Frsm. meiri hl. sjútvn. (Stefán Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Aðeins örstuttar athugasemdir sem mig langar til að koma á framfæri. Ég þakka náttúrlega þeim ágætu þingmönnum sem hafa kynnt nál. okkar Jóhanns Einvarðssonar sem við lögðum fram um Hagræðingarsjóðinn. Ég skil það að þeir átta sig betur á því núna en áður hvers virði það var að koma þessum sjóði á. Ég þakka þeim fyrir að kynna þetta þannig að það verði enn og aftur fært til bókar.
    Í sambandi við það sem hv. 4. þm. Vesturl. vék einnig að að það þyrfti að fjalla um úthlutun úr Hagræðingarsjóðnum, bæði í Byggðastofnun og eins í stjórn Hagræðingarsjóðsins, og hvort það væri gert. Það er náttúrlega ekkert farið að úthluta úr þessum sjóði enn. Fyrst er að samþykkja hér hvort þetta verði gert og þá fyrst getum við farið að skoða hvort ekki verður staðið við það sem upphaflega var talað um. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en það verði gert. Það verði farið með þetta eftir eðlilegum boðleiðum. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað.
    Einnig kemur það fram í máli hv. þm. að hann er talsmaður þess að nota 9. gr. frv. um stjórn fiskveiða. Ég skil hann svo að hann sé talsmaður þess að nota 9. gr. Það sé ástæða til þess að nota hana. (Gripið fram í.) Ég banna ekki hv. þm. að hafa skoðanir á málinu og hef aldrei gert og ég hef ekki trú á að nokkrum manni takist að breyta því. Ég skildi hv. þm. svo að hann væri að tala um að það væri ástæða til þess að nota 9. gr. sem þýðir flatur niðurskurður á alla þá aðila sem hafa fengið úthlutað afla.
    Ég verð að segja það að ég er andvígur því að skera niður með flötum niðurskurði aflahlut hinna ýmsu skipa og báta sem þegar hafa fengið úthlutað aflamarki.
    Varðandi það að sjóðurinn sé uppurinn, þá vil ég segja frá því, og að menn bara glöggvi sig á því, að fiskveiðitímabilinu sem breytt var með lögunum lýkur núna 1. sept. nk. og þá tekur nýtt fiskveiðitímabil gildi sem þýðir að þá verður til í Hagræðingarsjóði að nýju 12 þús. tonna þorskígildi. Ég vona það og ég sagði það, sjóðurinn er ekki uppurinn. Það má enn nota það sem eftir er í sjóðnum til þess að bjarga í neyðartilfellum og í haust kemur aukið magn að nýju til sjóðsins. Það hefur því ekkert komið fram í þessu máli sem kemur í veg fyrir það að hann geti virkað sem neyðarsjóður ef á þarf að halda. Það er alveg deginum ljósara og menn þurfa að átta sig á því að það er breyting á fiskveiðitímabilinu.
    Umsögnin, sem hv. 4. þm. Vesturl. las frá Neskaupstað, er hárrétt, en í upphafi leggja þeir til að frv. verði samþykkt. Ég eyddi nokkrum tíma í það einmitt í mínum upphafsorðum að leggja áherslu á það að með frv. er alls ekki tekið á öllum vandanum. Það er mér ljóst. Ég setti hér fram ýmsar hugmyndir í þessu máli sem gætu hugsanlega orðið til þess að létta á vanda hinna ýmsu aðila sem verða fyrir áfalli vegna loðnubrestsins, bæði sjómannanna og eins verkamanna

í landi sem vinna við verksmiðjurnar. Það vil ég því taka skýrt fram.