Slysavarnaskóli sjómanna
Mánudaginn 04. mars 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir þessar skýringar. En ég vil aðeins segja það hér að þessu gefna tilefni að ég held að það sé mál til komið að Íslendingar séu varkárari þegar menn eru sendir á sjó, t.d. mjög ungir menn, því að dæmi eru þess fjölmörg að menn hafa jafnvel verið ósyndir og það hefur vantað mikið á að menn hafi verið fullkomlega ábyrgir í slysavörnum á íslenskum skipum. Ég vil þess vegna mælast til þess að hv. samgn. geri sitt til að úr þeim málum verði bætt og treysti henni alveg til þess. Við höfum dæmi um að ársskýrslur rannsókna á slysum á sjó segi okkur að það sé ekki nógu vel að þessum málum hugað og nú er tækifæri til þess að taka þau mál til endurskoðunar.