Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Í umræðum um norrænt samstarf sem fram fóru í þinginu 21. febr. sl. lýsti ég ásamt fleirum áhyggjum yfir þeirri þróun sem virtist vera að verða í norrænu samstarfi, að jafnrétti milli ríkjanna ætti ekki að vera í hávegum haft áfram og ákvörðunarvald færðist meira yfir í flokkahópana heldur en eðlilegt getur talist. Þetta er einmitt það sem nú hefur gerst.
    Ég tek undir með hv. þm. Páli Péturssyni að við eigum í sjálfu sér ekkert að vera að gera of mikið úr þessu þó að formennska í einni nefnd hafi ekki fallið Íslendingum í skaut. En ég legg aðeins áherslu á það að þetta hefur verið eitt af því sem hefur sýnt það að jafnræði hefur ríkt á milli ríkjanna alveg burt séð frá stærð þeirra og það er það sem ég tel að eigi að vera áfram.
    Þessar breytingar á 52. gr. Helsingfors - samningsins sem hið norræna samstarf byggir á þýðir það að einfaldur fundur í Norðurlandaráði getur breytt tölu fulltrúa í forsætisnefndinni. Það þarf sem sagt ekki lengur að fara með það fyrir þjóðþing ríkjanna ef mönnum dettur í hug að breyta þessari tölu og það er einmitt það sem við sættum okkur ekki við og eigum ekki að sætta okkur við.
    Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. samstarfsráðherra fyrir að hafa neitað að skrifa undir þessa samþykkt sem gerð var á síðasta Norðurlandaráðsþingi nema þá með fyrirvara sem varð aftur til þess að undirskriftaathöfninni sjálfri var frestað.
    Ég tel að við eigum ekki að samþykkja þessa breytingu sem gerð var á Norðurlandaráðsþinginu. Alþingi á ekki að samþykkja hana. Þessi tala á að vera óbreytt, tveir fulltrúar frá hverju ríki og þar með 10 í Norðurlandaráði. Það væri út af fyrir sig hægt að fallast á það að þeir yrðu mest 11 til þess að verða við beiðni vinstri sósíalista um að fá fulltrúa í forsætisnefndina. Síðan tel ég að það eigi að fara inn í starfsreglur Norðurlandaráðs að formennsku í nefndum eigi að deila á milli ríkjanna.