Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Skúli Alexandersson) :
    Herra forseti. Mér þykir miður að þurfa að eyða tíma deildarinnar í að leiðrétta það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði um mína skoðun á 9. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, að ég teldi að það ætti að beita henni við þær aðstæður sem núna eru. Það er mjög fjarri því að það hafi komið í minn huga að þeirri grein yrði nokkru sinni beitt. Ég lagðist gegn henni þegar var verið að afgreiða fiskveiðistjórnarfrv. á síðasta vori ásamt Karvel Pálmasyni og fleiri þingmönnum hér í hv. deild. Ég lagði einnig til í undirbúningsnefndinni um frv. til fiskveiðistjórnarlaga að þessi grein yrði ekki sett í frv.
    Það sem ég var að segja áðan var að þeir sem studdu þessa grein og lögðu mikið upp úr því að hún yrði sett í fiskveiðistjórnarlögin eru að heykjast á því að beita henni og það er vel. Þeir ættu kannski að heykjast á ýmsu fleira, en það er mjög gott að þeir hafa heykst á þessari grein. Og vera svo að segja það að þeir séu að beita öðru með því að nota Hagræðingarsjóðinn er ekkert annað en breiða yfir fullyrðinguna um að þeir hafa heykst, sem betur fer, á 9. gr. Ég tel, og ætla nú að gerast dálítið spámannlegur, að þessari grein verði aldrei beitt og þykir mér það mjög góð þróun. Væri vænlegra að fleira kæmi fram í sambandi við ýmsar greinar í fiskveiðistjórnarlögunum, að hlutirnir yrðu látnir liggja og ekki framkvæmdir eins og virðist vera með 9. gr.