Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. að hér hefur aðeins hálfleikur tapast en leikurinn er ekki búinn, hann heldur áfram, og þeir sem koma til með að halda honum áfram vinna að sjálfsögðu að því að fá leiðréttingu þessara mála. Ég held að þessar málalyktir á Norðurlandaráðsþinginu séu okkur aðvörun um það að halda fram rétti okkar sem sjálfstæðrar þjóðar í vaxandi alþjóðahyggju sem leiðir af sér vaxandi flokksræði.
    Ég tók þátt í umræðum um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs hér fyrir rúmlega viku síðan. Ég minntist einmitt á þetta í þeirri umræðu og varaði við því sem nú er komið á daginn. Hins vegar vil ég láta það koma fram í þessari umræðu að það er ástæðulaust að taka þetta mál þannig upp að við eigum að draga okkur út úr þessu samstarfi eða fara í einhverjar slíkar aðgerðir. Við vinnum að sjálfsögðu áfram í norrænu samstarfi sem við höfum mikinn hag af. En þetta er viðvörun og þetta er viðvörun um þá miklu alþjóðahyggju sem nú ryður sér til rúms og viðvörun til okkar um að halda fram rétti okkar sem sjálfstæðrar þjóðar með sjálfstætt þjóðþing, en grundvöllur starfsemi Norðurlandaráðs er starfsemi fimm sjálfstæðra þjóðþinga. Það er grundvöllurinn sem við eigum að vinna eftir.