Slysavarnaskóli sjómanna
Mánudaginn 04. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég get að sumu leyti tekið undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um gildi 3. gr., en þegar grannt er skoðað er náttúrlega aðalatriðið með þessu frv. það að efla fræðslu og þekkingu þeirra sem starfa við sjómennsku á þessum málum. Ég held að ef við lesum 2. gr. frv. og hægt verði að framkvæma þetta frv. eins og verið er að leggja áherslu á með þessu lagafrv., að við náum tökum á því að koma í veg fyrir að menn ráði sig á skip til þessara starfa öðruvísi en hafa þá grunnþekkingu sem allir íslenskir sjómenn þurfa auðvitað að hafa. Þetta er öryggismál sem gengur fyrir öllu og þess vegna held ég að það skemmi ekki frv. þó þessi grein falli út. En ég tek undir með hv. þm. að aldrei er of fast tekið á mikilvægi þessarar grunnmenntunar og þeirri þekkingu sem sjómenn þurfa að hafa á öryggismálum. Ég treysti því fullkomlega að þessi breyting um Slysavarnaskóla sjómanna stuðli að því ef vel er að staðið.