Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Miðað við þær reglur sem nú gilda um tilnefningu fulltrúa í Norðurlandaráð er það svo að ekki eiga allir fulltrúa. Þannig fylgjumst við þingkonur Kvennalistans aðeins með úr fjarlægð og í fjölmiðlum og reyndar þeim ágætu skýrslum sem hér eru lagðar fram. Þannig fylgjumst við með því sem er að gerast á vettvangi Norðurlandaráðs á þessum fundum sem þar eru haldnir. En ég tel að starfið á vettvangi Norðurlandaráðs hafi verið mjög frjótt og gefandi fyrir okkur Íslendinga og mundi svo sannarlega sakna þess ef úr því drægi. Ég vil hins vegar benda á það að e.t.v. er það sem nú er að gerast aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal og endurspeglar e.t.v. þá þróun sem er í Evrópu þar sem verið er að mynda heild þar sem hagsmunir hinna stóru og fjölmennu ráða för.
    Ég vil í tilefni þessarar umræðu aðeins benda á að það er trúlega tími til kominn að við förum að hugleiða í alvöru hvert leið okkar liggur í samstarfi við aðrar þjóðir. Við þurfum að athuga vel hvar okkur hentar best að vera, á hvaða vettvangi, hvar við getum helst unnið á okkar forsendum sem smáþjóð. Þá vil ég t.d. minna á frændur okkar í Færeyjum og granna á Grænlandi. Ég óttast að eitthvað þessu líkt gæti einnig gerst í þeim mikla samruna ef við værum orðin þátttakendur í samrunanum mikla úti í Evrópu hvort sem sá samningur héti Evrópskt efnahagssvæði eða Evrópubandalagið. En ég ítreka það að ég tel mikilvægt að við reynum að halda Norðurlandasamstarfinu áfram og tel að þeir sem starfa á þeim vettvangi ættu að halda áfram að reyna að vinna þar að því að við höfum þar fulla aðild á jafnréttisgrundvelli eins og einhver nefndi hér áðan. En ég vil nota þetta tilefni til að benda á að e.t.v. verða ekki mörg formannsembætti laus fyrir litla Ísland á Evrópuvettvanginum.