Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég vil aðeins segja það að sá loðnubrestur sem nú hefur orðið gefur ekki tilefni til þess að taka upp umræður um stjórn fiskveiða almennt. Á hinn bóginn hygg ég að það sé einsýnt að frv. eins og það liggur fyrir felur í sér sanngjarna lausn til þess að koma til móts við útgerðarmenn loðnuskipa. Ef ástand fiskstofna væri betra en raun ber vitni, þá hefði að sjálfsögðu verið reynt að ganga lengra. En þarna er stigið nokkurt skref og ég vona að þingmenn beri gæfu til þess að blanda þessum sérstaka vanda ekki saman við þau almennu deilumál sem uppi eru um stjórn fiskveiða.