Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Erindi mitt í þennan stól núna er að undirstrika það hvaða áhrif þessi breyting á æðstu stigum norrænnar samvinnu getur haft niður á við í gegnum öll lög niður í grasrótina sem hefur unnið saman hér á Norðurlöndum um langan aldur. Við sem höfum unnið mikið í norrænu samstarfi á ýmsum stigum, þó ekki hinum æðstu, ef kalla á Norðurlandaráð hið æðsta sem ég geri ráð fyrir að eigi að gera, við höfum alltaf notið þess að vera jafnrétthár sjálfstæður aðili og stóru þjóðirnar. Við höfum jafnvel stundum notið smæðar okkar og fengið ýmsar ívilnanir vegna smæðarinnar.
    Ef sú þróun verður að smæð Íslands í Norðurlandaráði fer að há henni í jafnrétti gagnvart hinum Norðurlandaþjóðunum, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að það muni smita af því niður í öll önnur lög samstarfsins. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég held að það sé geysilega mikilvægt að við höldum okkar hlut á æðstu stigum, bæði í norrænu ráðherranefndinni og í Norðurlandaráði.