Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykn. fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tel fulla ástæðu til þess. Íslendingar hafa á undanförnum árum tekið þátt í norrænu samstarfi með fullri reisn að ég ætla og svo þarf að vera áfram. Þeir þurfa því að vera vakandi yfir öllum breytingum sem fyrirhugaðar eru á Helsingfors - sáttmálanum.
    Það er kannski ekki svo uggvænlegt að heyra að Íslendingar eigi ekki lengur neina formenn í nefndum Norðurlandaráðs. En þó kann það að vera fyrirboði annars og meira. Ég þakka hæstv. umhverfis- og samstarfsráðherra fyrir að spyrna hér við fæti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. tók svo til orða að hér hefðu verið höfð í frammi bolabrögð og er sannarlega ástæða til þess að hrökkva nokkuð við þó að taka beri undir lokaorð hans að menn ættu að halda gleði sinni, ná rétti sínum og gæta þess jafnan hér eftir sem hingað til að hér er um að ræða jafnrétthá þjóðþing fimm Norðurlanda, en það samstarf hefur vakið athygli um víða veröld.