Slysavarnaskóli sjómanna
Mánudaginn 04. mars 1991


     Frsm. samgn. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá samgn. um frv. til laga um Slysavarnaskóla sjómanna.
    Í nál. segir, með leyfi forseta: ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið um það umsagnir frá Sjómannasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi slökkviliðsmanna, fræðsluráði sjávarútvegsins, Siglingamálastofnun ríkisins, öryggisfræðslunefnd sjómanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Vélskóla Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Austurlands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða og Sambandi íslenskra tryggingafélaga.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta nál. rita Árni Gunnarsson, Kristín Einarsdóttir, Matthías Á. Mathiesen, Friðjón Þórðarson, Björn Grétar Sveinsson og Ólafur Þ. Þórðarson.
    Í brtt., virðulegur forseti, vegur það þyngst að inn eru tekin frá upphaflegu frv. ákvæði til bráðabirgða sem koma í staðinn fyrir 3. gr. frv. sem nokkrar athugasemdir voru gerðar við hjá þeim aðilum sem leitað var umsagnar hjá. Það er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæðið verði svohljóðandi:
    ,,Samgrh. skal eigi síðar en 1. febr. 1993 leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna sem m.a. kveði á um skyldu sjómanna, sem lögskráðir eru, til að hafa hlotið grundvallarfræðslu um öryggismál í Slysavarnaskóla sjómanna þegar lögskráning fer fram.``
    Virðulegi forseti. Ég hirði ekki um að fara nákvæmlega ofan í þessar brtt. en það er gert ráð fyrir nokkurri breytingu á 4. gr. frv. um skipan skólanefndar. Síðan eru orðalagsbreytingar sem koma fram í 1. og 2. brtt. og samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er augljóst að 3. gr. frv. fellur brott, eins og fram kemur í 3. brtt. frá samgn.