að færa einum útgerðarhóp, einum þeirra aðila sem verða fyrir skakkaföllum vegna loðnubrestsins 250 millj., með öllum fyrirvara um verðgildi, á silfurfati. Skyldu ekki vera ýmsir aðilar í þjóðfélaginu sem hefðu eins mikla þörf fyrir þetta og þessar útgerðir, þó ég sé ekki að gera lítið úr þeirra þörf? Ég er alveg hissa á þingmönnum eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal, sem gengur í salinn, að hann skuli leggja til slíkar skattálögur, maðurinn sem hefur barist hér fyrir því undanfarandi þing að minnka skattálögur meðal þjóðarinnar. En hann hikar ekki við að standa að nál. með hv. þm. Stefáni Guðmundssyni um að 200 -- 250 millj. skuli þegjandi og hljóðalaust og án þess að nokkur taki raunverulega eftir því fluttar til ákveðins hóps útgerðar á landinu. Mér þykir verra ef hv. þm. veit ekki alveg hvað hann hefur verið að gera og finnur ekki nál. en ég vænti þess að hann átti sig á því að hér hefur hann lagt til og gengið hvað lengst í skattlagningu sem hægt er að ganga.
    Þá leggjum við til að fyrirsögn frv. verði breytt til samræmis við fyrri till. okkar og að sjútvrh. leggi fram frv. á Alþingi haustið 1991 um Viðlagasjóð loðnuútgerðar. Þessi till. okkar er með hliðsjón af lögunum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og að öðru leyti með það vel í huga að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar settist að völdum í september/október 1988 var gripið til þess ráðs til að styrkja Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins að taka lán til að geta stutt við sjávarútvegsfyrirtæki meðan ríkisstjórnin var að ná áttum í því hvað hún ætlaði að gera í framtíðinni. Það lán mun ekki hafa verið greitt en tilætlun okkar er sú að það lán sem hér er lagt til verði greitt á næstu árum í gegnum Viðlagasjóð loðnuútgerðar.
    Með þessum brtt. er útgerðum loðnuskipa boðið upp á lausn á þeirra vanda á svipaðan hátt og ríkisstjórnin telur að leysa eigi vanda annarra aðila í þjóðfélaginu, þeirra er orðið hafa fyrir tekjuskerðingu vegna takmarkana á loðnuveiði. Ef brtt. 1. minni hl. við 1. gr. frv. verður felld koma til afgreiðslu tvær aðrar tillögur, brtt. við 1. gr. um að helmingi aflaheimilda samkvæmt greininni skuli skipta milli þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir beinum tekjumissi vegna loðnubrestsins, og að á eftir 1. gr. komi ný grein um að aflaheimildir skv. 1. gr. verði ekki framseljanlegar nema með samþykki stéttarfélags sjómanna á útgerðarstað loðnuskips.
    Þessar till. eru því varatillögur og verða kallaðar aftur að samþykktri aðaltillögunni við 1. gr. Þær eru bornar fram til að freista þess að verða við tilmælum flestra viðmælenda nefndarinnar um að reyna að bæta hag annarra aðila en útgerða loðnuskipa sem orðið hafa fyrir tekjutapi vegna loðnubrestsins.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir er meðflm. okkar undirritaðra að brtt.
    Nefndin hefur fengið í hendur álit margra félaga og

samtaka. Fulltrúar annarra hafa komið á fund nefndarinnar. Margir eru mjög mótfallnir frv., og þó sérstaklega 1. gr. þess. Aðrir mæla með samþykkt þess en þá mjög skilyrtri í flestum tilfellum.
    Einmitt þetta, sem ég nefndi hér síðast, tel ég rétt að komi hér fram, hvernig þeir aðilar sem mæla með samþykkt frv. hafa skilyrt samþykkt sína. Og ætli það sé ekki rétt að ég taki fyrirmyndina úr rauða bænum, Neskaupstað, og lesi hér, með leyfi hæstv. forseta, bréf bæjarráðs Neskaupstaðar um þetta mál:
    ,,Á fundi bæjarráðs Neskaupstaðar, sem haldinn var í dag, var eftirfarandi tillaga samþykkt:
    Bæjarráð Neskaupstaðar mælir eindregið með því að frv. sjútvrh. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum verði samþykkt.
    Vandinn sem við blasir er margþættur, hann snýr að eigendum loðnuskipa og verksmiðja, að því starfsfólki sem unnið hefur við þessa grein sjávarútvegsins og að sveitarfélögunum sem byggja að verulegu leyti afkomu sína á veiðum og vinnslu loðnu.
    Bæjarráð Neskaupstaðar bendir þó á að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, duga hvergi nærri til að leysa vanda loðnuflotans, hvað þá til að mæta öðrum afleiðingum loðnubrestsins.``
    Getur verið hægt að segja hlutina skýrar? Er hægt að segja það skýrar að það frv. sem hér er lagt fram er gagnslaust? Það er verið að hlaupa fram hjá aðalatriðunum, jafnvel þó bæði í upphafi og enda þessarar samþykktar sé lýst yfir að þeir samþykki frv. Vandinn sem við blasir er margþættur. Hann snýr að eigendum loðnuskipa og verksmiðja og að því starfsfólki sem unnið hefur við þessa grein sjávarútvegsins og að sveitarfélögunum sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á veiðum og vinnslu loðnu. Þessir aðilar eru skildir eftir, einn hópur tekinn út úr. --- Er hv. þm. Halldór Blöndal genginn úr salnum? ( Gripið fram í: Hann er hér í hliðarsal.) Hann óskaði eftir sérstakri skilgreiningu á því hvernig hann væri að leggja til skattlagningu. Ég var búinn að útskýra það og ætla ekki að eyða tíma deildarinnar í að flytja það mál tvisvar þó maður vilji leggja ýmislegt á sig fyrir hv. þm. Halldór Blöndal. En ég veit að hann gerir sér manna best grein fyrir því hvernig skattlagningin felst í þessu frv.
    Ég lofaði að vera ekki of langorður, er þó sjálfsagt búinn að vera það. Við munum greiða atkvæði gegn frv. í heild ef till. okkar við frv. verða felldar.